Það er staðreynd, að sumum finnst erfitt að skilja, vegna þess að þau hræðast þessa spurningu
„Af hverju skilduð þið?“ –
Í flestum tilfellum, ef ekki öllum, er svarið svo langt að það tæki heila ritgerð til að útskýra það og skýringar eiga rætur allt frá bernsku. – Svörin eru því í fæstum tilfellum góð, rétt eða sanngjörn því þau eru einhvers konar „hálfsannleikur.“
Ef að manneskju líður illa í sambandi, á það ekki að vega þyngst „hvað fólk segir“ – og leita útskýringa til að réttlæta það fyrir ÖÐRUM. –
Eitt af því slæma sem hlýst af þessu, þ.e.a.s. að þora ekki að taka skrefið út úr sambandi út af áliti annarra, er að fólk fer stundum að búa til aðstæður, meðvitað eða ómeðvitað, sem sprengja sambandið, og þá til að hafa „gilda“ ástæðu. – Ástæðu sem samfélagið samþykkir. – Einnig er það tilhneygingin að fara að leita uppi galla makans, (það sem þú veitir athygli vex).
Hvað gerist svo? ..
„Ó, já – hélt hann/hún framhjá“ – málið dautt. – Eða þá að ofbeldið hefur magnast í restina, svo öðru hvoru var „nóg boðið“ – svona miðað við almennt samþykkta staðla, en í raun var því löngu nóg boðið, en þorði ekki að hlusta á innri rödd eða samþykkja. –
Svo þegar, og ef að skilnaður verður, þá heldur oft ruglið áfram. Fólk leitar skýringa og í mörgum tilfellum þá fer hinn fráskildi aðili að mála sinn eða sína fyrrverandi í miklu ljótari litum en var í raun og veru. Fer að fegra sig á kostnað maka síns, til að réttlæta skilnaðinn, fyrir öðrum.
Þá hefst líka oft skotgrafahernaður vina og ættingja, – „ha, já var hann/hún svona ömurleg/ur, – vá hvað þú ert mikil hetja“ – o.s.frv. – Það er upphafningin á kostnað fyrrverandi, en alveg látið liggja á milli hluta að það voru þarna tveir aðilar sem kannski voru bara ekkert sérstaklega góðir í samskiptum sín á milli. –
Kannski bara tveir aðilar sem voru með ólíkar væntingar og vegna vonbrigða við brostnum væntingum, urðu þessir aðilar sárir og fóru að eiga í vondum samskiptum. Upphefja sig á kostnað makans í sambandinu (hæðast að maka sínum, eða gera grín fyrir framan aðra) – kvarta og kveina að makinn fullnægði ekki þeirra þörfum, hlustaði ekki nóg, skildi ekki nóg – læsi ekki hugsanir nóg o.s.frv. –
Ásakanir á víxl – „allt þér að kenna að ég er ekki hamingjusöm/samur – glöð/glaður – o.s.frv. – Ábyrgðin er orðin makans, – og það sem gerist líka að makinn tekur ábyrgðina og sektarkenndina yfir því að hafa ekki verið nógu góður. – Þetta verður vítahringur sem versnar og stækkar og eykur á vanlíðan, vanlíðanin eykur aftur vond samskipti, flótta, fíknir, ofbeldi o.s.frv. –
Þessar ásakanir halda oft áfram eftir skilnað, NEMA fólk fari að átta sig á að HAMINGJAN er heimatilbúin, þ.e.a.s. við megum ekki leggja alla ábyrgð á okkar hamingju á makann, og makinn má ekki taka af okkur ábyrgðina heldur. – Það er þetta ójafnvægi sem raskar oft samböndum. –
Þegar tveir sjálfstæðir einstaklingar mætast – í gagnvkæmri virðingu og trausti, geta þessir einstaklingar talað saman og sagt óskir sínar, væntingar og vonir UPPHÁTT og gera sér ekki endalaust vonir um að hinn aðilinn lesi hugsanir. – Þá verður ekki gremja og fýla.
