Hvernig getum við verið sátt þegar við erum alls ekki sátt? – Þversögnin í sáttinni.

Er hægt að sætta sig við það að hjónabandið bresti? –  Er hægt að sætta sig við að vera langt fyrir ofan kjörþyngd? – Er hægt að sætta sig við það að missa náinn ástvin? –   Flestir myndu segja „nei – það er ekki hægt að sætta sig við það.“

En hvernig er að lifa ósátt? –  Hvernig líður okkur? –   Hverjum er það í hag?

Vandamálið við ósáttina er það að hún er afskaplega vondur grunnur að byggja á, og reyndar fullur af pollum, gryfjum, holum, sprungum og fleiru sem er bara alls ekkert hollt fyrir okkur. –

Það er hætta á því að ef við lendum í þessum pollum til dæmis, pollum reiði, pollum gremju, pollum haturs jafnvel, – þá eigum við það til að festast í þeim,  því þeir hafa þann eiginleika að stækka þegar við sitjum þar kyrr. –  Þess vegna þarf að fara yfir – eða í gegnum þessar tilfinningahindranir,  sem þessar gryfjur/pollar/sprungur o.fl. er.   Það er í raun ekki „short-cut“ fram hjá þeim,  en við staðnæmumst ekki í þeim,  það er í raun málið. –

Fólk getur staðnæmst í reiðipolli og dvalið þar í mörg ár.  Byggir það upp andann? Byggir það upp líkamann? –   Það er smá smuga með reiðina – að hún byggi upp, það er þegar við virkjum hana á jákvæðan hátt,  það er þá til þess að koma okkur upp, – og segja „ég á þetta EKKI skilið!“ .. það má alveg öskra það, – en ekki til að sitja áfram í pollinum, heldur til að koma sér upp úr honum! 

Sáttin er þannig að hún er raunsæ.  Segjum að ég lendi í sprungu – ef ég er ósátt þá dvel ég lengi við að hugsa hvernig ég lenti þarna, ég leita að sökudólgi –  hver kom mér þangað og spyr „af hverju ég?“ –  fórnarlambsreiðin vellur (gremjan) –  og ég sekk dýpra og dýpra, og skorðast betur og betur í sprungunni. –

Ef aftur á móti ég „sættist við aðstæður“ –  sem þýðir í raun að ég viðurkenni stöðu mína, –  „Ok, ég er stödd í sprungu –   helvítið hann Óli/hún Dísa kom mér í sprunguna, – en hann/hún er ekki að huga um mig núna“ ..  (og varúð, hér má ekki festast í hausnum á Óla/Dísu, – og hvað hann/hún er að hugsa eða ekki hugsa). Það sem skiptir máli er hvað við erum að hugsa, – og rétt hugsun er þá  „Hér er ég (sem er sáttin)  og upp úr sáttinni kemur spurningin:  – „hvað get ÉG gert?“  ..

Við SLEPPUM tökum á ÓLA/DÍSU eða hverjum þeim sökudólgi eða ástæðum sem við erum að leita að, og við sleppum hugsunum sem halda okkur föstum.

Ef við erum föst í hugsuninni „af hverju?“ –  „hvernig gat hann/hún?“  .. þá erum við bara föst, – og það er ekki uppleið, úrlausn eða vöxtur sem felst í því. –  Þá halda Óli/Dísa eða hver sem hrinti okkur í sprungu okkur enn niðri. 

Að sættast við það sem er, sætta sig við okkur eins og við erum núna, – er eina staðan sem hægt er að vaxa frá.   Upp úr sáttinni sprettur vöxtur.

Breytingar til góðs eða bati, verður ekki fyrr en við erum sátt.

Það er eins og þversögnin sem hljómar á þá leið, að þegar við erum sátt við okkur ein erum við tilbúin í samband með öðrum aðila.   Það er allt í lagi að langa í samband með öðrum aðila,  en ef við förum ósátt við okkur sjálf í sambandið þá höldum við áfram að vera ósátt við okkur sjálf í sambandinu.

Það þarf tvær sáttar manneskjur til að eiga í sáttu sambandi. 

Sátt er í raun eins og viðurkenning. –

Það er mikilvægt að viðurkenna sjálfa/n sig, – og sáttin við sjálfa/n sig er sú mikilvægasta af öllum. –

Til að ná andlegum þroska þurfum við sátt. –  Þroski er vöxtur, – útvíkkun á sálinni, ef svo má að orði komast. –   Við fáum ýmis „tækifæri“ til þroska,  ég set tækifæri í gæsalappir,  því þessi tækifæri geta verið ansi grimm.  Það að missa ástvin, það að skilja, lenda í slysi, fá sjúkdóm o.s.frv.    Ef við vöxum ekki við þessi áföll eða þennan missi,  erum við að sóa „tækifærinu“ – eða „gjöfinni“ –  sem okkur er gefin til að vaxa. –

Ég veit að þetta hljómar skrítið,  að kalla eitthvað svo hræðilegt sem alvarlegan sjúkdóm tækifæri eða gjöf, – en það er það í tilliti til vaxtar eða útvíkkunar andans eða sálarinnar.   Við sjáum oft hvernig fólk sem missir heilsuna verður æðrulaust og sterkt andlega og lærir hvað það er sem skiptir raunverulega máli í lífinu.   Sársaukinn er kennari.  Sársaukinn við missi.  Ef við erum lélegir nemendur þá náum við aldrei sátt, og þá vöxum við ekki.

Það tekur tíma að ná sátt, sérstaklega eftir stór áföll þar sem grunninum er gjörsamlega kippt undan okkur.   Það hefur líka allt sinn tíma, –  en það er mikilvægt að muna að dvelja ekki lengi í gremju- og ósáttarpollunum því þeir stækka, eins og áður sagði og við getum hreinlega drukknað í þeim.

Ég vona að mér hafi tekist að skýra út mikilvægi þess að lifa í sátt.   Sáttin er okkar innri árangur, – innra markmið að ná.  Eftir því fleiri tímar í sólarhringnum sem við lifum í sáttinni – þess ánægjulegra verður okkar líf, – og lífið á að veita okkur ánægju. –

Hvort sem það er eitthvað ytra eða innra, – þá er sáttin forsenda breytinga og bata.

10494567_848767305146950_3741051993115535980_n

Ein hugrenning um “Hvernig getum við verið sátt þegar við erum alls ekki sátt? – Þversögnin í sáttinni.

  1. Bakvísun: Á að gera út af við sig með dugnaði? …. | JÓHANNA MAGNÚSDÓTTIR, ráðgjöf, námskeið, fyrirlestrar – hvatning! ..

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s