Mamma mín missti manninn sinn, pabba minn, aðeins 42 ára gömul. – Hún varð ung ekkja. Ein besta og traustasta vinkona mín varð líka ung ekkja. – Ég get (sem betur fer) ekki sett mig í spor ekkjunnar, því ég hef ekki verið þar, en ég get sýnt samhug og staðið við hlið hennar. –
Vakning
Síðastliðið þriðjudagskvöld var athygli mín vakin á því að þegar við fráskildu konurnar værum að bera saman sorgarferli eftir dauða og skilnað, gæti það haft særandi áhrif á ekkjur. – Það hefðu, nokkrar haft samband við kirkjuna og sagt hvernig þeim liði með þetta, og vinkona mín, unga ekkjan sem ég talaði um í upphafi, tók undir það.
Við lærum svo lengi sem við lifum og ég er þakklát fyrir að fá ábendingar, því stundum særum við ómeðvitað og hugsunarlaust, og meðan við erum að tala um eigin tilfinningar. –
Ég er ein af mörgum sem hef líkt sorgarferli eftir skilnað við sorgarferli eftir dauða, – eða borið saman – og hef stundum vitnað í vel þekkta gamanleikkonu sem talaði um það að það „væri svo vont að mæta líkinu“ .. sem er náttúrulega hrikalega svartur húmor, en ég veit að hún vildi ekkert illt frekar en ég sjálf. –
Nei, enginn dó – þó að hjónabandið hafi dáið eða draumurinn um gott hjónaband. – Það er í raun á þeim forsendum, með þann dauða í huga sem rætt var um sorgarferlið, en vissulega eins og áður sagði var farið býsna bratt og aldrei ætlunin að vera að „metast“ um sorgina – eða vera svo ósmekkleg að tala á þeim nótum sem ég minntist á áður. –
Við segjum ekki „mín sorg er meiri en þín sorg“ – og svo getum við upplifað sorg á svo ótrúlega misjafnan máta. – Stundum kemur líka gömul sorg, sem ekki hefur verið unnið úr inn í sorg sem ætti ekkert að vera svona „voðaleg“ – við getum ekki dæmt sorg annarra því við erum ekki að upplifa hana. – Og ef við höfum upplifað svipaða sorg, þá erum við á öðrum stað og í öðrum tíma í okkar ferli. Við getum sýnt samhug, stuðning, samþykki, – en reglan er að dæma ekki.
Sorgarferli og skilnaður
Það er staðreynd að við skilnað fer í gang sorgarferli, stundum hefst það reyndar fyrir skilnað – um leið og fólk fer að efast um að hjónabandið standi á þeim fótum sem það átti að gera frá upphafi. – Um leið og traustið þrýtur, virðingin – ástin. –
En sorgarferli eftir skilnað er að sjálfsögðu annað en eftir dauðsfall – þó að bæði sé makamissir. –
Fyrir utan þennan megin mismun, að enginn deyr við skilnað, þá er mismunurinn líka sá að það eru aðrar tilfinningar sem eru oft sterkar. Ef að um trúnaðarbrest er að ræða, þá eru höfnunartilfinning, reiði, afbrýðisemi, jafnvel hatur – tilfinningar sem eru mest áberandi, a.m.k. til að byrja með. „Ástin“ verður blendin – hún verður eigingjörn; – „honum má ekki líða vel“ – „honum er nær“ … „af hverju ekki ég?“ „hvað er að MÉR?! hvað og ef að önnur kona er í spilinu, “ hvað hefur hún sem ég hef ekki?!“ …
Hver át MÍNA köku? ..
– Þessi ást er eigingjörn því hún er frekar svona eins og eitthvað hafi verið tekið af þér sem þú ÁTT. – „Hver dirfist!?“… Það að hann er farinn í fang annarrar, eða hefur ekki viljað ÞIG, hefur kannski ekkert með þig að gera. – Hann er e.t.v. bara með sín vandamál og kunni ekki að setja þau í farveg, ræða þau eða tilfinningar sínar? – Kannski er hann fíkill og þurfti spennu, kannski pössuðuð þið illa saman frá upphafi, en ástin blindaði. Það eru margar skýringar og það er mikilvægt að fara ekki í sjálfsásökun eða dómhörku gagnvart sjálfri sér. Læra af þessu en ekki lemja sig.
„Clean Cut“
Besta ráðið i svona hugarástandi er að klippa sig frá makanum, – fara úr hans höfði og hans lífi yfir í eigið höfuð og eigið líf, skref fyrir skref. Umgangast af virðingu, – en eins lítið og þið komist mögulega upp með. – Ef um börn er að ræða. Þegar búið er horfas í augu við sárin og fara í gegnum sorgarferlið, getur verið grunnur að fara að umgangast á ný með vináttu, en ekki fyrr.
