„Sátt eftir skilnað“ – hvað er það? ..

Þann 20. júní nk. frá 09:00 – 16:00 býð ég upp á námskeiðið „Sátt eftir skilnað“ – námskeið fyrir konur. (Ég mun einnig setja námskeið upp fyrir karla – fái ég fyrirspurnir og verði eftirsókn nægjanleg).

Hvar:
Námskeiðið verður haldið í Heilsumiðstöð Íslands,  Suðurlandsbraut 30 í Reykjavík.

Hvenær:
Laugardagur 20. júní frá 09:00 – 16:00
Þriðjudagur 23. júní frá 20:00 – 22:00
Þriðjudagur 30. júní frá 20:00 – 22:00
Facebook – hópur þar sem þátttakendur tengjast einnig.

Leiðbeinandi: Jóhanna Magnúsdóttir, prestur og kennari

Meira:

Ég hef verið leiðbeinandi á námskeiðum fyrir þau sem eru fráskilin, ég hef boðið upp á það sérstaklega fyrir konur og sérstaklega fyrir karla.

Hvernig er námskeiðið Sátt eftir skilnað byggt upp?

Námskeiðið er einn laugardagur frá 9:00 – 16:00 og síðan tvö skipti tveir tímar í senn í eftirfylgni.

Laugardagurinn hefst á að ég kynni mig og þátttakendur kynna sig.

Ég kynni mig og forsendur mínar fyrir að leiðbeina á námskeiðinu. Ég nýti þar menntun mína í guðfræði og sálgæslu, menntun mína úr kennslufræðum en síðast en ekki síst, og það sem vegur þyngst er að ég nýti og deili  minni eigin reynslu, reynslu mína að lifa af eftir skilnað, fara í gegnum sorgina við skilnað og halda áfram án þess að vera sífellt að líta í baksýnisspegilinn.

Sorgin er mér ekki ókunnug, og ég þekki muninn á sorg eftir skilnað og sorg eftir dauðsfall, svo dæmi séu tekin, hafandi misst föður þegar ég var á barnsaldri, vinkonur í blóma lífsins,  dóttur og móður árið 2013.   Ég hef þó ekki upplifað sorg eftir að missa maka við dauðsfall. 

Reynsla mín liggur líka í því að hafa verið beggja vegna borðsins, þ.e.a.s. „gamla konan“ – og „nýja konan“ – og það skapast oft „konfliktar“ vegna slíks. –   Mín börn eiga stjúpu og ég hef reynslu af því að vera stjúpa.   Skilnaður verður oft að kvennastríði, því miður.  Fyrrverandi er kölluð „sú klikkaða“ og núverandi „druslan“ ..  og kannski eru báðar þessar konur þannig að ef þær hefðu hist við aðrar aðstæður en ekki í hlutverkunum að vera fyrrverandi og núverandi hefði þeim líkað ágætlega við hvor aðra. 

Ég hef talað við ótal pör, og stundum verð ég hissa og spyr: „Voruð þið í sama sambandi?“ –   Bæði upplifa sig sem fórnarlömb ofbeldis og kannski eru þau það bæði, – það er svo erfitt oft að sjá frá sjónarhóli hins aðilans, sérstaklega þegar okkur er orðið í mun að fá skilning á OKKAR sjónarmiði.  Reiði eftir sambandsslit er oft byggð á því að við þráum að makinn sem við erum að skilja við, skilji af hverju okkur líður svona illa, skilji sársauka okkar, – og þá sérstaklega er það eftir trúnaðarbrest í sambandi.  Trúnaðarbrestur (framhjáhald) er sársaukafullt og fólk upplifir oft mikla niðurlægingu, jafnvel þó niðurlægingin eða skömmin sé í raun þess sem heldur fram hjá eða brýtur trúnað. – 

Af hverju segi ég frá þessu? – Jú, fólk spyr: „Hvað getur þessi kona kennt mér?“ –  „Er hún ekki bara einhver guðfræðingur sem þykist geta kennt eitthvað upp úr kennslubókum?“ –  „Hvaða reynslu hefur hún?“ –    Það hjálpar mér að vera guðfræðingur, því ég hef vissulega líka fagþekkingu t.d. á sálgæslu.  Það hjálpar mér líka að hafa lært kennslufræði.  En auðvitað er reynslan það sem ég byggi að mestu leyti á, það að hafa gengið leiðina á undan, svipað og leiðsögumaður sem þekkir slóðann.

En áfram að uppsetningu námskeiðisins. 

