Hann var að safna sér fyrir hjóli. Hann gerði ýmis viðvik sem hann fékk greitt fyrir og aðalinnkoman fólst í launum fyrir blaðaútburð. Reikningurinn var að ná tölunni sem hann vantaði: „Fimmtíuogníuþúsundogáttahundruð“ – átti hjólið að kosta. – Staðan á reikningnum var komin yfir fimmtíuþúsund þegar hann kom dasaður heim eftir blaðaútburðinn – en sýnin sem hann sá kom á óvart.
Draumahjólið var komið fyrir framan húsið, og meira að segja með ýmsum aukaútbúnaði. – Afi hans sem vissi að hann langaði í hjólið, og vissi reyndar að hann var að safna fyrir því – en fannst það hafa dregist á langinn, hafði tekið sig til og keypt það fyrir hann.
Af hverju vildi afinn kaupa hjólið?
Var strákurinn ánægður? –
Hvers vegna ætti hann ekki að vera ánægður?
Þessi dæmisaga er svo lýsandi fyrir það hvernig við upplifum að vinna fyrir hlutunum sjálf, og þegar uppskerunni af erfiði okkar er spillt.
Þetta er eins og að vera í fjallgöngu og svo kemur einhver á fjallatrukki og býðst til að keyra þig upp á topp. – Er það sami „sigur“ og að klifra upp á topp sjálfur?
Hvað með átök lífsins, hvað um það þegar við erum að þroskast og læra, hvað um það þegar við erum að heila okkur og fylla upp í skörðin.
Getur verið að einhver góðviljaður komi og spilli fyrir? –
Við verðum að gefa fólki tækifæri á að taka sjálfsábyrgð, að uppskera árangur erfiðis síns, að taka frumkvæði o.s.frv. –
Ef við tökum of oft fram fyrir hendurnar á fólki – tökum af því ábyrgð, eða gerumst þroskaþjófar – eins og við köllum það í Lausninni, getum við orsakað það og stuðlað að því að þetta fólk missi áhugann eða viljann til sjálfsbjargar. –
Við getum verið til stuðnings og látið vita af okkur, við getum hvatt áfram í fjallgöngunni – en við eigum ekki að slengja viðkomandi á bakið og bera hann upp.
Afinn hefði getað keypt lugt á hjólið eftir að strákurinn var búinn að kaupa það sjálfur, eða bara gefið honum eitthvað annað – eins og tíma, athygli, samveru, eyru til að hlusta o.s.frv. –
Við getum verið náunganum ljós, en vörumst að skyggja á hans eigin ljós þannig að hann fái ekki skinið. –