Þessi pistill er sá fjórði í röðinni um innihald Æðruleysisbænarinnar, sá fyrsti fjallaði um æðruleysið, annar um sáttina, þriðji um kjarkinn og nú er sá fjórði um vitið.
Nánar til tekið um vitið til að greina á milli, vitið til að þekkja það sem við getum breytt og þekkja það sem við getum ekki breytt.
Það fjallar því líka um það að sleppa tökum á því sem við getum EKKI breytt og fá kjark og innblástur í það að breyta því sem við höfum tök á að breyta.
Stutta útgáfan af þessum pistli er í mínum huga einfaldlega:
„VERÐI ÞINN VILJI“ ..
Við þekkjum það flest að langa til að breyta fólkinu í kringum okkur, maka okkar, börnum okkar, öðru fólki sem hegðar sér undarlega. Okkur langar til að stöðva ofbeldi og okkur langar til að fólk sé gott. –
Við þekkjum það líka að vilja öðru vísi aðstæður, viljum breyta um umhverfi, vinnu, skóla o.s.frv. –
Kona kom til mín og sagði; „Ég vildi óska þess að dóttir mín færi að hugsa betur um sig – og hlúa betur að sér“ …
Önnur kona sagði: „Hún móðir mín talar alltaf svo niður til mín, mér líður eins og ég sé ónýt á eftir“ …
Þessar tvær konur áttu það sameiginlegt að vera með lélegt sjálfstraust og litla sjálfsvirðingu.
Hvorug þeirra hlúði að sér, hugsaði vel um sig, talaði fallega til sín o.s.frv. –
Í lang flestum tilfellum snúast svona vandamál um mann sjálfan. Skrítið? já. –
„Ef þú vilt breyta heiminum, byrjaðu þá með sjálfum þér.“ ….
Hvað sem okkur langar mikið til að breyta fólkinu í kringum okkur, með því að taka það (helst upp á herðunum) og beina því á það sem við teljum þeirra „réttu braut“ þá virkar það sjaldnast og virkar alls ekki ef viðkomandi vill það ekki sjálfur. Viljinn til að breyta verður að koma frá aðilanum sjálfum. Auðvitað getum við reynt að tala við viðkomandi, en hann verður aldrei þvingaður til breytinga.
Hvað GETUM við gert?
Við getum t.d. valið okkur viðhorf
Við getum breytt okkur sjálfum
Það hefst allt með því að taka ákvörðun – en um leið og við tökum ákvörðun er breytingin hafin. Það er ákvörðun um að velja nýja leið og nýja leiðin leiðir okkur allt annað en sú gamla. Áskorunin er þó að halda sig við nýju leiðina, missa ekki trú á henni. Síðan er hægt að búa til ný „gatnamót“ eða krossgötur með nýjum ákvörðunum ef að það kemur upp. –
Á þessum gatnamótum spyrjum við okkur; „Hvað vil ég“ .. Ef við erum svo heppin að vita hvað við viljum, ef við trúum að við eigum allt gott skilið og setjum ekki hindranir í eigin farveg þá kemur hið góða til okkar, vegurinn blasir við.
Við ættum öll að kjósa okkur hamingjuveginn og óska þess að við séum sátt og glöð. – Kannski þurfum við ekkert að vera að setja fram nákvæmar óskir, eins og hvar nákvæmlega við erum stödd og með hverjum við erum? –
Er það ekki bara annar kafli, kaflinn um markmiðasetningu? – Þurfum við nokkuð að gleypa heiminn í einum munnbita?
Kannski er nóg að biðja sér farsældar, og biðja um skýra sýn á það sem er vilji okkar.
„Verði þinn vilji“ .. er lína í „Faðirvorinu“ ..
Ég hef þá trú að vilji æðri máttar sé góður vilji. (Æðri vilji getur verið Guð fyrir suma, orka lífsins fyrir aðra og allt þar á milli).
Kannski ef við sleppum aðeins tökunum, látum af stjórnseminni, hættum að taka fram fyrir hendurnar á Guði/Æðri mætti fara hlutirnir að ganga upp fyrir okkur? – Líka ef við hættum að gera annað fólk að „guði skoðana okkar“ – eins og ein góð kona sagði 😉 .. En með því erum við farin að gefa því eftir valdið sem við ættum í rauninni að treysta æðra mætti fyrir. –
„Verði ÞINN vilji minn vilji“ … heyrði ég einu sinni mann segja.
Hvað ef vitið eða viskan (wisdom) er frá einhvers konar æðra mætti komið? –
Hvað er verið að segja í Æðruleysisbæninni?
„Guð gefðu mér vit til að greina á milli þess sem ég get breytt og þess sem ég get ekki breytt, og gefðu mér kjark til að breyta þvi sem ég get“…
Vitið og kjarkurinn spilar saman, því að þegar við vitum er næsta skref að þora. Það þýðir að við þurfum að sleppa hinu gamla og taka upp hið nýja. Hætta að lifa samkvæmt „útrunnum“ hugmyndum eða hugsunum um okkur sjálf og taka upp nýjar hugsanir og viðhorf.
Til þess að gera það þarf að sleppa, enn og aftur, sleppa, sleppa og aftur sleppa, hætta að veita (innri) mótspyrnu.
Þegar við höfum sleppt þurfum við í framhaldi að fara að trúa og treysta, treysta því að góðir hlutir gerist. Líka fyrir okkur og sem eru okkur fyrir bestu. –
Það er gott að taka sér pásu, anda djúpt, setjast niður með spenntar greipar í auðmýkt og biðja:
Guð gefi mér æðruleysi,
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég fæ breytt
og vit til að greina þar á milli.