Þegar þátttakendur hafa kynnt sig og sagt í stuttu máli frá sínum aðstæðum,  í nánu og persónulega spjalli,  flyt ég fyrirlestur sem heitir:  „Sorgarferli verður að þroskaferli“  og fer jafnframt í orsakir skilnaðar og afleiðingar. –

Eftir morgunfyrirlesturinn ræðum við í hópi þær tilfinningar sem kviknuðu hjá hverjum og einum á meðan fyrirlestrinum stóð, – og oft er það sem þátttakendur eru að uppgötva hluti sem skiptir þá máli hvað varðar þeirra skilnað.  Sérstaklega orsakir,  því það er mikilvægt að átta sig á því hver rótin er, og hún er yfirleitt mun dýpri en upphaflega er haldið. –   Hún er yfirleitt sprottin af einhvers konar meðvirkni.

Í fyrirlestrum mínum legg ég áherslu á mikilvægi þess að hver og ein manneskja beri ábyrgð á eigin velferð og mikilvægi þess að við erum ekki komin saman eða á námskeið  til að ásaka eða finna sökudólga, heldur til að skilja af hverju fór sem fór. –

Fyrirgefning í eigin garð og annarra,  og það að fara að fókusera á eigið líf og eigin hamingju er lykilatriði til að ná sátt eftir skilnað,  því ef að fókusinn er á fyrrverandi þá er fólk ekki að lifa sínu lífi heldur lífi síns fyrrverandi maka.

Á námskeiðinu höfum við haft þann háttinn á að taka hádegishlé – og þá fer hópurinn yfirleitt saman eitthvað að fá sér að borða.

Eftir hádegi er síðan haldið áfram og er þá annað innlegg mitt sem leiðbeinanda og aftur síðan sest niður og rætt.

Það er nú þannig með sannleikann að hann frelsar, en hann er sár þegar hann uppgötvast. –

Í seinni fyrirlestrinum er m.a. fjallað um skömmina við að hafa „leyft“ ákveðnum hlutum að viðgangast, –  skömmina við að beygja af lífsgildum sínum og láta bjóða sér eitthvað sem manneskja með góða sjálfsvirðingu myndi ekki gera.   Það þarf því oft að byggja upp sjálfsvirðingu og sjálfstraust eftir skilnað.

Laugardagurinn er oft átakamikill tilfinningalega, og miklar uppgötvanir – „aha moment“ –  og stundum er erfit að fara í gegnum þessar tilfinningar eins og skömm, reiði, sektarkennd og höfnun,   þó vissulega komi ein góð tifinning stundum í kjölfarið og það er frelsistilfinning, sérstaklega þegar sambandið hefur verið þrúgandi eða litað af ofbeldissamskiptum. –

Það skal þó taka það fram, að það er líka mikilvægt að gera sér grein fyrir því að þó að alls konar vondar tilfinningar séu samofnar sambandinu – þá getur verið að fólk hafi átt, og nokkuð víst það hafi átt margar góðar og gleðilegar stundir og það er óþarfi að láta eins og allt hafi verið ónýtt. –

Hvert samband er eins og skóli, og það er mikilvægt að koma reynslunni ríkari út úr sambandi og nýta þá reynslu til góðs en ekki ills. –

Stundum hefur fólk skilið vegna þess að það er í vondu sambandi við sjálft sig og kennir makanum einvörðungu um.

Það er algengara en marga grunar að þegar okkur fer að líða illa, þá, í stað þess að líta inn á við og spyrja: „Hvað get ég gert“ – er litið til makans og spurt „Hvað getur hann/hún gert.“   Tilhneygingin er að vilja breyta maka sínum – en að sjálfsögðu er það ekki hægt.  Ef manni líkar ekki við makann þá er auðvitað rangt að vera í sambandinu og óheiðarlegt gagnvart honum.

Áherslan í námskeiðinu er á ákveðna viðhorfsbreytingu, sem felst í því að fara að elska sig og má því segja að markmiðið sé að trúlofast sjálfum/sjálfri sér.

Elska sig, virða sig, treysta sér og þar með að taka ábyrgð á eigin lífi og eigin hamingju.  –  Sættast við sig og samþykkja sig sem heila manneskju.   Þá fyrst má segja að við séum tilbúin í að vera hluti af pari.   Tvær heilar manneskjur sem deila lífinu saman, en ekki tvær hálfar eða brotnar sem eru að reyna að fá frá hinni það sem þær vantar. –

Meðvirkni verður til þegar við reynum að fá frá öðrum það sem við höldum að við höfum ekki sjálf. –

Gott samband er byggt upp af aðilum sem kunna báðir að gefa án þess að vænta einhvers í staðinn.   Það er vont ef að annar aðilinn er sífellt að gefa og hinn sífellt að þiggja,  og sá sem gefur, gefur aldrei nóg og sá sem þiggur fær aldrei nóg  (auðvitað ekki, því við verðum aldrei „södd“ þegar aðrir eiga að sjá um að gefa okkur eitthvað sem við ættum að gefa okkur sjálf.)

