„Ég á líf, ég á líf“ ….

Já, já, ég veit það – sumir eru bara orðnir mjög þreyttir á þessu lagi, en mikið svakalega er textinn góður og boðskapurinn eftir því.

Því miður eru ekki allir sem kunna að meta það að þeir eigi líf,  og það er svolítið sorglegt að horfa upp á fólk sem hefur val um lif að þiggja ekki lífið sem þeim er gefið.

Til að „kunna“ að meta þurfum við að læra að meta og kennararnir eru að sjálfsögðu við eldra fólkið – fyrirmyndirnar sem kennum börnunum.

Börnin læra það sem fyrir þeim er haft.  Þau horfa á hvernig mamma lifir sínu lífi og  þau horfa á pabba hvernig hann lifir sínu lífi.  Þau horfa líka til afa og ömmu, e.t.v frænku eða frænda – þau horfa á kennarana sína í skólanum, vissulega skólafélaga líka, og svo ýmissa fyrirmynda sem birtast í frægu fólki eða þeirra sem eru áberandi almennt í samfélaginu.

Þau horfa líka á samskipti þessa fólks,  samskipti pabba og mömmu, samskipti foreldra e.t.v. við stjúpforeldra o.s.frv. –   Allt hefur áhrif á val barnanna og síðar unglinganna hvernig þau lifa lífinu og hvort þau lifa lífinu lifandi og meta.

Lífsgangan er langt ferðalag,  fyrir flesta.   Það velur sér hver og einn sinn farveg þó að hann horfi á þau sem á undan ganga og sjái e.t.v. einhverja leið sem honum líst á að sé farsæl.

En farvegurinn skiptir kannski ekki öllu máli,  það er hvernig hann er genginn.  Hvaða nesti við veljum með í ferðalagið.  Þar læra börnin af þeim sem á undan fara.  Hvernig ganga þau? –  Eru þau að njóta ferðalagsins, virða fyrir sér útsýnið, brosa til samferðamanna, hjálpa þeim sem á hjálp þurfa að halda,  eru þau að ganga í gleði?

Eða?

Eru þau álút og með hettuna dregna upp á höfuð – líta sjaldan upp og ganga leiðina eins og leiðslu og næstum sofandi? –  Sjá þau útsýnið?

Það er ekkert sjálfsagður hlutur að eiga líf og því er yndislegt að syngja óð til lífsins og þakka lífið sem gefið er.   Ég sá frétt um mann sem sagðist hafa farið á „Get a life“ kúrinn,  en hann hafði verið einn af þeim sem var að vinna gegn lífinu,  með því að bæla það og deyfa með mat og var orðinn allt of þungur.  Hann þurfti líka að komast upp úr sófanum.  Það getur verið átak.  En þessi maður var heppinn,  hann hafði val og hann notaði valið.  Kannski hefur hann séð einhvern samferðamann sem átti gleðilegra líf en hann sjálfur og sá að það ER hægt að eiga gleðilegt líf, að lifa lífinu lifandi en ekki bara þrauka.   Það er auðvitað það sem við flest hljótum að vilja.

Þegar við erum að nöldra yfir smámunum eða stofna til rifrilda út af hlutum sem raunverulega skipta engu máli,  eða gera rellu út af því,  þá eru margir sem svara því einmitt því að segja „Get að life“  – og það sorglega er að ef að fólk er fast í hlutum sem skipta ekki máli, er fast í gremju eða smámunasemi þá er það að vinna gegn lífinu.  Ef lífið er leiðinlegt þá er stundum farið í það að búa til vandamál eða veita þeim allt of mikla athygli.  Fara í sjálfsvorkunn og í raun hafna lífinu.  –

Ég talaði um það í upphafi að sumir kunna ekki að lifa lífinu,  það eru í sumum tilfellum fólkið sem hefur ekki fengið tækifæri til að fljúga úr hreiðrinu frá foreldrunum – hefur ekki fengið leyfi til að breiða út vængina og fljúga, já og detta nokkrum sinnum.   Læra að reyna aftur þegar þau detta o.s.frv.   Það eru hin ofvernduðu og ofdekruðu og þá meina ég „of“ – og þetta „of“ er ekki gott ekki frekar en „van“ ..

Það er alveg eins og ofvökvuð planta … hún nær ekki að dafna og stundum ekki að lifa. Lífsgangan er þá farin með þeim hætti að þau eru borin í bakpoka foreldranna eða samferðafólksins og það er hvorki gott fyrir  þann sem ber eða þann sem er borinn.  Hvorugur nýtur göngunnar.

Það að komast á fjalltoppinn á eigin gleði og eigin orku er ekki sambærilegt við það að komast þangað keyrandi í bíl og e.t.v sitjandi í aftursætinu.

Lagði ég af stað í það langa ferðalag
Ég áfram gekk í villu eirðarlaus
Hugsaði ekki um neitt, ekki fram á næsta dag
Einveru og friðsemdina kaus

Ég á líf, ég á líf yfir erfiðleika svíf
Ég á líf, ég á líf vegna þín
Þegar móti mér blæs, yfir fjöllin há ég klíf
Ég á líf, ég á líf, ég á líf

Ég skildi ekki ástina sem öllu hreyfir við
Þorði ekki að faðma og vera til
Fannst sem ætti ekki skilið að opna huga minn
Og hleypa bjartri ástinni þar inn

Ég á líf, ég á líf yfir erfiðleika svíf
Ég á líf, ég á líf vegna þín
Þegar móti mér blæs, yfir fjöllin há ég klíf
Ég á líf, ég á líf vegna þín

Og ég trúi því, já, ég trúi því
Kannski opnast fagrar gáttir himins
Yfir flæðir fegursta ástin
Hún umvefur mig alein

Ég á líf… yfir erfiðleika svíf
Ég á líf, ég á líf vegna þín
Þegar móti mér blæs, yfir fjöllin há ég klíf
Ég á líf, ég á líf vegna þín

Ég á líf, ég á líf, ég á líf

masada9

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s