Þroski og breytingar …

Í námskeiðinu „Lausn eftir skilnað“ hef ég flutt fyrirlestur sem ber heitið „Sorgarferli verður að þroskaferli“ –  sem vísar að sjálfsögðu í þroskann sem verður í gegnum sársaukann og ekki síður sem verður við breytinguna. –

Stundum veljum við breytinguna,  en stundum er hún þvinguð upp á okkur. –

Við viljum, að sjálfsögðu, fá að velja okkar breytingar, en þannig gengur heimurinn ekki alltaf fyrir sig.  Um sumt höfum við ekkert val og þá verðum við að læra sáttina. –

Við getum ekki breytt veðrinu,  en við getum klætt okkur út í veðrið og stundum höfum við tækifæri til að færa okkur úr stað, þ.e.a,s. að fara þangað sem veðrið er öðruvísi.  Oftast er það nú frá snjóbyl og myrkri í sól og hita sem hugurinn leitar. –  En það er önnur umræða.

Segjum að við höfum ekki möguleika á að koma okkur „í líkama“ burt úr veðrinu,  þá er eina leiðin að gera það andlega, eða a.m.k. breyta viðhorfi okkar til þess, og þannig upplifa sól og hita innra með okkur,  þessa sem við þráum svo mikið og hugsum til. –

Stundum verða breytingar sem við viljum ekki, þær sem eru þvingaðar upp á okkur, – líka hlutir sem við eiginlega neyðumst til að velja – eins og að velja skilnað frá maka.  Það er aldrei valið á upphafsreit sambands, a.m.k. ekki ef farið er í sambandið á réttum forsendum. –

Stundum er dembt yfir okkur breytingum, – vinnustaðurinn er seldur og við þurfum að skipta um vinnu.  Tækninýjungar hellast yfir og við þurfum að aðlagast og uppfæra okkur,  eins og þær uppfærast.  „Ný útgáfa af Firefox“ – nýtt tölvukerfi o.s.frv. –  Einu sinni vann ég við bókhald og kunni bara vel á kerfið,  svo var ákveðið að taka upp nýtt kerfi og ég fylltist óöryggi og hræðslu, – „Oh, ég kunni svo vel á hitt“ –  en smám saman lærði ég á nýja kerfið. –

Við getum verið farin að mastera einhvern leik hér á Facebook, en ætlum við að hanga endalaust í honum eða prófa nýjan leik og vera eins og byrjendur? –

Ég held mér að vísu frá þessum leikjum því margir eru fíknivaldandi, – held mig bara við fíknina við að tjá mig skriflega 😉 ..  – og reyndar munnlega líka –

Hvað sem er þá höfum við yfirleitt gott af breytingum en erum misvel búin til að aðlagast eða taka  á móti þeim. –  Við vitum að það er til fólk sem gengur alveg úr skaftinu við minnstu breytingar og hvað þá ef þær eru með stuttum fyrirvara.  Reyndar er það einkenni þeirra sem eru með ýmsar greiningar,  eins og ADHD sem þola illa breytingar og hvað þá illa undirbúnar eða óvæntar. – Heimurinn fer á hvolf.

Við þurfum reyndar ekkert að vera með neinar greiningar til að pirra okkur á breytingum sem eru illa undirbúnar eða við upplifum okkur í óhag.

Lífið er breytingum háð og lífið er flæði. –

Breyting er komið af „braut“ – og við flæðum eftir þessari braut breytinga.  Það gerist yfirleitt hægt,  umhverfið breytist, við eldumst, fólkið í kringum okkur breytist og eldist,  sumir deyja og aðrir koma í staðinn,  eins og segir í ljóðinu Hótel Jörð. –

„Lifið er undarlegt ferðalag“ –

Ef við höngum of lengi á sama punktinum, förum við oft að verða óróleg eða fer að leiðast. –

Þá þurfum við að þora að  stokka spilin og sjá hvað við fáum á hendi.  Stundum fáum við góð spil til að spila úr og stundum slæm.  Kannski hendum við því sem við fáum og tökum „mannann“ –  (manninn er aukabunki í spili sem heitir Manni, ef einhver þekkir það ekki).   E.t.v. er manninn betri og e.t.v. verri.  En við sitjum uppi með að spila úr spilunum og gera það besta sem við getum úr þvi. –
 
Svo þegar það spil er búið fáum við aðra gjöf og spilum úr henni. -Svo virðist sem heimurinn sé að breytast hraðar og hraðar.  Heimurinn sem ég ólst upp í var miklu hægari og einfaldari að mörgu leyti.
 
