Eftirsjá á dánarbeði – eða ekki ….

Lissa Rankin er læknir, – en einnig mikil áhugamanneskja um „Mind over Medicine“ og hefur skrifað mikið um það. –  Það er s.s. um andlega þáttinn í lækningum. Ég hef fylgst með henni á Facebook og hlustað á nokkra góða fyrirlestra með henni.  Í dag (11. júlí 2014) birti hún eftirfarandi (í minni þýðingu):

„Sem læknir, sem hefur oft setið við dánarbeð, get ég staðfest þá staðreynd að hin deyjandi sjá sjaldnast eftir því að hafa ekki haft næga stjórn á lífi sínu.  Þau sjá eftir því að hafa ekki tekið meiri áhættur.  Þau sjá eftir draumum sem þau fylgdu ekki eftir, ástríðu sem þau létu renna út í sandinn.  En enn fremur, sáu þau eftir að hafa ekki opnað hjarta sitt að fullu svo að kærleikurinn flæddi út, eins og úr brotinni kókóshnetu.  Þau sáu eftir að hafa ekki tjáð sig meira um ástina,  og hvernig þau héldu aftur af sér, íklædd brynju til að vernda sig gegn berskjöldun ástarinnar. Þau sjá eftir að hafa ekki fyrirgefið þeim sem særðu þau.  Þau sjá eftir að hafa ekki haft samkennd sem lífsgildi í fyrsta sæti.   Og á þessari lokastundu, þegar þau finna sárindin yfir því að hafa látið þörfina fyrir að stjórna leiða þau til að fórna tækifærinu til að elska að fullu, finna þau, í sársaukanum í eftirsjánni, að þau eru þau sem eru í mestri þörf fyrir samkennd.

Vöknum við þetta. Ekki vera ein eða einn af þessum sem deyr með eftirsjá. Ekki láta óttann halda aftur af þér. Það er ekki of seint. Það er enn tími.  Þitt er valið.  Í stað þess að vera takmörkuð af ótta okkar,  getur þú látið hugrakka hluta þinn taka við stjórninni héðan í frá.  Þú mátt eiga drauma.  Þú hefur það sem til þarf, til að vera ein/einn af þessum, sem uppfyllir sínar ástríður,  lætur alla sem þú elskar vita, og að upplifa þessa innri ró sem felst í því að lifir í samræmi við hið sanna sjálf þitt.  Þú getur geislað frá þér meðvitund Guðs í mannlegu formi – og elskað alla leið, alltaf, og skilið eftir boðskap hjá hópi fólks.  Hjarta þitt er svona umfangsmikið.  Hugrekki þitt er svona stórt: Þú hefur enga hugmynd um hversu mikil/l þú ert.  Þú getur byrjað nú þegar.  Þú hefur innra með þér máttinn til að breyta öllu á augabragði.  Í dag getur verið fyrsti dagurinn í restinni af lífinu þínu. 

Stattu stöðug/ur í þeirri fullvissu að þú ert elskaður/elskuð.  Þú ert nóg. Þitt sanna sjálf þráir að brjótast út, og þegar þú gerir það blessar þú heiminn.“
——
Hér vantar nú bara Amen og Hallelúja.  Hvílíkur hvatningartexti að láta nú eftir sér og þora að gera það sem okkur langar til.  Er einhver þarna úti sem þig langar að segja að þú elskir?  Það er allt í lagi að viðkomandi viti það, –  þó hann/hún elski þig ekki til baka (ekki ástfangin) – þá ert þú a.m.k. búin/n að segja þitt.  Svo getur verið að okkur langi að segja vinum eða vinkonum hversu ómetanleg þau eru okkur og hvað við elskum þau mikið.  Nú eða börnum – foreldrum o.s.frv. –  Það er alltaf svo notalegt að heyra: „Ég elska þig“  –  mér hlýnar a.m.k. við það .. og látum nú elskuna flæða eins og kókósmjólk úr öllum okkar brotnu hjörtum,  því að engin/n hefur nú gengið þessa lífsgöngu án einhverra sára sem hafa skapað glufur í hjartað,  hvernig væri nú að nota þær til góðs og hleypa kærleikanum út  – í stað þess að vera í þessari brynju? –
Látum nú þau sem farin eru kenna okkur – lærum af þeim – og auðvitað lifa þau enn í okkur, svo við höfum tækifæri að ljúka því sem þau hefðu e.t.v. viljað.
Það eru sem betur fer ekki öll sem fara full eftirsjár.  Ég átti stelpu sem lifði hugrökk, fylgdi hjarta sínu og lét ekki stöðva sig. –  Hvernig hún lifði var í sínu lífi,  er mér,  og mörgum fleirum  innblástur í okkar lífi, alla daga.
Það er ekki síst hennar vegna að ég, móðir hennar, þori í dag að vera ég sjálf, með opið hjarta, þori að elska – þrátt fyrir að vera auðsæranleg og þrátt fyrir nektina sem felst í því að missa. Því ég hef uppgötvað þann sannleika að kærleikurinn er uppspretta sem eykst við notkun.
Hræðumst aldrei að elska, og vonandi mun þessi elska einhvern tímann verða ráðandi afl í heiminum. –
Það byrjar heima –  í hjartanu þínu.
Þakka þér fyrir að hafa gefið þér tíma til að lesa. ❤
candle-heart-hands

