Feður og dætur ..

Ég hef verið að lesa svo sorglegar fréttir undanfarið, sem innihalda samskipti feðra og dætra.  Þið vitið um hvaða fólk ég er að tala. Það skiptir ekki öllu máli, – og þessi pistill fjallar ekki um einstök mál heldur bara almennt um þessi tengsl, og það sama gildir um tengsl milli annarra í fjölskyldunni, hver svo sem þar eiga í hlut.  Auðvitað gæti þetta verið móðir og sonur, eða systir og bróðir.

Öll þessi vondu samskipti eiga sér rætur í sársauka. EInhver segir eitthvað eða gerir eitthvað út frá eigin sársauka.

Er allt þetta fólk sem tilheyrir sömu fjölskyldunni tilbúið til að ganga ósátt til hinstu hvílu? –   Hvað ef að einhver deyr og ekki hefur náðst sátt?

Það er svo sorglegt að horfa upp á ættingja, jafnvel í valdabaráttu, um eitthvað sem eyðist,  þ.e.a.s. þessi völd flytur enginn með sér inn í eilífðina. –  Sálin fer með okkur inn í eilífðina, sál sem hefur e.t.v. ekki náð að fyrirgefa.  Og eftir verður sál sem heldur nær ekki að fyrirgefa,  sál sem situr uppi með að vera búin að missa e.t.v. barnið sitt og kvaddi það ekki með sátt. –

Í mínum huga er fátt sorglegra.

Mér finnst þetta líka ákveðið vanþakklæti fyrir lífið.  Að eiga dóttur eða eiga föður, að eiga son, að eiga móður,  en ná ekki að njóta þess að eiga samskipti við hvort annað.

Sum sár eru svo djúp að þau er erfitt að heila,  en þar finnst mér að guðsfólkið,  eða sem telur sig trúa á kærleiksríkan Guð,  ætti einmitt að biðja Guð um lækningu og heilun.  Biðja Guð um að hjálpa sér við fyrirgefninguna.

Ég hef litla trú á illskunni, hvað sem hver segir.  Ég trúi að hún sé til, en ég trúi að það sé hægt að afvalda hana með elskunni.

Ég trúi ekki öðru en að faðir liggi andvaka að geta ekki talað við dóttur og að dóttir liggi andvaka að geta ekki talað við föður. Þetta er tap á báða bóga. –

Fyrirgefningin er stærsta gjöf sem hægt er að gefa sjálfum sér.  Hún þýðir ekki að við höfum samþykkt gjörðir eða orð hinna,  hún þýðir að við sleppum tökum á reiði, gremju, og öllu því sem hið vonda vill að við höldum fast í.  Ég trúi að við getum snúið á illskuna með því að samþykkja hana ekki,  og gera hana ekki að okkar. –

Við syndgum öll einhvern tímann, sum í smáu önnur í stóru. Við gerum öll mistök einhvern tímann.

Þegar ásakanirnar birtast á víxl í blöðunum – er það réttur vettvangur til fyrirgefningar? –   Munu ásakanir á víxl leysa málin?

Ef við viljum raunverulega ná bata og betra lífi, þrátt fyrir að vondir hlutir hafi gerst,  – þá þurfum við að sýna skilning en ekki stunda það sem kallað er „The Blaming Game.“ –

Hættum að leita að sökudólgum og förum að skilja AF HVERJU hlutirnir gerast, eða fólk hegðar sér á ákveðinn hátt. það er miklu farsælli leið til að leysa flest mál og deilur.

Lífið er of stutt og of mikilvægt til að því sé lifað í deilum, ekki gera ekki neitt, eins og þar stendur,  enginn einstaklingur getur verið hamingjusamur hvort sem sál hans er plöguð af skömm vegna vondra leyndarmála eða lifir með sál sem nær ekki að skína  vegna reiði og gremju.

Með von í hjarta að þessi skrif hjálpi til skilnings á mikilvægi þess að eyða ekki lífinu til einskis  .. okkar dýrmæta lífi.

424816_387786877901754_155458597801251_1714720_1712323506_n

Er hefndin sæt – eða súr? …

Ef þú hefur einhvern tímann rekið tána í stálfót – þá þekkir þú tilfinninguna sem kemur.  Sársauki – reiði og margir bölva upphátt.  Engum dettur þó í hug að sparka aftur á sama stað,  því þá meiðir sá hinn sami sig aftur. –

Það er ekki hægt að kenna neinum um nema okkur sjálfum að hafa rekist á stólinn.

