Af hverju einelti? ..

Ég er eins og litlu börnin, spyr alltaf „af hverju?“  ..

Ég held líka að til að uppræta einelti þurfi að spyrja af hverju. –

Af hverju leggur einhver einhvern í einelti? –

  • Vegna eigin óöryggis
  • Vegna ótta við útilokun frá hópnum ef hann tekur ekki þátt
  • Til þess að upphefja sjálfan sig
  • Vegna eigin sársauka
  • Betra „hann – en ég“ ..

Við hvern er að sakast og hver ber ábyrgðina á einelti? –

Er nóg að benda á þau börn sem beita einelti og segja: „Þarna er ástæðan?“ –

Eða er nóg að benda á skólann eða skólastjórnendur og segja „Þarna er ástæðan“ ..

Orsökin er dýpri, – þeir sem beita einelti eru líka hluti afleiðingar, ekki það að þau eigi ekki að taka ábyrgð, alveg eins og hver og ein manneskja þarf að taka ábyrgð á sinni tilveru.  Við sem eldri erum þurfum þó að viðurkenna ábyrgð okkar á þeim sem eru ólögráða.  Við þurfum að taka ábyrgð því að það erum við sem upplýsum, við sem kennum, við sem virkjum, erum fyrirmyndir o.s.frv.

Eineltismál eru ekki ný mál fyrir mér. Ég hef starfað í skólasamfélaginu,  síðast í grunnskóla í Reykjavík, þar sem voru inni á milli mjög illa særðir nemendur vegna eineltis, skólinn var í einu orði sagt „Helvíti“ og skiptir þá engu máli um hvaða skóla er að ræða. Þau voru í sumum tilfellum að mæta í 2. eða 3. skólann.  Oft var eineltið vegna þess að þau voru „öðruvísi“ – of feit, of mjó, of lítil, of stór,  jafnvel vildu fara sínar leiðir, sköruðu fram úr o.s.frv. en það þolir samfélagið oft illa sem hefur tilhneygingu til að steypa alla í sama mótið, meðvitað eða ómeðvitað.  

Einelti er ein birtingarmynd veiks samfélags. Við þurfum að skoða orsökina, til að koma í veg fyrir og skilja afleiðingarnar.  Skoða hvaða fyrirmyndir eru í þjóðfélaginu (leiðtogar -fjölmiðlar- foreldrar-alþingi- yfirvöld) skoða hvernig við, sem eigum að teljast fullorðin, tölum saman á netmiðlum og við eldhúsborðið heima.

Hvaða skilaboð erum við að senda börnunum?

Skoða hvaða andlega efni er verið að næra börnin með. Ég veit að sú skoðun leiðir ýmislegt óskemmtilegt í ljós. Eftir höfðinu dansa limirnir. Það þarf að verða viðsnúningur – algjör U beygja í okkar eigin framkomu við hvert annað og líti nú hver í eigin barm.

Þögn getur líka verið birtingarmynd ofbeldis, eða það að við samþykkjum ofbeldi annarra. Þegar þagað er yfir málum þegar við ættum að tala – og við höfum heldur betur orðið vör við það í okkar samfélagi.

„Um leið og sleppum tökum af alverstu óvinunum: skömm og ótta, sleppa þeir óvinir tökunum af okkur.“ (þetta í gæsalöppum er frá Neale Donald Walsch).

Orsakir eineltis eru m.a. veikar fyrirmyndir,  lélegt sjálfsmat og lítil sjálfsvirðing (eða fölsk sjálfsvirðing sem felst í ytra verðmætamati), upphafning á kostnað annarra, ótti við að vera sá sem lagður er í einelti (betra að fylgja múgnum) o.s.frv.

Þessi pistill er m.a.  tileinkaður Dagbjarti Heiðari Arnarsyni heitnum, systkinum, ástvinum hans öllum, –  og síðast en ekki síst foreldrum hans sem röktu sögu hans frá fæðingu til dauða og sýndu einstakt æðruleysi og þroska í viðtali í Kastljósi á RÚV í kvöld. –

Foreldrar Dagbjarts Heiðars bentu réttilega á að gerendur í einelti þurfa ekki síður hjálp en þolendur. –

Einelti sprettur af vanlíðan, skömm,  óöryggi, ótta.  Það að kunna ekki að setja tilfinningar sínar í farveg.  Það byrjar snemma og það er aldrei of oft ítrekað að börn læra það sem fyrir þeim er haft.  Það þarf ekki að vera að þau eigi vonda foreldra, eða ætli sér að vera vond.  Foreldrar kunna e.t.v. ekki betur og börnin þar af leiðandi ekki betur að tjá sig eða vera í samskiptum.

Það þyrmdi yfir mig að horfa á þátt þar sem ellefu ára barn tekur líf sitt.  Ég spurði í upphafi „af hverju“ – en þegar ég horfði á þáttinn þá spurði ég mig „hvað get ég gert“ –

Ég veit að það þarf að kenna börnum (og fullorðnum)  sjálfstraust og samkennd og fá þau til að tjá sig. –   Í dag var ég að skoða styrki sem Reykjavíkurborg veitir til forvarna og ég skora á menntamálaráðuneyti að leggja nú grunn að því að setja sjálfstyrkingu, siðfræði og skapandi tjáningu inn í grunnskólann af fullum krafti,  það á eftir að styrkja hinar hefðbundnu námsgreinar.

Greinum styrkleika barnanna þegar þau koma inn í skólann en byrjum ekki á að skanna veikleika.

Ég veit líka að það þarf að styrkja allt samfélagið,  uppræta sýndarmennskuna, fella grímurnar –  og sætta okkur við ófullkomleika okkar, – hætta dómhörku og fara að sýna samhug. –  Virða tilfinninga barna og virða tilfinningar fullorðinna. –  Ekki bæla, ekki fela sig bak við grímu.  Ekki vera í hlutverki og vera gerfi.

Samþykkja hvert annað eins og við erum.

Við þurfum bara miklu,  miklu meira af samkennd og kærleika og ítrekun á því að við erum öll eitt, það sem við gerum á hlut náungans gerum við á eigin hlut.  –

Allt sem ég hef sagt hér að ofan felst svo að sjálfsögðu í þessu boðorði Jesú Krists, en svipað eða samskonar boðorð finnst í flestum trúarbrögðum:

„Elskaðu náungann eins og sjálfan þig.“

… Hvorki meira né minna –

Hér er HLEKKUR á viðtalið í Kastljósi 27042012

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s