Afþreyingar eru miklu fleiri í dag, fleiri rásir útvarps og sjónvarps og fleiri fjölmiðlar yfir höfuð.  Vegalengdir hafa styst,  firðir brúaðir og göng grafin undir sjó og gegnum fjöll. –  Mataræðið frá soðnum fiski með kartöflum og hamsa yfir í kjúkling, sætar kartöflur og hvítlaukssósu. –
 
Fulllt, fullt af breytingum og á ógnarhraða eiginlega. -Við getum spornað við breytingum, – en að einhverju leyti er betra að fara með flæðinu „go with the flow“ – að sjálsögðu með vitund en ekki í meðvitundaleysi og að sjálfsögðu með athygli en ekki tómlæti.  Bæði í eigin garð og í garð náungans. –
 
Leyfum breytingunum að þroska okkur.  Breytingarnar eru skóli og flest erum við að fara í gegnum margar háskólagráður í þessum lífsins skóla á okkar lífstíð,  með það sem að hendi ber. -Við getum ekki stungið höfðinu í sandinn og sagt að heimurinn sé ekki að breytast, – sem betur fer er mikil vitundarvakning í gangi, – kannski vegna þess að margir vondir hlutir hafa ýtt okkur til að hugsa okkar gang.  Hafa ýtt við þroskaferli heimsins til að fara að sýna meiri samhug og vináttu í garð hvers annars,  í stað samkeppni og dómhörku.
 
Við getum ekki veitt hinu óumbreytanlega viðnám,  það skapar aðeins spennu í okkur sjálfum. –  Viðnám við veðri og viðnám við því sem er skapar vandræði. –
„Accept what is“ segir Tolle og það er það sem hann meinar.   En um leið og við samþykkjum það sem er,  höfum við valið um viðhorf.
 
Ég heyrði góða dæmisögu í gær,  um val- eða ákvörðunarkvíða.
 
Maður var staddur á veitingahúsi,  það var svo margt á matseðlinum sem hann langaði í að hann gat ekki valið.  Hann ákvað því að velja ekki neitt. –   Hann gæti verið að missa af góðum fiski dagsins ef hann veldi Tortillurnar,  eða missa af kjúklingi í Pestó ef hann veldi humarpizzuna. –   Hvað ef að það sem hann veldi væri ekki svo gott? –
 
Ef þessi maður veldi aldrei neitt af matseðli vegna þess að hann óttaðist að hann væri  a) að missa af öðru betra  eða b) veldi vondan rétt,  myndi hann auðvitað deyja úr hungri, –  gefandi okkur að hans eina uppspretta fæðu væri af þessum matseðli (en það má í dæmisögum). –
 
Það sama á við um lífið okkar.  Ef við veljum ekki,  eða veljum að velja ekki,  hvað sitjum við uppi með? –  Leiðindi?  Andlega vannæringu? –
 
Stundum erum við komin á það stig að vera illa vannærð andlega og þá tekur heimurinn sig til og velur fyrir okkur. – Við völdum ekki,  en heimurinn velur að bjóða okkur upp á eitthvað.   Kannski er það uppáhaldsrétturinn en svo getur það verið það sem við hefðum ALDREI valið sjálf,  einhver matur sem okkur finnst ferlega vondur,  jafnvel ógeðisdrykkur.
 
Við erum ekki alltaf tilbún að taka á móti því sem að höndum ber,  hvað þá ef það eru ein vandræðin ofan á önnur? –
 
Þegar við förum í „Why me Lord?“ gírinn.  –
 
Ættum við að spyrja  „Why not somebody else Lord?“ –  slepptu mér.
 
Við spyrjum eflaust sjaldnar  „Why me Lord – why am I so lucky to be born where there is plenty of food, clean water, health care etc… “ –
 
 
Af hverju spyrjum við ekki að því? –
 
Eric Hoffer  skrifaði,
 
 
„Á tímum breytinga eru það þeir sem læra sem erfa jörðina.“
 
 
Sársaukinn er svaðalegur kennari,  það þekkja þeir sem hafa þurft að fara í gegnum hann,  og það þurfum við flest. –
 
Við vitum líka að það fólk sem hefur gengið í gegnum hvað mest – sem hefur ekki flúið sársaukann,  ekki flúið „musteri viskunnar“ ..
 