Þegar aftur á móti einhver klessir innkaupavagninum aftan á hælana á þér í Bónus,  og þú finnur til – þá ertu komin/n með „sökudólg“ og gætir hvesst þig við hann,  sársaukinn er þó hinn sami,  og verknaðurinn var væntanlega og að öllum líkindum óviljaverk – og fæstir öskra á þann sem meiðir þá,  eða tekur sinn vagn og þrusar aftan á „sökudólginn.“ –

En í hvaða tilvikum þurfum við „hefnd?“ –

Væri það ekki ef að stóllinn hér i upphafi hefði sjálfstæðan vilja (sál) tilfinningar og myndi hreinlega ráðast á okkar tær? –   Eða að náunginn í Bónus hefði keyrt viljandi aftan á hælana á okkur?

Kannski felst hefndarviljinn helst í því að fólk þráir að einhver – og þá aðilinn sem særði SKILJI hvað þetta er vont.  Það liggur í fæstum tilvikum í því að vilja meiða.  Ef að sá sem keyrir aftan á biðst einlægrar afsökunar þá þurfum við varla að sýna honum framá hvað hann meiddi okkur mikið.

Hvað með hin andlegu sár? – Hvað með sárin eftir trúnaðarbrest eða höfnun? –   Höfnun upplifir fólk þegar makinn heldur framhjá með öðrum aðila.  Á þá að halda framhjá á móti og eru þá báðir aðilar komnir á sama plan? –  Er ekki bara skaðinn skeður og annað hvort að vinna í sáttum og fyrirgefningu eða kveðja stólinn, – nei ég meina makann?

Það er nefnilega þannig að reyna að hefna sín – með því að gera það sama, er eins og að sparka aftur í stólinn,  sársaukinn verður bara meiri.

En vissulega getur verið að þú sért búinn að kenna maka þínum „Lexíu“ – þ.e.a.s. nú hefur hann upplifað sársauka trúnaðarbrestsins,  eða það að þú ert búin/n að kenna henni hvaða tilfinningar það koma þegar þú stígur út fyrir ykkar heitbindingu.

En þetta er ekki sæt hefnd, hún er súr.

Auga fyrir auga, tönn fyrir tönn skilur heiminn eftir blindan og tannlausan. – Reyndar var þessu mótmælt í „The Intouchables“ þar sem síðasti maðurinn verður væntanlega eftir með eitt auga og eina tönn,  eða hvað?

En við náum því sem talað er um.

Það sem við viljum fá út úr hefndinni er einhvers konar uppgjör – skilningur og það þarf ekki alltaf að vera að gera það sama við gerandann og hann gerði þér. –

Dauðarefsingar eru löglegar enn í einhverjum fylkjum Bandaríkjanna, –  við sjáum í bíómyndum þar sem bugaðir foreldrar sitja og horfa á aftöku morðingja barnsins þeirra.   „Nú er réttlinu fullnægt“ – gæti setningin verið.

Líf fyrir líf – en hvað?  Er hefndin sæt? –  Fara foreldrarnir heim með bros á vör og sól í hjarta?  Er barnið komið til baka?    Auðvitað ekki.

Og er ekki verið að hefna sín á röngum aðila?  Ætli það séu þá ekki aðstendendur þess sem gerði sem sitja eftir með sorgina að missa.  Þá eru komnir fleiri syrgjendur í heiminn, gleði, gleði – eða ekki.

Það er eitthvað hörmulega rangt við þessa „hefnd“ –

Fólk þarf svo sannarlega að taka afleiðingum gjörða sinna,  fræðast,  skilja og átta sig.  Ef þetta fólk er ekki fært um það, og glæpurinn er á því stigi að það er hættulegt samfélaginu,  þarf að einangra það frá þeim sem það getur valdið skaða og til þess eru fangelsin.  Auðvitað eiga þau að standa undir nafni líka sem „betrunarhús“ – og þar þyrfti að vera öflugt starf þar sem farið er í að vinna uppbyggingarstarf með þá sem eru þar.

Enn aftur að fórnarlömbunum.  Það er einhver fróun sem fólk leitar, leitar skilnings,  það vantar eitthvað eða einhvern til að beina sársauka sínum og reiði að.

Vandamálið er að það að rífa auga úr þeim sem rífur auga úr okkur færir okkur ekki sjonina á það auga. –

Jú – hinn er eineygður líka,  en það breytir engu fyrir okkar sjón.

Til að geta náð bata – andlegum bata,  þurfum við að fyrirgefa, fyrirgefa OKKAR vegna.  Vegna þess að batinn næst ekki meðan við hvílum í reiðinni.   Batinn næst ekki meðan við erum föst í ásökun.  Batinn hefst þegar við sleppum tökunum á geranda,  kveðjum hann – höldum okkar leið, stillum fókusinn af honum og á okkur.  Byggjum upp andann, sættumst við aðstæður,  svona ERU þær og við getum ekki breytt því sem gerðist – svona afturábak. Við getum ekki breytt fortíð og sama hversu mikið við meiðum og lemjum einhvern –  við fáum ekki það til baka sem við misstum.