Ef það sem við biðjum um, eða óskum eftir er ekki virt, þarf að skoða það á heiðarlegan hátt, eru þessar óskir – væntingar ósanngjarnar? – Þegar parið er ósammála þá er það oft sem kemur til kasta hlutlauss ráðgjafa, sem getur ráðlagt. Það er yfirleitt hægt að finna hvar jafnvægið liggur. –
Stundum eru lífsgildi, viðhorf og framtíðarsýn pars svo ólík, að þau eru í raun bara að stefna í sitt hvora áttina allt sambandið og þá er ekki skrítið að illa gangi. –
Nú er pistillinn orðinn lengri en ég ætlaði mér, en það eru margar spurningar þarna úti í loftinu. –
Spurningin „Af hverju skilduð þið?“ – er spurning fyrir parið sem skildi að átta sig á, það er spurning sem það þarf að svara til að finna út „vankunnáttu“ sína í því að vera par. – Það er spuringin sem er gott að svara ef fara á í nýtt samband síðar, svo ekki sé farið í sama pakkann á ný. –
Fólkið þarna úti – sem er forvitið – og auðvitað umhugað um þetta par er ekki aðalmálið í skilnaði. Útskýringarnar eru ekki fyrir það. Þær eru fyrir aðilann sjálfan, til að skilja sig, viðbrögð sín og samskipti sín. – Ekki til að leita að sökudólgum, og alls ekki einmitt til að leita að sökudólgum, vegna þess að það heldur aftur af bataferlinu í hverri sorg, líka skilnaðarsorginni. –
Svo ef einhver þarna úti er of meðvirkur til að skilja, of meðvirkur til að virða sínar eigin tilfinningar og pælir of mikið í því hvað hinir hugsa, þá vona ég að þessi pistill hjálpi. Við eigum aldrei að vera í sambandi eða hjónabandi á röngum forsendum, vegna þess að aðrir vilji það, eða við höldum að það sé öðrum fyrir bestu. Það hljómar líka afskaplega skakkt eitthvað.
Algengt er að talað um að sambandi sé haldið gangandi „fyrir börnin“- en iðulega eru það einmitt börnin sem eru þolendur vondra samskipta foreldra og líður oft illa með tveimur óánægðum foreldrum og læra af þeim vond samskipti. – Oftar en einu sinni hef ég heyrt þessa setningu „Ég vildi að mamma og pabbi hefðu skilið fyrr.“ – og kannski voru það foreldrar sem voru að reyna, eða notuðu það sem afsökun að halda sambandinu gangandi barnanna vegna.
Þegar foreldri virðir sig og tilfinningar sínar og lætur ekki bjóða sér lítillækkandi samskipti þá eru það betri skilaboð til barnsins en að sýna því að vond samskipti séu í lagi, en það hljóta að vera skilaboðin ef að foreldrar sýna hvort öðru óvirðingu.
Lifðu ÞÍNU lífi, aðrir koma aldrei til með að lifa því fyrir þig. Það þýðir líka að taka ábyrgð á sínum eigin samskiptum, sinni hamingju og velferð.
Ef barnið er sett í forgang, þá verða samskiptin ósjálfrátt betri, þá vanda foreldrar sig og átta sig á því að barnið tekur nærri sér illt umtal á hvorn veginn sem það er.
Það er ekki hugrekki að tala illa um maka, fyrrverandi eða núverandi, eða að reyna að reisa sig við eftir skilnað með að finna sökudólga. Það er hugrekki að stíga út úr aðstæðum sem þjóna þér ekki lengur eða eru þér skaðlegar. –
Það er hugrekki að vinna í SINNI hamingju og fylgja SÍNU hjarta.
Frelsið felst í því að hætta að hafa áhyggjur og lifa lífi sínu eftir því hvað aðrir segja, hvað öðrum finnst og hvað aðrir halda.
Þú heyrir hvað hjarta þitt segir þér, þegar þú leyfir því að komast að fyrir utanaðkomandi röddum. –
Ekki gleyma ÞÉR í glaumnum. –
Hlustaðu á hjarta þitt og fylgdu því. Fólk sem lifir af heilu hjarta er hugrakkt fólk sem sleppir því að draga ályktanir af því hvað hinir eru að hugsa.
Við kennum hugrekki með að vera hugrökk.
Lifum innan frá og út – það þýðir að hlusta á innri rödd, fylgja sínu ljósi, ljósinu sem okkur er gefið.
Það er meðvirkni þegar við höldum að við þurfum að fá ljósið frá öðrum, og trúum ekki að við höfum þetta ljós sjálf.
Kviknar á perunni?
Uppfært júní 2018: Fer bráðum af stað með námskeiðið „Sátt eftir skilnað“ – 18. Það er einn laugardagur 9:00 – 16:00 og svo 4 vikur (eitt kvöld í viku 1,5 tími í senn). Hægt er að láta vita af sér á netfanginu: johanna.magnusdottir@gmail.com –
Hægt að lesa meira ef smellt er HÉR
Sæl Jóhanna, takk kærlega fyrir þennan pistil, vel skrifað 🙂 Eigðu góðan dag 🙂 KveðjaHallveig Jónsdóttir
Date: Thu, 3 Apr 2014 11:04:39 +0000 To: hj244@hotmail.com