Elsku unga manneskja …

Þetta bréf er stílað á þig sem íhugar tilgang lífsins og finnst hann jafnvel enginn.  Þetta bréf er stílað á þig sem situr heima og hugsar um allt sem þú getur EKKI gert, og sekkur því dýpra og dýpra niður í „EKKIГ –

Ungar manneskjur eru á öllum aldri, ungar manneskjur sem hugsa um það sem þær geta „EKKI“ gert. – Louise Hay er kona sem er 87 ára ung, eins og hún segir sjálf, en hún hugsar ekki um það sem hún getur ekki, heldur um það sem hún getur.

Hvað ef að tilgangur lífsins er nú að NJÓTA lífsins?  Við fáum oft mótstöðu,  ytri mótstöðu og þá er ekki möguleiki að njóta, en mótstaðan endist sjaldnast að eilífu, og stundum er það okkar að koma okkur úr aðstæðum sem veita mótstöðu.

Hvað þegar ytri mótstaðan er farin og eina mótstaðan sem eftir er er hugarástand þar sem þú hugsar „Ég get EKKI“ –

Það er fórnarlambshugsun, sem þarf að snúast yfir í hugsun sigurvegarans,  því öll erum við, sem drögum andann, sigurvegarar lífsins.  Andardrátturinn er forsenda þess að við lifum.

Þakklæti fyrir lífið er eitthvað sem við megum iðka meira,  – og kannski er það pinku van-þakklæti fyrir lífð að hugsa alltaf um þetta „EKKI“ –

Fókusinn skiptir máli, að hugsa upp, hugsa ljós og hugsa gleði, – hugurinn ber þig hálfa leið og svo þarf að koma sér.  Nei, ekki hugsa „EKKI“ – heldur  Ég GET – ÆTLA – SKAL  o.s.frv. – og svo má bæta við  „Mér þykir vænt um sjálfa/n mig“ –

 

Hægt er að hlusta ókeypis á hana Louise L. Hay á Youtube,  að vísu á ensku, þar sem hún les efni bókarinnar  „I CAN DO IT“

Ég set hlekk á það HÉR

codependent-no-more

Hvernig iðkum við þakklæti?

Hvað er lífsfylling? –

Það hlýtur að fela í sér að við séum sátt og ánægð með það sem við höfum.

Andheiti við lífsfyllingu er lífstóm, ekki að það sé orð sem við notum.

En lífstómið er tómleikatilfinning.  Tilfinning að það vanti eitthvað í lífið, okkur skorti, við söknum o.s.frv. –

Í bók sem heitir „Women, food and God, an unexpected path to almost everything“ – lýsir höfundurinn Geneen Roth því hvernig við reynum stundum að fylla á þetta tilfinningatóm með mat. –

Við getum skipt út þeirri hugmynd með mörgu öðru sem við reynum að nota – en dugar ekki, því við erum að kalla eftir tilfinningalegri næringu en fyllum á með fastri fæðu  eða veraldlegum hlutum af ýmsum toga.