Höldum áfram,  og besta „hefndin“  í sumum tilvikum er einmitt að vera hamingjusöm. –   Það er ekki bara besta hefndin,  heldur í þeim tilvikum sem við höfum misst,  þá er það það hið besta sem við getum gert fyrir þann sem við höfum misst.  Þið getið bara hugsað það út frá sjálfum ykkur,  ef þið færuð úr þessari jarðvist,  mynduð þið vilja að ættingjar sætu fastir í reiði og hefndarhug eða næðu sér á strik og yrðu glöð og hamingjusöm? –

Hvað með trúnaðarbrestinn og höfnunina? –  Hvað ef að þessi fyrrverandi sér nú eftir ykkur og sér að þið eruð bara lukkuleg og glöð án hans/hennar?

Að fyrrverandi sé ekki sólin ykkar og tunglið og þið komist áfram og séuð farin að dansa salsa og ganga á fjöll með skemmtilegum hópi? –  Eða bara eiga ykkar glöðu stundir með sjálfum ykkur? –

Það er sætleiki en ekki súrleiki.

Það er af mörgu að taka hér – og ég hef tekið ýmislegt hér inn sem við gætum viljað hefna fyrir.  En hefndin – svona klassíks þar sem við viljum gera það sama við hinn aðilann – gengur sjaldnast upp.  Hún er súr og við gætum í sumum tilvikum alveg eins sparkað í stólinn sem við meiddum okkur á aftur, og svo aftur og bara meitt okkur út í hið óendanlega.

Þér hafið heyrt, að sagt var: ,Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn.`

En ég segi yður: Rísið ekki gegn þeim, sem gerir yður mein. Nei, slái einhver þig á hægri kinn, þá bjóð honum einnig hina.“ –  (MT 5.:38-39)

Þetta þýðir að við förum ekki á sama plan og sá/sú sem slær.  Við rísum yfir það og tökum ekki þátt.  Skiljum að flest ofbeldi eða það sem á okkur er unnið er út frá sársauka, dómgreindarleysi eða vanmætti þess sem fremur verknaðinn.  (Ofbeldi er í raun vanþekking og vanmáttur – vanmáttur þess að geta tjáð og ástundað kærleika – og kærleika kennum við varla með ofbeldi).

Kristur segir á krossinum,  „faðir fyrirgef þeim því þau vita ekki hvað þau gjöra“ –  er það ekki skýrasta dæmið?

Fyrirgefningin er gjöf til okkar sjálfra, – ef hún reynist okkur ofviða má feta í fótspor frelsarans og biðja föðurinn,  æðri mátt, lífið að taka boltann – fyrirgefa fyrir okkar hönd, því mennska okkar hindrar okkur í því að fyrirgefa beint og milliliðalaust. –

En fyrirgefning er fyrst og fremst gjöf frelsisins til okkar sjálfra,  hún hindrar það að hegðun annarra tæri upp okkar eigin hjörtu.

Fyrirgefningin er sæt.

1234933_10151721377503141_1503000993_n

Einföld formúla ánægjunnar ..

1. Þakklæti fyrir það góða sem er í lífi okkar (upplagt að minnast þess á hverjum degi seinni partinn, og endilega virkja alla fjölskyldumeðlimi, æði fyrir börn að alast upp við þennan sið).

2. Gleði – ánægja er afrakstur þakklætis, og kemur vegna þess að við höfum nú stillt fókusinn meira á það sem við erum þakklát fyrir og ánægð með í lífinu.

3. Jafnvægi – næst mun frekar þegar við erum glöð – við nennum ekki að ergja okkur á smámunum, á öðru fólki sem er í fýlu o.s.frv. –  ef við förum í gremju eða fýlu byrjum aftur á stigi 1 og þökkum meira og ef við spólum í sama fari þurfum við e.t.v. að fyrirgefa meira (sjálfum okkur líka).

4. árangur –  næst nú í því sem við tökum okkur fyrir hendur og í samskiptum.

Gleðin er ekki einungis besta víman, hún er besta orkan sem kemur okkur áfram að því markmiði sem við stefnum og að ganga í gleði hlýtur að vera mikill lífsárangur!

Eigum góðan dag og leikum okkur! –

426349_4403581721455_1819512707_n

 

Skammgóður vermir …

…að missa piss í skóna. –

Það neitar því þó enginn að það hitar,  en eins og segir í titlinum – það dugar skammt.

Talandi um skó, þá er það líka skammgóður vermir að kaupa sér skó! –  Hversu fljótt verða skórnir bara hversdagslegir og við þurfum næsta par til að „gleðja“ okkur?

