…. sjálfri/sjálfum þér? ..
Þetta er vísun í hugmynd sem kviknaði hjá mér við undirbúning námskeiðisins “Lausn eftir skilnað” – Ég trúi því nefnilega að ein af ástæðunum fyrir því að samband/hjónaband renni út í sandinn sé að við höfum aldrei trúlofast né gefist sjálfum okkur. Það sé grunnforsenda góðs sambands, að byrja á því að elska sjálfa/n sig, virða og treysta. –
Það er pinku merkilegt að við séum tilbúin að lýsa yfir ást, trausti og virðingu við aðra manneskju – e.t.v. fyrir augliti Guðs, en það er það sem gert er í kirkjunni, – en eiga mjög erfitt með að gefast okkur sjálfum. –
Í hjónavígslu spyr prestur brúðhjónin hvort þau vilji vera hvort öðru trú. –
Hvernig liti þetta út ef við værum að giftast eða gefast sjálfum okkur? –
Nú spyr ég þig: Er það einlægur ásetningur þinn að ganga að eiga þig? – Vilt þú með Guðs hjálp reynast þér trú/r, elska þig og virða í hverjum þeim kjörum sem Guð lætur þér að höndum bera? –
Til að taka þetta alla leið, – þá gætir þú dregið þér hring á hönd til vitnisburðar um ást og trúfesti þína við sjálfa/n þig. –
Þetta er ekki sjálfs-elska, þessi sem við köllum eigingirni, þetta er hin raunverulega elska, því að eftir því sem við náum að þykja vænna um okkur sjálf, – hafa meira sjálfstraust og sjálfsvirðingu verðum við færari um að gefa af okkur og elska, virða og treysta öðrum. –
Lélegt sjálfstraust og léleg sjálfsvirðing skapar óöryggi gagnvart okkur sjálfum OG gagnvart maka okkar eða þeim sem við erum í samskipti við og veikir því sambandið. –
Alveg eins og við viljum að maki okkar sé heilbrigður og hamingjsamur – vill hann að við séum heilbrigð og hamingjusöm. Það er líka miklu auðveldara að óska öðrum hamingju þegar við erum sjálf hamingjusöm.
Þetta gildir líka um samskipti foreldra og barna. Alveg eins og við viljum að börnin séu heilbrigð og hamingjusöm, óska þau einskis fremur foreldrum sínum til handa. – Það er niðurstaða mín eftir að hafa tekið viðtöl við hóp unglinga hvers þau óskuðu sér. – Bein tilvitnun í eina 15 ára stelpu, sem foreldrar sendu í viðtal til mín vegna þess að henni gekk illa í skóla og var vansæl.
“Ég vildi bara óska þess að mamma væri glaðari” –
En hvernig verðum við glöð og hamingjusöm? – Ég er oft spurð um “tæki” til þess og það var bara á þessu ári sem ég komst að þessari merku niðurstöðu að hamingjan dregur vagninn en ekki vagninn hamingjuna.
– Þ.e.a.s. við verðum að koma okkur í “gírinn” …byrjunin er að:
elska sig – virða sig – treysta sér – samþykkja sig – fyrirgefa sér og síðast en ekki síst, þakka fyrir! – (okkur þykir stundum að við höfum ekki neitt til að þakka fyrir, aðstæður okkar séu ómögulegar, “allt í volli” – en þá þurfum við að líta betur og veita því athygli sem er þakkarvert og ég lofa því að við getum alltaf fundið eitthvað og við byggjum svo ofan á það). –
En ég var að tala um tæki, – sjálf nota ég hugleiðslu og kenni, en tæki sem allir geta notað eru það sem við köllum “daglegar staðhæfingar” – og þær virka! – Já, auðvitað virka þær og þú veist það því þú ferð með þær daglega nú þegar!!! Því miður eru þær oft neikvæðar. – “Hvað þykist þú vera?” – “Þú ert nú meira fíflið” – “Mikið er nú ömurlegt veður” – „Ég geri aldrei nógu vel“ – Ég er aldrei nógu _____“ “Ég er að þrauka lífið” – blablabla… alls konar neikvæðar staðhæfingar förum við með á hverjum degi, – kannski ekki alltaf upphátt, en svona undir niðri. Stundum förum við í vorkunnargírinn, “Alltaf er ég að gera allt fyrir alla og enginn að gera neitt fyrir mig” .. “Af hverju hringir enginn?” “Af hverju er maðurinn minn svona leiðinlegur og gerir mig ekki hamingjusama?” ..
Ég ætla ekki að halda áfram. – En síðasta setningin skiptir máli, þ.e.a.s. þessi setning um að ætlast til að aðrir hvort sem það er maki eða vinir geri okkur hamingjusöm. Enn og aftur komum við að því að við VERÐUM að byrja á okkur sjálfum. – Hamingjan kemur innan frá – fyrst og fremst, umhverfið hjálpar til, það er óþarfi að neita því, – en t.d. manneskja sem virðir sig og elskar, hún lætur ekki bjóða sér neitt bull og óvirðingu og setur mörk.
En nú er komið að jákvæðu staðhæfingunum, staðhæfingunum til að geta farið að elska sig og virða. – Það þarf að endurforrita, – taka út það gamla sem hefur virkað til niðurrifs og e.t.v. einstaka vírusa sem hafa læðst inn á harða diskinn! – Við þurfum að fara að tileinka okkur það sem við höfum lesið í öllum sjálfshjálparbókunum og smellum upp á vegginn okkar á Facebook. Því að það er sama hvað við lesum mikið – ef við notum það ekki, er það svipað og að mæta í líkamsræktarsal og horfa bara á tækin og vera svo þvílíkt stolt af okkur að mæta í ræktina.
– Hugrækt vinnur eins.
