Ég heyrði einu sinni útskýringu á því hvenær við værum komin yfir strikið í málamiðlun. –
Það er þegar við erum farin að ganga gegn eigin gildum, – þá erum við í raun farin að vinna á móti sjálfum okkur og þá á móti hjartanu – kjarnanum – hið innra og höggvum þannig í hann. – Ekki nóg með það, við förum að gefa „afslátt“ af okkur sjálfum og/eða gildum okkar, og með því erum við ekki að virða okkur, eða verðmæti okkar.
Við erum komin á útsölu.
Málamiðlun er góð upp upp að ákveðnu marki, og þetta mark er hættumark – þ.e.a.s. þegar við erum komin yfir (farin að lifa í mótstöðu við okkur sjálf) erum við komin í vanlíðan. –
Þetta gerist í alls konar samskiptum, hvort sem það er í atvinnulífinu eða í einkalífinu. –
Þetta er nokkuð klassískt mynstur í hjónaböndum, þ.e.a.s. fólk vill halda friðinn – en friðurinn verður á kostnað gildanna. –
Hér erum við að tala um mikilvæg gildi, eins og að taka ekki við ofbeldi, eða taka þátt í því á nokkurn hátt. Ekki fara að geðjast eða þóknast – á eigin kostnað, því það er eins og orðin segja „á eigin kostnað“ og þessi kostnaður getur orðið ansi mikill og kostað heilsutjón.
Hvernig finnum við að við erum farin að vinna gegn eigin gildum? – Jú, það skapast hreinlega mótstaða í líkama og sál. Stundum köllum við það pirring, ergelsi – eða það fer alla leið upp í reiði, og þessar tilfinningar sem eru mjög vondar eru staðsettar í okkur sjálfum. Í sumum tilfellum höfum við ekki hugmynd um hvernig þær urðu til, af hverju við erum að upplifa að við séum svona óánægð. –
Kannski vegna þess að við erum að ganga of langt? –
Málamiðlun er mjög mikilvæg – og það er góður hæfileiki að geta stundað málamiðlun og auðvitað megum við ekki vera of stíf þannig að við getum hreinlega ekki hlustað á hina.
Gildi eins og að virða mannréttindi og jafnrétti – er eitthvað sem við myndum ekki gefa afslátt af, eða hvað?
Það er hluti af sjálfsviðingu að virða eigin gildi, ef þau eru ekki virt – þ.e.a.s. við virðum þau ekki sjálf, þá þarf að skoða hvort að gildin okkar geti verið röng? – Eða hvort að við hreinlega stöndum ekki með sjálfum okkur. –
Þegar við stöndum ekki með sjálfum okkur, – þá kallar „Hið innra barn“ – „Hey, þú – átt þú ekki að gæta mín og passa upp á mig?“ – Við hunsum barnið og höldum áfram og þá uppllifir þetta blessað barn höfnun og jafnvel að það sé yfirgefið (svo við förum aðeins dýpra). – Innst inni vitum við auðvitað að við erum að hafna okkur sjálfum og yfirgefa og þá kemur þessi versta tilfinning mannlegs eðlis – „Skömmin“ – Við förum að skammast okkar fyrir að standa ekki með barninu, við erum jú með forsjána og ábyrgðina, en erum ekki að sinna henni. – Og hvernig er það með skömmina aftur? – Hún er undirrót flestra fíkna. Skömmin er þeirrar gerðar að við skömmumst okkar fyrir okkur sjálf, en sektarkenndin er þannig að viið skömmumst okkar fyrir gjörðir okkar. – Það er munur á því að vera lygari eða ljúga. – Eða skapa vandamál eða vera vandamál – eins og sum börn upplifa sig. –
Það er mikilvægt að tala um skömmina sem við upplifum og átta sig á henni, – því hún er þeirrar gerðar að hún minnkar í ljósinu – þ.e.a.s. þegar við opinberum hana og ræðum upphátt. Þá hefur hún ekki valdið yfir okkur lengur – við tökum það. –
Lifum frjáls – fylgjum hjartanu og hyggjuvitinu sem okkur var gefið. – Ekki loka á ljósið okkar – leyfum því að skína.
Já sæl atugasemdin hjá mér er sá er sá að ég hef ekki farið eftir barninu sem var ég var lítil stelpa í sveitinni. Ég hef alltaf farið á mis við sjálfa mig ég gekk illa í skóla með lesblindu og hljóðvillu og fékk mikið einelti í kjölfarið. Ég á 4 stelpur sem ég hef ekki mikið hugsað um þær því ég fór í neislu og skömmin gagnvart því að ég var aldrei nógu góð og finst það ekki enn því ég er skít hrædd kv ég 😐
Bakvísun: Mest lesnu pistlarnar … | JÓHANNA MAGNÚSDÓTTIR,