Það sem ég er að byggja upp hér er smá umræða um það sem kallað er ytri markmið,  en áhrif þeirra er svolítið eins og þessi skammgóði vermir, – það kemur alltaf „hvað næst?“ .. Markmið sem virka svo stórkostleg þegar við höfum ekki náð þeim – eins og að fá gott starf – verður hversdagslegt þegar við erum búin að venjast titlinum. Makinn sem virkaði eins og fjarlægur draumaprins/prinsessa áður verður svona eitthvað sjálfsagður, við kunnum sjaldnast að meta hann/hana eða finnst hann/hún bara alls ekkert endilega uppfylla væntingar um þetta „drauma.“   Við förum í sólarferðina og hún er „púff“ búin. –

Sólin var skammgóður vermir,  því svo er komið heim á hið kalda Frón á ný og við þurfum smá aðlögun  á eftir – eftir að hafa fengið nasaþefinn af hlýju, kvartbuxum, að borða undir berum himni o.s.frv. –

Hvað er þá það sem endist og er ekki svona skamm-eitthvað?

Það er það sem er raunverulegt,  raunveruleg eign, innri fjársjóður,  lífsfylling sem er ekki frá okkur tekin –  ekki með því að verða atvinnulaus, makalaus, peningalaus o.s.frv. –   Það eru þessi uppfylltu innri markmið, ást, friður og gleði sem eru þarna til staðar til langframa,  sama hvað gerist hið ytra.

Sjálfsástin sem hlýjar innan frá – og hægt er að rækta með því að tala fallega til þessarar sálar sem er þarna fyrir innan,  tala t.d. fallega við okkur þegar við horfum í spegil.  Horfa framhjá hinu ytra, horfa djúpt í augun okkar – alveg inn í sál og segja:

Mikið svakalega elska ég þig í dag,  og taka svo tveggja mínútna kyrrðarstund þar sem við síðan lokum augunum og skynjum með hjartanu ljósið innra með okkur,  og hitann sem það gefur.  Það er ljósið sem ekki slokknar,  eilíft ljós meira að segja.  Þó allt hverfi – hið ytra, er þetta allt sem þarf.

Þetta er það sem má kalla „dýrðarlíkaminn“ sem rís upp á hinstu stundu,  en það má líka kalla dýrðarlíkamann; sálina.

Já núna fór ég allt í einu í prédikunargírinn, en það bara gerist – ræð ekkert við þessa fingur á lyklaborðinu, – ég held að þetta hljóti að vera „dýrðarfingurnir“  🙂

Elskum friðinn – strjúkum „dýrðar-kviðinn“ ..

733833_10201743643821718_1138113304_n

Að þroskast eftir skilnað ….

Reynsla mín af sorg – er sú að það er mjög erfitt að komast áfram ef við festumst í sorgarferlinu.  Sorg er yfirskrift yfir margar tilfinningar – og sorg er eitthvað sem við göngum í gegnum þegar eitthvað fer öðruvísi en við ætluðum.

Að festast í sorgarferli þýðir það t.d. að festast í reiði,  e.t.v. reiði út í maka vegna trúnaðarbrests.  Reiði út í maka fyrir að hafa brugðist,  – eða gremju hreinlega út í aðstæður,  svona átti þetta alls ekki að fara.

Það er ekkert nema eðlilegt að fara í gegnum sorgarferli,  en það er önnur sorg sem getur orðið meiri en hin eiginlega sorg eftir skilnað,  það er ef að enginn verði þroskinn,  en ég tel að ef að fólk lærir ekkert af þessu ferli og stöðvast í því eða flýi það þá komi ekki sá þroski sem okkur er ætlað að fá út úr ferlinu.

Sorg og þjáning er skóli – þungur skóli.

Diplóma þess skóla er sáttin,  og sáttinni náum við ekki nema að fara í gegnum tilfinningarnar, vð náum henni ekki í gegnum mat, áfengi, annað fólk – eða annan flótta eða bælingu tilfinninga.  Við verðum að taka þennan „bekk“ sjálf.

Margir skilja vegna þess að þeir telja sig ekki finna  hamingjuna í hjónabandinu –  en átta sig kannski ekki á því að í raun finna þeir ekki hamingjuna sem er innra með þeim sjálfum.

Í sjálfsrækt eftir skilnað er því nauðsynlegt og gagnlegt, að horfa inn á við – og fókusera á sjálfa/n sig.  Byggja sig upp, rækta og efla – virkja innri gleði, ást og frið.   Með því er líka verið að fyrirbyggja að farið sé í „sama“ sambandið aftur.

Það er ekkert á hverra færi að finna út úr þessu,  – en námskeiðin „Lausn eftir skilnað“ – byggja á því að viðurkenna sorgina eftir skilnað, gera sorgarferlið að þroskaferli og læra að setja fókusinn inn á við.  Ekki hanga á ásökun í garð makans,  jafnvel þótt hann hafi gerst brotlegur,  verið afskiptur eða tilfinningakaldur, –  ef fólk er skilið og ætlar að halda því til streitu þarf að taka fókusinn af fyrrverandi og setja hann heim á sjálfa/n sig. –

Enn er laust á námskeið sem hefst 5. október nk.  í Lausninni, námskeið fyrir konur í þetta sinn – og hægt að skrá sig ef smellt er HÉR   

Athugið að það eru engin tímamörk – hversu langt er liðið frá skilnaði,  þetta snýst ekki um tíma, heldur hvort að sátt sé náð eða ekki.  Stundum er fólk enn ósátt við sinn skilnað þó mörg ár séu liðin og er fast í gömlu fari.

