Anna litla átti dúkkuvagn, hann hafði legið óhreyfður í langan tíma uppi risi og þar fékk hann að rykfalla í friði. – Hún var hætt að leika með hann.
Fríða kom í heimsókn með mömmu sinni, til mömmu Önnu – Anna og Fríða fóru upp í ris og Fríða sýndi dúkkuvagninum áhuga og spurði hvort hún mætti setja dúkkuna sína í vagninn og prófa að keyra um. Anna sagði að það væri eiginlega ekki hægt þar sem hún væri akkúrat að fara að nota vagninn og ætlaði að fara út að viðra hann með dúkkuna sína. –
Þetta er ekkert óvenjuleg saga af börnum, – eitthvað dót hefur legið óhreyft en um leið og einhver annar sýnir því áhuga þá vill eigandinn fara að leika með það.
Lengi býr að fyrstu gerð, og eðli okkar og eiginleikar eru í raun eins og barna alla tíð. Eða að miklu leyti eins og barna.
Stundum komum við fram við manneskjur eins og Anna lét með þennan dúkkuvagn. Við „eigum“ þær og þær bara eru þarna – við veitum þeim ekki athygli og þær eru til „afnota“ fyrir okkur þegar okkur dettur það í hug.
Ég er að leyfa mér að líkja þessu við t.d. hjónaband eða sambönd þar sem fólk er farið að taka hvort öðru sem sjálfsögðum „HLUT“ .. já hlut í staðinn fyrir sem manneskju af holdi og blóði. Maðurinn bara „er“ til staðar, eða konan. Þau gera ýmislegt fyrir hvort annað og leggja ýmislegt til en allt er orðið sjálfsagt og lítið um virðingu, athygli, þakkir, – gagnkvæm samskipti á jákvæðum nótum.
Hvað svo þegar kemur þriðji aðili inn í svona „dautt“ samband? – Hvað ef að önnur kona veitir manninum athygli eða annar maður veitir konunni athygli. – Þetta er MINN! .. Þetta er MÍN! …
Athygli er lykilorð í mannlegum samskiptum, ég ítreka það líklegast aldrei nógu oft. Tökum engu og engum sem sjálfsögðum „hlut“ .. Þakklæti er annað lykilorð, – þökkum það sem við eigum og höfum, og látum þau sem okkur eru kær vita hvað við erum þakklát fyrir þau, og meinum það.