Mín var á leið í sturtu (sem er nú varla „Breaking News“) nema að í þetta sinn fann ég ekki handklæði í þó vel skipulögðu heimili Henriks fyrrverandi tengdasonar á Skolevangen. Ég leitaði í skápum og skúffum, en fann engin handklæðin, en þó voru nokkur notuð sem héngu inni á baðherbergi (sem er lítið svona eins og tíðkast oft í eldri húsum í Danmörku).
„Skidt med det“ – „ég nota bara eitt af þeim, þau geta ekki verið svo eitruð“ ……hugsaði ég.
Svo var ég komin í sjóðandi heita og indæla sturtuna og fór að hugsa voðalega margt (eins og ég geri alltaf í sturtu) ..sumt voða erfitt – en sumt bara gott og yndislegt. En þar sem ég var hugsi, leit ég upp og yfir sturtuhengið og sá þá glitta í handklæði! .. já, andspænis sturtunni var hilla með hreinum handklæðum.
Ég brosti auðvitað með sjálfri mér …
Við byrjum að leita – en finnum e.t.v. ekki á þeim stöðum sem við erum vön að finna, eða höldum við eigum að finna.
Þá sættum við okkur bara við það sem er, notum það sem er fyrir hendi og pirrum okkur ekki.
Tökum okkur „time out“ undir vatni eða bara í ró og næði, lítum upp og „voila“ – lausnin er fyrir augunum á okkur! 🙂
Dásamlegt hvernig lífið færir okkur stundum svörin á silfurfati.
Svona virkar sáttin, – að sætta sig við það sem við höfum – því það er fyrst þá sem við náum að slaka nægjanlega á og gefa okkur rými til að taka á móti því sem er að koma,
Þurrkaði mér svo með hreinu og fersku handklæði og hef það reyndar vafið um hárið núna.
🙂