Kynlíf er hluti af lífinu, kynlif er hluti af hjónabandi – eða sambandi. Sr. Þórhallur Heimisson nefndi það einhvers staðar að það væri hornsteinninn í hjónabandinu, – en hann er búinn að halda ótalmörg para-og hjónanámskeið og ætti því að vita hvað hann syngur.
En hvað er ég að meina með þessari krassandi fyrirsögn? – Er fólk að „gera það“ upp um alla veggi allan sólarhringinn? – Nei, að sjálfsögðu ekki.
Alveg eins og par í sambandi þarf að eiga sameiginlega lífssýn og bera virðingu fyrir hvort öðru, þarf það að vera í takt í kynlífi. Annars er hætta á að annað hvort þeirra fari að leita út fyrir hjónabandið.
Það að eiga slæman dag, nagast í hvoru öðru, rífast – tala hvort annað niður eða hvað sem það er og ætla svo að eiga voða heitan ástarfund þegar í bólið kemur gengur ekki alltaf upp. Í grein sem heitir „44 lexíur lífsins“ er talað um að kynlífið sé á milli eyrnanna. Það er að segja að það sé mjög tengt því hvernig við hugsum. Þegar búið er að fylla allt plássið milli eyrnanna með áhyggjum, rifrildi og leiðindum, er varla mikið pláss eftir fyrir kynlífið, fólk er slegið út kalt og þreytt. –
Að sjálfsögðu er þetta misjafnt, en margir upplifa þessa tilfinningu að ekki sé bara hægt að breyta samskiptum um leið og komið er upp í rúm. –
Falleg samskipti pars, faðmlag, væntumþykja, umhyggja, koss, … er allt sem er hluti af forleik af því sem koma skal.
Ef einhver er hissa að hann/hún hafi ekki áhuga, telji sig kynkalda/n er það kannski bara vegna þess að miklu fyrr um daginn, kannski í rifrildinu yfir tómatsósunni var kaldi tónninn sleginn. –
Sumir þrífast á „make-up-sex“ þ.e.a.s. setja allt í hávaðarifrildi og sættast svo, – það er engin einlægni í því eða væntumþykja og varla heilbrigði eða hvað?
Falleg og einlæg samskipti kallast á við gott og heilbrigt kynlíf.
Takk fyrir mig elskan þetta er frábær pistill og mauðsynlegt fyrir konur að taka svona námskeið