Hvað myndir þú gera ef að karlinn þinn flytti konu inn á heimilið ykkar? –
Færi með hana út í bílskúr og léti vel að henni, kæmi svo hálfmeðvitundarlaus í vímunni yfir að hafa verið með henni inn aftur? –
Hvað ef hann sæti með henni, héldi utan um hana og gældi við hana fyrir framan sjónvarpið í sófanum ykkar og virti þig ekki viðlits. Ylti síðan útaf dauðþreyttur eftir samneytið við hana, hún tæki af honum orku – svo hann gagnaðist þér ekki í rúminu? – Vegna hennar væri hann fjarlægur.
Myndir þú ekki segja eitthvað? Myndir þú ekki segja: „Nei takk þetta er mér ekki bjóðandi“ ..
Myndir þú láta eins og ekkert væri og reyna að gera sem minnst úr þessu og umfram allt passa upp á að vinir og kunningjar vissu ekki af þessu „ástarsambandi“ sem færi fram inni á ykkar heimili.
Á einu af námskeiðunum „Lausn eftir skilnað“ – var okkur bent á það að það væri í raun hægt að halda fram hjá með flösku. Þá skiptum við bara út flöskunni og í staðinn kæmi kona/maður – eftir því sem við á.
Hvað ef þið eruð þrjú í sambandinu? – Par eða hjón og flaska – gengur það upp? Ef að áfengi er farið að stjórna eða taka yfir líf annars aðilans, þá er það farið að verða ráðandi um hvernig sambandið er.
Það er miklu auðveldara að sjá þetta sem manneskju, við myndum aldrei leyfa neinni manneskju að hreiðra um sig sem þriðja hjólið í sambandið.
Eða hvað?
Hvað er þér bjóðandi og hvað áttu skilið?
Spurningar sem eru alltaf viðeigandi.
Bakvísun: Mest lesið á árinu 2013 | johannamagnusdottir