Eftirfylgnitímar eftir námskeiðið eru tvö skipti eins og sagt er frá í upphafi,   þar sem hópurinn hittist undir leiðsögn leiðbeinanda og við ræðum framvindu, hvernig gengur að tileinka sér að vinna að eigin hamingju,  og þátttakendur deila í trúnaði því sem upp er að koma í samskiptum við makann, því auðvitað eru alltaf samskipti þegar ganga þarf frá hlutum eða þegar að börn eru í sambandinu. –

Fólk skilur ekki sem foreldrar og þarf að hafa samskipti vegna barnanna og það þarf varla að taka það fram að auðvitað skipta hagsmunir barnsins mjög miklu máli. –

Ef fólk getur ekki talað saman um börnin eða mál tengd þeim, án þess að blanda öðrum tilfinningatengdum málum inní umræðuna, eða byrja að ásaka maka sinn, þá er alltaf betra að hafa bara samskipti skriflega.

Það sem er þó mikilvægt að benda á er að eðlilegar væntingar foreldra til barna sinna eru að þau séu heilbrigð, hamingjusöm og sátt. –  Það er nákvæmlega það sem börnin vilja sjá hjá foreldrum sínum,  svo markmið námskeiðs:

„Sátt eftir skilnað“ hlýtur þá að vera að ná heilbrigði, hamingju og sátt, eða a.m.k. taka ákvörðun um að vilja ná slíku og fara að stilla fókusinn þangað. 

(það gildir að sjálfsögðu fyrir barnlaust fólk líka).

Foreldrar eru fyrirmyndir og það besta sem þau geta gert fyrir börnin sín er að lifa eins og þau myndu vilja að börnin þeirra lifðu.

Vera breytingin sem þau vilja sjá hjá öðrum.

Þegar við vinnum í okkar andlegu hlið,  vinnum í meðvirkni okkar, opnum augun og verðum meðvituð og förum að læra að taka ábyrgð á andlegri og líkamlegri velferð og heilsu,  Læra að við þurfum ekki að eignast meira dót, drekka meira vín, borða meiri mat eða lifa í samviskubiti og sektarkennd,  svo dæmi séu tekin.   þá er það svo gott langtímaplan að þegar upp er staðið hljótum við að græða sjálf.

Það verða því engir lúserar þegar upp er staðið, ég vinn vinnuna mína og fæ greitt fyrir og þau sem sækja námskeiðið opna oft augun fyrir því sem þau raunverulega eiga,  heilan fjársjóð innra með sjálfum sér. – 

Þau sem hafa sótt námskeið hjá mér hafa flest heyrt dæmisöguna sem er í upphafi bókarinnar „Mátturinn í Núinu“ en hún fjallar um manninn sem sat á kassa og betlaði.  Það kom til hans maður og spurði hann af hverju hann betlaði.  Sá sem betlaði svaraði því til að hann ætti ekkert. –  Aðkomumaðurinn spurði hann þá hvort hann hefði litið inn í kassann sem hann sæti á, en hann svaraði því til að það hafði hann ekki gert.

Þeir opnuðu þá kassann í sameiningu og í ljós kom að hann var fullur af gulli. –

Fólk er fullt af gulli,  fólk sem er einhleypt,  fólk í samböndum, fráskilið fólk, – en þegar það horfir aldrei inn á við, í eigin „kassa“ þá heldur það áfram að betla og vera þurfandi í stað þess að átta sig á því að það er nóg.

Það er svo mótsagnarkennt, en það virðist vera þannig að þegar við erum sátt við okkur sjálf og í góðu ástarsambandi við okkur sjálf, þá erum við fyrst tilbúin að vera í ástarsambandi við aðra,   en það er líka lógískt.   –

Þá erum við komin með ástarsamband en ekki samband byggt á þörf.  E.t.v. þörf fyrir að vera bjargað eða þörf fyrir að bjarga. –  Eins og þörf betlarans og þess sem gefur betlaranum.  Þar verður alltaf ójafnvægi í sambandinu. –

Sátt eftir skilnað, hvað er það? – Jú, námskeið sem vekur fólk sem hefur skilið við maka sinn til umhugsunar,  og langar að vera heilt og e.t.v. geta farið í nýtt samband sem heilli og betri einstaklingur. –   Hvort sem það er aðeins samband við sjálfan sig eða líka við aðra manneskju.

Næsta námskeið  (í Reykjavík)  fyrir konur er 20. júní 2020 – haldið í Heilsumiðstöð Reykjavíkur.   Lágmarksþátttaka eru 7 og hámark 12.  Verð fyrir námskeiðið er 29.000.-  (4000.- staðfestingargjald)    en ef greitt að fullu fyrir  1. júní –  er veittur afsláttur og námskeiðið kostar þá 25.000.-   Hægt er að skrá sig eða senda fyrirspurnir  með því að senda tölvupóst  á johanna.magnusdottir@gmail.com

codependent-no-more

3 hugrenningar um “„Sátt eftir skilnað“ – hvað er það? ..

  1. Bakvísun: Námskeið í ágúst/september 2018 – Sátt eftir skilnað | JÓHANNA MAGNÚSDÓTTIR,

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s