Sáttin hefur þann töframátt að þá fyrst hefst nýr vöxtur.

552023_434727973207644_155458597801251_1864963_8980327_n

 

 

 

„Á snældu skaltu stinga þig … „

Þyrnirós svaf í heila öld – en svo vakti prinsinn hana með kossi ..

Ég heyrði af manni, hér í Danmörku, – þar sem ég er stödd núna, sem stakk sig í fingurinn – ekki á snældu – heldur á þyrni.   Hann hugsaði ekki mikið um það en líkaminn gleymdi því ekki,  því að það fór að koma illt í puttann og hann bólgnaði og varð tvöfaldur ef ekki þrefaldur að stærð, – síðan fór hann að fá verk alveg upp í handlegg svo honum leist ekki á blikuna og fór til læknis.  Maðurinn var þá kominn með ígerð í fingurinn og blóðeitrun.   Skera þurfti í fingurinn til að ná út ýmsu sem þar var farið að grassera.  Maðurinn var frá vinnu í einhverjar vikur út af þessu.

Stundum verðum við fyrir svona andlegum stungum,  allt frá því sem við teljum ekki svo mikið upp í eitthvað sem er mjög mjög sárt þegar það gerist.  –

Í mörgum tilfellum fer eitthvað að grassera,  grafa um sig innra með okkur og hafa áhrif á sálarlífð.  Það er því miður ekki eins augljóst og ígerð eða blóðeitrun sem hægt er að mæla með tækjum og sést með berum augum.

Það sem fer að grafa innra með fólki eftir andlegar stungur er skömmin,  og hún er þá sambærileg við gröftinn sem þarf að hleypa út og við blóðeitrunina sem þarf að fá pensillín við.

SKömminni þarf að hleypa út,  öllum þessum hugsunum,  meðvituðum eða ómeðvituðum sem hafa áhrif á sálarlíf einstaklingsins.

Ex-pression er enska orðið fyrir tjáningu.  Það þarf að ná skömminni út og það er gert með því að tjá sig um atburðinn,  að deila sögu sinni.  Ekki sitja uppi með hana ein/n.

Ekki halda leyndarmál einhvers –  það er líka samfélagslegt góðverk að segja frá svo fleiri geti forðast brenninetlur og þyrna.  Líka fyrir annað fólk sem þarf hvatningu til að leita sér aðstoðar við að hreinsa út gröft og eitur.

Já – skömmin er eitur.

Við þurfum öll að vakna – ekki sofa Þyrnirósarsvefni og missa þannig af því að lifa lífinu.   Vakna til meðvitundar um að það að stinga sig eða vera stungin er ekki til að halda leyndu.   Því fyrr sem brugðist er við því betra.

Ef ekkert er að gert getur slíkt haft banvænar afleiðingar.

Við eigum ekki að þurfa að þegja yfir sögu okkar og hver við erum.  Það er þvingandi og setur okkur í fangelsi hugans.

Með nýjum hugsunum – pensillínii hugans –  frelsum við okkur úr ánauð þess atburðar sem kveikti upphaflega á skömminni.  Við hættum að láta eins og ekkert sé, hættum að fela og hreinsum hana út.

Kannski var það prins eins og rannsóknarprófessorinn Brené Brown sem hefur stúderað skömm og mátt berskjöldunar í yfir 12 ár,  sem vakti okkur til meðvitundar með kossi sínum.

Það er gott að það er til fólk sem hefur þessa ástríðu,  þessa ástríðu að skilja hvernig lífið virkar – hvernig við hugsum og hvað hugsanir okkar hafa mikið vald yfir lífi okkar.

Það að upplifa skömm er ein tegund trúar, trúarinnar að vera ekki nógu góð og stundum bara næstum ónýt. –

Frelsið felst í því að hætta að trúa að við séum óverðug ástar, óverðug þess að eiga góð tengsl við annað fólk – óverðug þess að yndislegur prins eða prinsessa komi inn í okkar líf.

Við getum þegið þennan koss lífsins og verðugleikans hvenær sem við viljum.  Við getum rofið álög nornarinnar þegar vð viljum,  eða hvað?

Jú, við getum það með þeirri trú að við eigum gott líf skilið.

Enn og aftur – þetta snýst allt um trú.

Hverju við trúum um okkur sjálf.

Hvað átt þú skilið?

coexist_with_respect_bumper_sticker-p128636613026383655en8ys_400

 

Það er ekki í boði ..