Ef aftur á móti ekki hefur verið um trúnaðarbrest að ræða, – heldur þið hafið vaxið frá hvort öðru, orðið fjarhuga og upptekin af einhverju utan hjónabandsins, – og hafið bara annað hvort tekið sameiginlega ákvörðun eða annar aðilinn hefur tekið af skarið, – getur samt myndast reiði. Jafnvel reiði út í þann aðila sem tekur af skarið. –
Tómarúmið
Makamissi fylgir yfirleitt tómarúm, einmanaleiki, það að standa eftir ein. – Það eiga þessar tvær tegundir sorgar þó sameiginlegt. – Að koma heim og liggja í sínum helming og ekkert koddahjal, að ræða daginn – enginn maki til að deila með hugsunum sínum kaffibolla um morguninn og plana ævintýri framtíðar með. –
Það er m.a. það sameiginlega, – en ekkjan getur ekki leyft börnunum sínum að hringja í pabba og þarf að eiga við uppeldið ein og óstudd af maka. – Það gerist þó líka í sumum tilvikum skilnaða – til feður/mæður sem láta sig hverfa og sinna ekki börnum sínum, það er börnunum gríðarlega erfitt og þar upplifa þau oft meiri höfnun en það að pabbi þeirra bara dó og getur ekkert að því gert og vildi alveg örugglega vera með þeim.
Móðirin sem þarf að skýra fyrir barni sínu að pabbi sem var búinn að lofa að koma, en pabbinn svíkur, á ekki sjö dagana sæla og fyllist oft enn meiri gremju út í föður barnsins. –
Það eru engar tvær manneskjur alveg eins og því upplifa engar tvær manneskjur sorgina alveg eins, tilfinningar eins og höfnun, reiði og ásökun geta líka legið í sorgarferli þess sem missir í dauðsfalli. Sjálf man ég eftir reiði-og höfnunartilfinningu sem barn – þegar að pabbi dó. –
Viðurkenning á sorg
Í raun snýst þetta allt um að eflaust þráum við viðurkenningu á okkar sorg, við viljum að fólk skilji hvað við erum að ganga í gegnum, – að ekki sé sagt við okkur; „drífðu þig á í bæinn – ertu ekki að komast yfir þetta!? – Sorgarferli tekur tíma, líka sorgarferli eftir skilnað. – Það þarf að ganga í gegnum tilfinningaskalann. Það er ekki verið að gera lítið úr sorg ekkjunnar, eða álíta að skilnaður sé „betri“ eða „verri“ sorg, slíkur samanburður gengur aldrei upp. –
Í skilnaði þarf að aftengja sig þörfinni eða löngun til samveru með fyrrverandi maka, sem er þarna á vappi einhvers staðar útí bæ – aftengja sig ást sem þarf alls ekkert að vera eigingjörn ást, bara raunveruleg og erfitt að slíta – skoða sárin, skoða adragandann, skilja af hverju verið var að skilja. Við þurfum að elska OKKUR svo mikið að við séum tilbúin að heila okkur og til að fyrirgefa okkur og maka okkar að fór sem fór. – Ekki ætla okkur að gera það með einhverri „barbabrellu“ – heldur gefa okkur tíma og þolinmæði. –
Takmarkið er að vera hamingjusöm og óska þess sama fyrir þann sem við vorum í hjónabandi eða sambandi við. – Þannig sleppum við takinu og þannig „frelsumst“ við og aðeins þannig getum við haldið áfram og byrjað nýja göngu. –
Í Tiger er hægt (var a.m.k. hægt) að fá hjartalagaða steina sem á stendur „Peace“ „Love“ „Luck“ og „Happiness“ – kona nokkur gaf fv. manninum sínum og nýju konunni hans (þegar hún var tilbúin) hjartastein með „Happiness“ – þakklæti þeirra var einlægt og tilfinningin var ekki síðri hjá þessari konu, það var eins og hún hefði gefið sjálfri sér hamingju með því að gefa þeim hamingjusteininn. –
Við förum frá því að vera hamingjusamlega gift yfir í því að vera hamingjusamlega skilin.
Enn eru tvö laus pláss í námskeið fyrir konur eftir skilnað – sem hefst á morgun 18. febrúar klukkan 9:00 „Lausn eftir skilnað“ – sjá http://www.lausnin.is eða 617 3337
nánari upplýsingar johanna@lausnin.is
Tók mynd af þessum vatnsbrunni – á einum af göngutúrunum mínum. – Minnir okkur á uppsprettuna innra með okkur sjálfum! …
Þegar ég skildi við manninn minn (no. 2) eftir 27 ára hel…. þá fann ég mikið frelsi og upphaf að nýju lífi, en mín sorg kom, en ekki út í að skilja við hann heldur að ég missti 27 ár af mínu lífi, en það er tilgangur með öllu og ég átti 4 börn sem ég elskaði meira en allt annað og þau mig. Reiðin var aftur á móti verri, ekki út í hann heldur út í mig fyrir að hafa látið þetta ganga svona lengi verandi svo vitlaus að halda að börnin vissu ekki neitt, en auðvitað vissu þau allt/flest. Hræðslan við hann var afar slæm, en ég byrjaði strax að hreynsa hana út og fyrirgefa og losa mig undan honum yfir í mína tilvist.
Það hefur bara gengið vel,
Takk fyrir mig ljúfust og góða helgi