Fjórir mánuðir …

Það fyrsta sem yfir móður kemur sem missir er að hana langar að fylgja á eftir.  Ég get ekki alhæft fyrir allar mæður,  en tala fyrir mig sem móður.

Ég sagði prestinum mínum frá þessari hugsun og hún sagði að það væru algeng fyrstu viðbrögð.   Ég viðurkenni líka alveg að það sem gerir lífið bærilegt er sú trú að við komum til með að sameinast á ný, einhvers staðar, einhvern tímann aftur.

Í dag eru liðnir fjórir mánuðir síðan að dóttir mín var úrskurðuð látin,  eftir gífurlega erfiðan aðdraganda.  Dauðinn kom ekki bara á einu augabragði,  heldur tók yfir líf hennar smátt og smátt á nokkrum vikum.

Við sem eftir erum og syrgjum hana lifum þetta einhvern veginn af,  þó oft sé mjög þung aldan.

Ég hef unnið í því með sjálfa mig að „rísa yfir“ dauðann.   Þ.e.a.s. njóta þeirra sem eru lifandi og þess sem lífið hefur að bjóða.  Ég á jú yndislega að,  fjölskyldu og vini,  dásamleg hugsandi og þroskuð börn og falleg og dugleg barnabörn.

Það hefur ekki alltaf verið rými fyrir sorgina,  fólk,  atburðir, og lífið sjálft togar í,  stundum af ótrúlegu tillitlsleysi en við það verður ekki ráðið.

Æðruleysisbænin minnir mig á að ég get breytt ýmsu,  en af því ég veit hversu svakalega erfitt getur verið að breyta sjálfri mér og hugsunum mínum,  læt ég mig ekki dreyma um að breyta öðru fólki eða hvernig það hugsar eða hagar sínum málum. –   Það velur hver fyrir sig og fólk situr uppi með sjálft sig og gjörðir sínar.

Mín innri barátta hefur falist í því að velja kærleikann og trúna fram yfir reiði eða ótta.  Sjá elskuna innra með mér en forðast hatur og gremju.

Það reynir mjög á,  vegna þess að þó ég vilji trúa að góðir hlutir gerist,  sem vissulega gerast,  þá gerast líka vondir hlutir og erfiðir.   Þeim verðum við að taka á móti,  – ráðum þeim ekki – taka á móti þeim,  líka af æðruleysi.

Þær hörmungarfréttir bárust okkur sl. laugardag að bróðir mannsins míns hefði kvatt þessa jarðvist.

Það er of stutt á milli í einni fjölskyldu,  án þess að ég hafi um það fleiri orð hér.

Þrátt fyrir djúpa sorg og þetta stóra áfall sem hefur nú dunið á,  þá eru líka góðir hlutir að gerast.

Lítið hús,  heimili í Vesturbænum,  er í pípunum – og þá hef ég möguleika að safna saman þeim sem finnst of langt að keyra hingað á Hvanneyri í heimsókn. –   Þá er stutt fyrir börnin mín og börnin bóndans að koma í sunnudagslæri eða grill í sumarsólinni.

Ég veit fátt yndislegra en sameinaða fjölskyldu.

Henrik kemur til Íslands í byrjun júlí með barnabörnin og verða þau tvær vikur,  og ég er búin að taka frá yndislegu Lindarbrekku í viku.  Ég kíkti þangað uppeftir um páskana,  opnaði handahófskennt eina af gestabókunum og þar var ljóð eftir Evu Lind, – tilviljun?

Ég trúi ekki á tilviljanir – og kannski þarf ég ekki að bíða eftir sameiningunni,  kannski eru hin látnu með okkur,  þó sú birtingarmynd sé öðruvísi en við þekkjum.

Fjórir mánuðir eru ekki langur tími,  en samt eilífð.  Margir þröskuldar yfirstignir,  og margir enn óyfirstignir,  en með hjálp engla,  bæði mennskra og guðlegra er allt hægt.

Bóndi minn stendur í ströngu núna á erlendri grund og treysti ég því að englarnir séu hans verndarar á göngunni  ❤

Við göngum aldrei ein. 

heart-hands

4 hugrenningar um “Fjórir mánuðir …

  1. Elsku Jóhanna, ég hugsa oft til þín. Þetta eru falleg skrif og hitta þau mig beint í hjartastað. Ég vildi óska að þú vissir hvað það gerir mér gott að fylgjast með þér, takk fyrir að vera vinur minn á Facebook. Myndi vilja hitta þig við tækifæri.

  2. Elsku Ingibjörg, það er ég sem á að þakka, – þakka þá náðargáfu að geta tjáð mig og fengið útrás fyrir tilfinningar mínar með skrifum, skrifum sem í raun koma einhvers staðar frá og mér finnst þau bara koma til mín og ég deili þeim. Ég þakka fyrir að þau hafi áhrif til góðs, þau eru mín eigin sáluhjálp og yndislegt ef þau geta verið það fyrir aðra líka. Takk sömuleiðis fyrir vináttu á Facebook og ég er svo sannarlega til í að hitta þig.

  3. Fallega skrifað eins og þér er einni lagið elsku Jóhanna mín. Ég trúi heldur ekki á tilviljanir og held að allt í þessum heimi sé planlagt hvort sem okkur líkar betur eða verr. Allt hefur þetta tilgang trúi ég og held alltaf í Pollýönnutrúnna að við munum yfirstíga erfiðleikana ,með okkar hraða.
    Þar sem ég þekki ykkur báðar tvær Jóhanna og Ingibjörg og veit hvað þið hafið gengið í gegnum þá veit ég að þið hafið mikið að tala um og gott af því að hittast.Yndislegar báðar tvær með falleg hjörtu ❤
    Hjartans knús og styrkur til ykkar elsku Jóhanna mín og þið Jón eruð heppin að eiga hvort annað að í öllum ykkar erfiðleikum.

  4. Bakvísun: Mest lesið á árinu 2013 | johannamagnusdottir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s