Getur verið að fólk haldi að lausn þeirra mála finnist í því að finna sökudólga fyrir því hvernig komið er fyrir því? –

Eftir því sem það bendir meira á ytri aðstæður og annað fólk tekur það minni og minni ábyrgð á eigin lífi og endar með að vera gjörsamlega valdalaust.

Af hverju að taka af sér valdið, sinn eigin mátt og megin? – Af hverju að stilla sér upp sem fórnarlambi og upplifa sig föst í aðstæðum í stað þess að spyrja; „Jæja hvað get ÉG gert, og hvaða leið er nú best út úr þessum aðstæðum?“ .. Væl – vol – kvart og kvein. Það er allt í lagi að gráta og syrgja, og það er meira að segja leiðin til að halda áfram, en að festast í slíkum aðstæðum er ekki lausn, ekki bati og ekki í boði – svo talað sé gott leikskólamál.

Þetta framansagt varð að einlægum „status“ hjá mér á facebook sem margir voru sammála og langar mig að halda þessu hér til haga.  Í framhaldi fékk ég spurninguna:

  • „Að leiðbeina þeim sem biðja um aðstoð út úr svona ógöngum er meira en að segja það. Svona hugsunarháttur getur hafa viðgengist hjá fjölskyldum síðan langa langa amma bjó með honum langa langa afa „dagdrykkjumanni“ Þetta er svo „eðlilegt“ ástand út frá óeðlilegum aðstæðum. Er þetta ekki eitthvað í okkur öllum?“
    Svarið mitt var á þessa leið:
  •  Þetta er spurningin um að sleppa – um að fyrirgefa – og frelsa sig þannig úr ánauð aðstæðna og fólks í staðinn fyrir að fara dýpra inn í aðstæður eða tengjast þeim/því sem særir okkur enn fastar. Það er rétt vegna þess að því meira sem við biðjum fólk um að sleppa tökunum, þess fastar heldur það.
    Óskin verður að koma innan frá – og allir verða að eiga sitt „aha“ moment. Engin/n verður þvingaður eða þvinguð til breytinga. EKki frekar en hægt er að segja fólki að trúa. Trúin og allt sem ER kemur innan frá, frá uppsprettunni – sem vill okkur vel og er hreinn kærleikur.
    Sá/sú sem VILL hlusta  heyrir og sá/sú sem VILL sjá sér, en það er spurning hvort að viljinn sé fyrir hendi, það eru þessar endalausu hindranir og þessi mikla mótstaða (resistance) sem við erum að glíma við. Jú við öll.
    1095045_563187810407763_647635916_n

Hver er forsendan? …

Hvernig veit ég hvort það sem ég er að gera er sprottið af meðvirkni eða ekki? ..

Þú þarft að spyrja þig:  „Af hverju er ég að þessu?“  –  „Af hverju er ég í þessu sambandi?“  o.s.frv.   „Af hverju segi ég ekki nei, þegar mig langar að segja nei“? 

Ertu að gera eitthvað vegna þess að þú hefur meðvitað valið að gera það, eða er það vegna sektarkenndar eða þér finnst þér bera skylda til þess?   Hverjum skuldar þú og hvað skuldar þú?

Ertu að velja að gefa (gefa af þér)  án umhugsunar um það sem þú ert að gera?  Ertu að vonast eftir því að einhverjum líki við þig, elski þig eða geri eitthvað fyrir þig – ef þú gerir eitthvað fyrir hann eða hana?

Það er voðalega vont að gera hlutina á óttaforsendum.

Í ótta við það að vera ekki elskuð, vera ekki metin eða viðurkennd sem manneskjur.

Ef ég geri fólki greiða, þá vil ég gera það af heilum hug, ekki til þess að ég eigin eitthvað inni hjá þeim eða ég óski að ég sé samþykkt af þeim eða viðurkennd.  Að sama skapi vil ég helst ekki þiggja greiða séu þeir á þessum forsendum.

Það er líka vont að þiggja af þeim sem hefur sagt „Já“ en situr uppi með gremjuna og óánægjuna að hafa sagt það.  –

Gerum það sem við gerum, ekki til að fá þakkir, vera samþykkt, viðurkennd, elskuð o.s.frv. –  Við erum allrar elsku verð, eins og við erum.

Nánari lesning um þessi atriði eru t.d. í greinunum:

„Þú skuldar mér ekki neitt“ 

og

„Meðvirkni er ekki góðmennska“ 

Það eru nokkrir hlutir sem við þurfum að læra til að komast frá meðvirknihegðun.

1. Sjálfs-ást  (þeirri ást er best lýst með dæminu um súrefnisgrímunni á sig fyrst til að hjálpa barni).

2. Sjálfs-virðingu   (það að virða er að veita athygli, hættum að leita eftir athygli út á við og veitum sjálfum okkur athygli og viðurkenningu).  Þegar við virðum okkur fyrir okkur,  virðum við það sem við gerum fyrir okkur, við verðum okkar eigin áhorfendur.  Sjáum hvað við gerum og einmitt „af hverju“ – eða forsendur fyrir gjörðum okkar.

