Af hverju fleiri tómar stundir?

Ég var að flytja í gamalt hús með gamalli sál.  Þar er eldhúsið lítið og ekki gert ráð fyrir uppþvottavél. – Ég fór í nostalgíuna,  keypti mér doppótta svuntu, bleika gúmmíhanska og grænt Hreinol.   Vaskurinn er við gluggann og út um gluggann sé ég svo falleg hús.  Svo á svo fallegt leirtau í mörgum litum að ég nýt þess að vaska það upp.

Eva Rós ömmustelpa, sem er þriggja ára síðan sautjánda júní, hjálpaði mér í kvöld við að leggja á borðið.  Hún tók sinn tíma – ég raðaði diskunum, en hún litríkum glösum og valdi sér blátt.

Þetta tók tíma.

Við vorum lengi að borða, ég, einkasonurinn og einkasonardóttirin enda lá okkur ekki á.

Síðan tókum við saman eftir matinn og ég vaskaði upp,  rauða, bláa og græna glasið,  ofnfasta fatið, hvítu diskana sem ég keypti í Ilva hér um árið, áður en Ilva var komið til Íslands og ég hugsaði til Evu því ég keypti þá með henni. –

Uppvaskið er hugleiðsla.

Ég sakna ekki uppþvottavélar ekki frekar en ég sakna tómra stunda.  Tómar stundir hafa fengið heitið „tómstundir“ og nú rembist fólk við að fylla upp í tómar stundir – og menn læra í skólum að vera tómstundafræðingar.  Allt til að fylla upp í tóma tímann sem skapast þegar við höfum náð að auðvelda lífið með vélum.

Skrítið.

Gamli tíminn er ekkert endilega allur betri.  En stundum finnst mér hraðinn bara vera að búa til tóm,  tóm til að fylla upp í,  og stundum tóm innra með okkur.

Við höfum þörf fyrir að fylla á tómið og spilum tölvuleiki eða látum okkur bara hreinlega leiðast.  Allt er svo tóm-legt.

Ég er svo þakklát fyrir að það var ekki pláss fyrir uppþvottavélina.

Ég þarf ekki fleiri tómar stundir.

2100034_picture_1237_2

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s