Nú (já frá þessum tímapunkti ef þú ert ekki þegar byrjuð/byrjaður, getur þú valið að taka yfir hugsun þína og breyta henni frá neikvæðri yfir í jákvæða). – Þú þarft að sortéra frá það sem er uppbyggilegt og það sem er niðurbrjótandi og setja það síðarnefnda í svartan plastpoka og fara með það í Sorpu eða endurvinnsluna. – Tíminn er kominn til að endurbyggja sjálfa/n sig.
Endurtaktu jákvæðar staðhæfingar, aftur og aftur og gerðu þær að þínum sannleika. – Dropinn holar steininn. –
Hættu viðnáminu, líka gagnvart öðrum – hættum að vera dómhörð í eigin garð og annarra. Samhygð er mesti þroskinn. Samhugur með sjálfum sér og öðrum. Það tekur svaka orku að vera sífellt neikvæður í eigin garð og annarra og það er svo mikil hindrun í því að vera hamingusöm og að elska okkur! –
Kannski ekki skrítið að mörgum finnist þau þreytt, úrvinda og tóm. Það er svo mikil orka sem fer í það að elska okkur EKKI! ..
Nú er tíminn til að setja orkuna í það að elska og leyfa kærleikanum – ástinni – að flæða. –
Við þurfum að vera þolinmóð, þó þetta komi ekki eins og barbabrella. Við erum búin að taka okkar tíma í að elska okkur ekki og því getur það tekið tíma að snúa við ferlinu. –
Leyfum okkur að hugleiða jákvæðu staðhæfingarnar og upplifa þær. – En veitum því líka athygli þegar við förum að finna ástæður til að trúa þeim ekki. – (Er þetta fíflalegt? Kjánalegt? Væmið?)
Er ekki allt í lagi að nota ný “meðul” ef að þau leiða til hamingju þinnar? – Við megum ekki berja okkur niður þegar við förum að vinna að gleðinni, hamingjunni – elskunni í eigin garð. –
Hið náttúrulega og eðlilega er að elska sig. – Þannig vorum við sem börn, en það gerðist bara eitthvað á leiðinni. Einhver sagði eitthvað sem varð til þess að við fórum að efast að við værum ekki elsku verð. – Stefnan er að komast í okkar eðlilega ástand. – Ástand þar sem við dæmum okkur ekki, ekki frekar en barnið sem liggur í vöggunni og virðir fyrir sér fingur sinna. – Það er ekki að dæma þá vonda eða góða, bara að virða þá fyrir sér því þeir eru þarna. –
(Sjálfs)hatur og niðurbrot getur verið hið algenga þó það sé ónáttúrulegt – en ástin er hið eðlilega eða náttúrulega ástand.
Eftirfarandi eru svo staðhæfingar sem þarf að hafa yfir á hverjum degi til að koma sér í eðlilegt/náttúrulegt ástand. – (mæli með því að prenta þessar staðhæfingar út og lesa þær upphátt fyrir sjálfa/n sig á hverjum morgni og helst kvöldi líka, en bara ef þú vilt!) .
1. Ég samþykki mig af fyllstu einlægni
2. Ég fyrirgef mér fyrir mistök mín og neikvæðar hugsanir í fortíð, nútíð og framtíð
3. Ég elska mig skilyrðislaust
4. Ég elska sál mína
5. Ég elska huga minn
6. Ég elska líkama minn
7. Ég samþykki að nota mistök mín og óhöpp sem dýrmæt tækifæri til að læra
8. Ég geri mitt besta og mitt besta er nógu gott
9. Ég á skilið að vera hamingjusöm/hamingjusamur
10. Ég á allt gott skilið
11. Ég á skilið að elska sjálfa/n mig
12. Ég á skilið að þiggja ást frá öðrum
13. Ég er minn besti vinur/ mín besta vinkona
14. Ég tek gagnrýni af æðruleysi og þakklæti
15. Ég er sjálfsörugg/ur og hef góða sjálfsvirðingu
16. Ég fagna því að vera einstök manneskja
17. Ég geri það besta úr hverri stund og úr hverjum aðstæðum
18. Ég treysti sjálfum/sjálfri mér
19. Ég nýt þess að vera með sjálfum/sjálfri mér
20. Ég tek ábyrgð á eigin líðan
21. Ég er stolt/ur af sjálfri/sjálfum mér
22. Ég er siguvegari
23. Ég er stolt/ur af árangri mínum í lífinu og líður vel með bæði það sem hefur gengið vel og illa.
24. Ég er skemmtileg/ur og ég skemmti mér
25. Ég er góð manneskja.
Hamingjan er lykilinn – og lykillinn er ekki einhvers staðar þarna úti eða í annarri manneskju, – þú ert lykillinn. –
Þess vegna megum við ekki fókusera svona á að aðrir geri eitthvað fyrir okkar hamingju, – heldur taka ábyrgð á eigin hamingju og eigin lífi. –
“Success is not the key to happiness. Happiness is the key to success. If you love what you are doing, you will be successful.”
– Albert Schweitzer
Þessi pistill er blanda af eigin hugleiðingum og því sem ég hef pikkað upp af netinu, listinn er t.d. fenginn að láni, með smá breytingum – en öll erum við í þessu saman, og hamingja mín er hamingja þín. – Svo skínum fyrir hvert annað! –
Því spyr ég aftur:
– Vilt þú með Guðs hjálp reynast þér trú/r, elska þig og virða í hverjum þeim kjörum sem Guð lætur þér að höndum bera? –
Minni á nýtt námskeið sem byrjar 11. maí – „Lausn eftir skilnað“ fyrir konur – sjá nánar http://www.lausnin.is
Bakvísun: Mest lesið á árinu 2013 | johannamagnusdottir