Þetta saman virkar þannig að ef við veitum okkur athygli, sjáum við hvort við gerum eitthvað út af elsku eða ótta. Ef við gerum eitthvað út frá ótta, óttanum við að missa eitthvað eða einhvern, þurfum við að endurskoða líf okkar og fara að pota aðeins meiri sjálfs-ást þarna inn.

Eitt lykilatriði við að vinna sig út úr meðvirknihegðun er að hætta öllum ásökunum – „blaming game“ – bæði í eigin garð og annarra.  Því þá sitjum við föst í fórnarlambshlutverki.   Sátt næst ekki með ásökunum eða dómhörku og það er aldrei fyrr en í sátt sem nýr vöxtur hefst.  

Hver er þá forsendan sem við þurfum að hafa í huga þegar við framkvæmum?

Það er að gera það í sátt við sjálfa/n sig – forsendan er sjálfs-ást og sjálfs-virðing.  Svo er hægt að byrja aftur á pistlinum til að lesa aftur um þessa tvo hluti og hvað þeir skipta miklu máli. 

552023_434727973207644_155458597801251_1864963_8980327_n

Hvar eru handklæðin? …

Mín var á leið í sturtu (sem er nú varla „Breaking News“)  nema að í þetta sinn  fann ég ekki handklæði í þó vel skipulögðu heimili Henriks fyrrverandi tengdasonar á Skolevangen.  Ég leitaði í skápum og skúffum, en fann engin handklæðin,  en þó voru nokkur notuð sem héngu inni á baðherbergi (sem er lítið svona eins og tíðkast oft í eldri húsum í Danmörku).

„Skidt med det“ – „ég nota bara eitt af þeim, þau geta ekki verið svo eitruð“ ……hugsaði ég.

Svo var ég komin í sjóðandi heita og indæla sturtuna og fór að hugsa voðalega margt (eins og ég geri alltaf í sturtu)  ..sumt voða erfitt – en sumt bara gott og yndislegt.  En þar sem ég var hugsi,  leit ég upp og yfir sturtuhengið og sá þá glitta í handklæði! .. já,  andspænis sturtunni var hilla með hreinum handklæðum.

Ég brosti auðvitað með sjálfri mér  …

Við byrjum að leita – en finnum e.t.v. ekki á þeim stöðum sem við erum vön að finna,  eða höldum við eigum að finna.

Þá sættum við okkur bara við það sem er, notum það sem er fyrir hendi og pirrum okkur ekki.

Tökum okkur „time out“ undir vatni eða bara í ró og næði,  lítum upp og „voila“ –  lausnin er fyrir augunum á okkur!  🙂

Dásamlegt hvernig lífið færir okkur stundum svörin á silfurfati.

Svona virkar sáttin, – að sætta sig við það sem við höfum – því það er fyrst þá sem við náum að slaka nægjanlega á og gefa okkur rými til að taka á móti því sem er að koma,

Þurrkaði mér svo með hreinu og fersku handklæði og hef það reyndar vafið um hárið núna.

 

eckhart-tolle-quote

 

Sama lögmál á bak við brottfall úr skóla og „brottfall“ úr hjónabandi?

Getur það verið? 

Einu sinni skildi fólk helst ekki.  Það tók ákvörðun um að fara í hjónaband og svo var það í hjónabandinu. –   „For better or worse“ – 

Það var stór ákvörðun og vegna tíðaranda – ákvörðun fyrir lífið. 

Í dag eru skilnaðir algengir, og þess vegna langar mig að velta upp þeirri hugmynd að fólk fari í hjónaband /samband með hálfum hug, með „útgönguleiðina“ í huga. –   

Það sé í raun ekki alveg ákveðið. 

Þegar við erum ekki ákveðin að láta eitthvað ganga, förum við jafnvel að horfa yfir öxlina á makanum,  skoða grasið sem er hinum megin við hæðina, – hugsunin fer í gang „ætli þessi gæti gert mig hamingjusamari?“ –  bla, bla, bla… 

Um leið og þessi hugsun er farin í gang,  þá er um leið farið að leita að ókostum hjá makanum,  safna þeim á fæl og velta sér upp úr þeim. –  Við förum (óafvitandi) að skemma hjónabandið. – 

Þökkum ekki það sem vel er gert – en verðum pirruð yfir því sem ekki er gert.  –  Búum til ósýnilegan óánægjulista.  

Gleymum svo alveg þarna í jöfnunni,  að það erum við sjálf sem gerum okkur hamingjusöm, glöð, ástfangin o.s.frv. –  

Erum e.t.v. með væntingar til maka sem við ættum að vera með til okkar sjálfra. – 

Öll okkar ógæfa verður makanum að kenna, öll okkar armæða og leiðindi. –  „Ef ég aðeins ætti betri maka“ .. hugsunin kemur upp, þá sko. – 

EKki er litið í eigin barm, ásakanir fara í gang – allt öðum að kenna. 

