Hvað er valdefling?

Í gær fór ég á fyrirlestur hjá Árborg, – og yfirskriftin var:

VALDEFLING OG SJÁLFSTÆTT LÍF

Fyrirlestrinum fylgdi samnefndur bæklingur, og  framan á bæklingnum stendur.  „Fræðslubæklingur um hugmyndafræði og leiðir til að styðja fatlað fólk við að ráða í eigin lífi.“   Þau sem unnu bæklinginn eru Árni Viðar Þórarinsson þroskaþjálfi og Sóley Viðarsdóttir sem er notandi þjónustu, og voru þau jafnframt fyrirlesarar.

Í bæklingnum er þetta sagt um valdeflingu: „Kjarni þess að breyta sjálfsskilningi fólks og ýta undir sjálfsákvörðunarrétt og sjálfsvirðingu. – Valdeflingu má í stuttu máli lýsa sem ferli þar sem vald hlýst af þátttöku í uppbyggjandi athöfnum sem hafa raunverulegan tilgang og leiða til aukinnar þekkingar, færni og meðvitundar.“ 

Það er ekki hægt að „valdefla“ aðra manneskju þar sem vald er afrakstur þátttöku í athöfnum og samskiptum þar sem fólk getur sagt það sem því finnst og upplifað að það skipti máli. 

Það er mikilvægt að fólk öðlist reynslu á eigin forsendum í stað þess að vera alltaf háð þeim sem telja sig vita hvað þeim er fyrir bestu.“

Hér á eftir fara mínar eigin hugleiðingar um valdeflingu.

Það vilja ALLIR ráða í eigin lífi. –  Hvort sem við erum fötluð eða ófötluð.  

Það geta allir ráðið einhverju en sumu er ekki hægt að ráða, eða stjórna,  það vitum við vel.  Stundum er það vegna utanaðkomandi aðstæðna, eins og við stjórnum ekki veðri og vindum, nú eða því sem aðrir gera. –  Stundum er það vegna þess að við höfum ekki getu eða möguleika til að taka ákvarðanir.   Þá þarf stuðning.  En það er mikilvægt að fá að ráða því sem við getum ráðið,   að það sé ekki ráðskast með okkur í því sem ætti að vera okkar eigin.  –

Einfalda útskýringin á orðinu „valdefling“  væri eiginlega að segja bara „Ég get það“  …

Orðið valdefling er þýðing á enska orðinu „Empowerment“  ..   og oftast þýðum við nú „power“  sem mátt.  –  Máttefling hljómar kannski undarlega, en skilar kannski betur um hvað er að ræða (a.m.k. að mínu mati).    Það er mikilvægt að upplifa að við séum máttug og öflug. – Eins og þegar sungið er  „I have the Power“ ..

Dæmi um valdeflingu starfsmanna:

Stjórnendur deila upplýsingum, viðurkenningum og valdi til starfsfólks svo það geti tekið frumkvæði  við að leysa vandamál  og bæta þjónustu og framkvæmd.

Valdefling er byggð á þeirri hugmyndafræði að gefa starfsfólki, færni,  efnivið, leyfi, tækifæri, hvatningu – um leið og það tekur ábyrgð og þarf að svara fyrir gjörðir sínar, sem stuðlar að hæfni þeirra og ánægju.

Ef við færum þetta  yfir á fatlaða einstaklinga og þeim sem styðja við þá hvort sem það er starfsfólk sem er til stuðnings, vinir eða ættingjar, – getum kallað þau stuðningsfólk.

Stuðningsfólk deilir upplýsingum, viðurkenningum og valdi til einstaklings svo hann geti tekið frumkvæði við að leysa vandamál, bæta sig og það sem hann framkvæmir.

Valdefling er byggð á þeirri hugmyndafræði að gefa einstaklingi færni, efnivið, leyfi, tækifæri, hvatningu – um leið og hann tekur ábyrgð og þarf að svara fyrir gjörðir sínar, sem stuðlar að hæfni hans og ánægju. –

Það má ekki gleyma því að „leyfa“ fólki að taka ábyrgð, að taka áhættu, að gera mistök.

Ef það er alltaf einhver sem gerir fyrir okkur, – tekur fram fyrir hendurnar á okkur, eða hleypur um með öryggisnet,  þá missum við valdið og verðum háð þessum aðila sem passar í sífellu upp á okkur. –

Það er rétt að taka fram, að þetta er mun flóknara í framkvæmd en á blaði. –  Þegar t.d. fötlunin felst í því að fullorðinn einstaklingur er greindarskertur og greindin á við 10 ára barn, – þá þarf stundum að grípa inn í, alveg eins og að við myndum t.d. stöðva barn ef það væri að fara sér að voða. –   En alveg eins og foreldrar ofvernda börnin sín þá eiga þeir sem vinna með fötluðum það til að ofvernda. – Og þannig tökum við valdið af viðkomandi og þroskann, svo ekki sé talað um ánægjuna af því að geta sjálfur!

Við getum vanið einhvern á að gera það fyrir hann sem hann getur sjálfur. –  Síðan þegar það er orðið að vana skömmumst við yfir því að viðkomandi nenni engu. –

Þessi mynd kom upp þegar ég „gúglaði“  Empowerment,  en það að tilheyra, hafa tilgang, öryggi, virðingu og vera samþykkt, eru grunnstoðir þess að upplifa sig hafa máttinn!

Print

 

Í bæklingnum er einnig talað um verkfæri – og þar er tekið fram að samvinna sé algjört lykilorð þegar margt fólk er að veita tiltekna þjónustu.  Set HÉR hlekk á þann pistil, því hann er í samhljómi við það sem kom fram á fyrirlestrinum, og reyndar margt sem tilheyrir meðvirknipistlunum, eins og t.d. hvernig við gerumst þroska- eða gleðiþjófar þegar við erum meðvirk. –

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s