Musteri viskunnar er gífurleg blanda sorgar og gleði og meira að segja ótta.  Þau hugrökku ganga inn í óttann,  jafnvel þó þau séu hrædd,  hann varir þá skemur  því að það sem við óttumst kemur þá í ljós,  og þegar það er komið í ljós verður það ekki eins óttalegt  (því það er komið í ljós). –
 
Að sama skapi er eina aðferðafræðin að eiga við sorg að ganga í gegnum hana,  ganga í gegnum höfnunardyrnar, reiðidyrnar,  pirringsdyrnar, einmanaleikadyrnar  og hvað sem þær heita,  því að einnig á bak við þær dyr er léttara andrúmsloft. –
 
Ef við veljum að ganga ekki í gegnum þær,  stöndum við fyrir utan en sitjum uppi með allan pakkann, –  við komumst ekki yfir tilfinningarnar öðru vísi en að fara í gegnum þær og leyfa þeim að koma. –
 
Við getum deyft þær og við getum flúið þær.
 
Flóttaleiðirnar eru margar og við köllum þær oft fíknir. –
 
Fíknir eru til að forðast það að horfast í augu við okkur sjálf,  að upplifa okkur sjálf og finna til. –  Fíkn í mat, vinnu, kynlíf, sjónvarp, tölvu eða hvað sem er. –
 
„Súkkulaði er hollt í hófi“ – var fyrirsögn sem nýlega var í blöðunum.
 
Margir lásu bara:  „Súkkulaði er hollt“ –   og mig minnir að rauðvínsglasið eina sem átti að drekka á hverjum degi hafi fengið svipaða meðferð.
 
Flóttaleiðin verður því –  „Rauðvín er hollt“  – „Súkkulaði er hollt“ … en sama hvað er,  það er allt gott í hófi ( undantekningin er auðvitað eitur, eða það sem er eins og eitur fyrir líkama okkar hvers og eins).    Ef við getum ekki umgengist það í hófi þurfum við að skoða hvað er að í lífi okkar,  hvaða tilfinningadyr við erum að forðast. –

Kannski það að svara ekki eigin þörfum, löngunum? – Kannski það að hafa ekki hugrekkið eða þorið að lifa ástríðu sína.  Skrifa bókina? – Stofna sitt eigið? – eða bara hugrekkið við að segja skoðun sína upphátt? 

 Hugrekkið við að leyfa sér að skína og lifa af heilu hjarta? –

   ,,Vísa mér veg þinn Drottinn, að ég gangi í sannleika þínum, gef mér heilt hjarta …… ”   Sl. 86:11

Það tók Brené Brown rannsóknarprófessor mörg ár og mikla menntun,  viðtöl við tugi ef ekki hundruði manna og kvenna til að komast að því að þeir sem lifðu heilbrigðustu lífi í sátt og samlyndi við sjálfa sig væru það sem hún kallar „The Whole hearted People“ – Fólk sem lifir af heilu hjarta. –  

—-

Stundum sitjum við uppi með upplifunina af tómarúmi, – þegar við veljum ekkert af matseðlinum sem lífið hefur að bjóða upp á.  Eða við þorum ekki að þiggja það sem er í boði.- 

Þá teygjum við okkur oft í flöskuna, matinn, annað fólk eða hvað sem það er sem við verðum háð til að fylla í tómið,  sem þó aldrei fyllist, því það er ekki það sem gefur okkur þá lífsfyllingu sem við leitumst eftir. –

Fyrst þurfum við að fylla „tómið“ sem ekki er tómt að vísu – en það eru „gleðifréttirnar“ – af okkar eigin gleði, ást og friði. –  Þá erum við tilbúin í hvað sem er, og að mæta hverju og hverjum sem er. –

Við getum séð ljósið núna, ef við opnum fyrir það. – Fyllum okkur svo af því og leyfum því að skína innra með okkur þannig að við finnum fyrir því sem er nú þegar innra með okkur; rými sem er fullt af friði, ást og gleði. –
 
Þannig förum við meðvituð í gegnum lífið – þannig erum við vakandi. –
 

Ekki standa í skugga annarra þegar það er þitt eigið ljós sem lýsir þér.  Ekki gera annað fólk að þínum æðra mætti og skyggja þannig á þinn æðri mátt. –

Gefðu þér tækifæri á að skína.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s