Ef vel gengur, – eitthvað blómstrar – er það þá makanum að þakka? 

Skoðum svo nemanda í skóla.  Skólinn er ekki fullkominn,  kennarinn ekki heldur, námsefnið ekki heldur,  en fullt af nemendum er að ná góðum árangri í bekknum. –  Nemandinn lendir í einhverri krísu, hefur ekki lært heima – og þá fer hann líka að leita að undankomuleið ábyrgðar.   Æ, lélegur kennar (og getur sagt foreldrum það) – lélegur skóli.   Nemandi finnur allt að og það vindur þannig upp á sig að hann verður fórnarlamb lélegs kerfis og skóla. 

Hvað með fólkið í hjónabandinu? –  Er það ekki fórnarlömb lélegs hjónabands,  hvað gerði það sjálft? –   

Við horfum oft fram hjá okkar eigin ábyrgð,  viljum að maki eða kennari taki ábyrgð á okkur.  – 

Ég er ekki að gera lítið úr því að til eru lélegir skólar og líka lélegir makar, –  en þegar fókusinn er á því hvað hinir geri – hvað kerfið er lélegt – hvað aðstæður eru erfiðar,  og hvort ekki sé betra að leita annað,  fara með sjálfan sig annað,  í annað umhverfi,  til annars maka,  að þá verði allt í lagi? 

Jú, stundum gengur það,  en það er undantekning en ekki regla.  Sama fólkið fer í sama hjónabandið aftur og aftur,  ekki sátt – ómögulegur maki! –   Sama fólkið fer á milli skóla, ekki sátt, ómögulegur skóli. 

Það er hægt að þroskast á milli skóla/maka,  og þá breytast hlutirnir.   Sumir makar kunna að setja mörk –  sumir skólar hafa starfsfólk sem aðstoða nemendur við að líta í eigin barm og vinna í þeirra eigin sjálfstrausti sem er oft undirstaða þess að þeir geti lært.  

Mikið að mjög vel greindum nemendum falla úr skóla,  því þeir nenna ekki að hafa fyrir því að lesa.  Finnst þeir jafnvel of gáfaðir, eða það er vesen að vakna á morgnana. – 

Hugarfarið skiptir öllu.  

Ef við gerum það besta úr aðstæðum, þá leitum við lausna í aðstæðum en ekki að hindrunum. –  

Við leitum ekki að sökudólgum. 

Ég held að fórnarlambsvæðing (aumingjavæðing?) sé eitt það hættulegasta sem við erum að glíma við. –  það að taka ábyrgð af fólki – og kenna því þannig að forðast að taka ábyrgð sjálft.

Það er vont að lifa í rými þar sem við erum aldrei viss um hvort við viljum vera eða ekki.  Það er betra að taka ákvörðun og halda henni,  gefa því tækifæri hvort sem það er skóli – hjónaband – vinnustaður.

A.m.k. ekki sitja kyrr á þessum stað í óánægjuskýi – og með hugann fjarri og sjálfa/n þig.  

Það er ekki bæði haldið og sleppt og það að vera staddur þar gerir okkur vansæl, vansæld elur á vansæld. – 

Hjónaband þar sem við erum sífellt að pæla að skilja er vont hjónaband.   Vertu eða vertu ekki. 

Hvor aðili þarf að vinna í sinni hamingju, styrkja sig og gleðja sig, – fylla á eigin hamingjubikar.  Það er hægt að gefa því x tíma og endurskoða svo stöðuna.   Eruð þið enn óánægð, hafa báðir aðilar unnið í sinni sjálfsheilun eða bara annar aðilinn.   Sá aðili sem er orðinn sáttur við sig hlýtur þá að vilja stíga út fyrir,  því að sá aðili lætur ekki bjóða sér þá andlegu depurð að vera með óánægðri manneskju. –    

Það er þetta „Should I stay or should I go“ –  að vera í vafa sem tætir upp og tærir. –  Best að leita annað – er eitthvað betra??.. 

Hvað ef að heima er best?  Hvað ef að hægt er að vinna úr því?

Hvað ef að skólinner ágætur – og nemandi þarf bara að leggja örlítið á sig – og kannski biðja um hjálp námsráðgjafa,  en algengt er að óánægðir nemendur eru ekki að leita sér hjálpar. 

Það er svo margt sem við gætum gert – en meðan við erum í fórnarlambspakkanum verðum við alveg gagnslaus. 

Eymd er valkostur.  

Hamingja er líka valkostur. 

Hvort vilt þú? 

(ekkert eeeennn…  það er sko þessum eða þessu að kenna – hamingan er heimatilbúin). 

 

Mynd_0640017