Það sem vantar er oftar en ekki friður, ást, sátt, gleði, – eitthvað andlegt sem ekki er hægt að fylla á með mat.

Hér er komið að þakklætinu.

Þegar við þökkum það sem við höfum, og stillum fókusinn á það, förum við að upplifa meiri fullnægju og minna tóm. –  Þá látum við af hugsuninni um skort. –

En þakklæti er ekki bara eitthvað sem við hugsum, heldur þurfum við að ganga lengra, og „praktisera“ þakklæti.  –

Ég er nú ein af þeim sem hefur fundist pinku „fyndið“ og e.t.v. öfgafullt að biðja borðbænir fyrir mat, en líklegast er það ein fallegasta þakkarbænin, að þakka fyrir að fá að borða, því það er ekki sjálfsagður hlutur alls staðar í heiminum. –

Þó við förum ekki að taka upp þá iðju, nema kannski hvert og eitt svona sér fyrir sig,  þá er það að iðka þakklæti eitthvað í þeim dúr.

Það sem ég hef kennt á námskeiðunum mínum er t.d. að halda þakklætisdagbók, – þá skrifar fólk niður daglega, yfirleitt á sama tíma dags það sem það er þakklátt fyrir,  e.t.v. þrjú til fimm atriði.  Þetta þarf að iðka til að það komist upp í vana.

Hugrækt virkar eins og líkamsrækt, – það dugar ekki að æfa skrokkinn einu sinni og halda að við séum komin í form.  Við þurfum að endurtaka æfingarnar aftur og aftur og gera það að lífsstíl eða nýjum sið í okkar lífi. –

Þakklætið virkar líka þannig, –  að þakka daglega eða a.m.k. reglulega þó það sé aðeins 2 -3 í viku. –

Það er nefnilega þannig að þakklæti er undirstaða lífsfyllingar, sáttar, gleði og ýmissa góðra tilfinninga.

Þakka þér fyrir að lesa!

Sáum fræjum þakklætis og uppskerum ………

971890_412903325485195_97787239_n

Að sleppa og taka á móti með krepptan hnefa?

Flest könnumst við við það að eiga erfitt með að sleppa tökum.  Við höldum í ýmislegt sem oft er ekki okkar að stjórna, höldum jafnvel í fortíð eða fólk sem við viljum breyta. –

Þegar við höldum þá kreppum við hnefann – höldum fast í taumana og lokum á. –

Fyrir utan það að halda fast – þá lokum við á möguleikann á nýjar gjafir sem kæmu í staðinn,  því við tökum ekki á móti neinu með krosslagðar hendur eða kreppta hnefana. –

Til að taka á móti þarf að opna lófana – sleppa tökunum – finna það fara og svo finna nýja orku í lófunum og leyfa þessu nýja að koma,  þiggja gjafir lífsins og ekki veita þeim mótstöðu.

Þetta er góð æfing, þ.e.a.s. að sitja í nokkrar mínútur á dag með opna lófana – og taka á móti og segja „Já takk“ –

535347_300756753337389_1236466656_n

Er slóðinn varðaður með kærleika? …

Næstum daglega stöndum við frammi fyrir einhvers konar vali, – veraldlegu vali eins og  hvað við eigum að hafa í matinn, og svo vali um viðhorf. –

Ákvarðanir eru teknar og við tökum stefnu samkvæmt þeim, og svo kemur eitthvað upp á og þá breytist stefnan.

Oft heyrum við sagt „Ég veit ekki hvað ég vil“ –  eða „Ég veit ekki hvert ég er að stefna“ –

Þetta þýðir þó varla að við vitum ekki neitt.

Við getum byrjað að stilla upp fyrir okkur það sem við vitum, – flest fólk vill t.d. frið, gleði, ást, styrk o.s.frv. –  Þá er hægt að setja fókusinn þangað, eins og fram kemur í síðustu færslu sem nefnist: Hókus Fókus.

Það eru nokkur ár síðan ég sá tilvitnun frá Carlos Castenada og er hún eftirfarandi:

„Does this path have a heart? If it does, the path is good; if it doesn’t it is of no use.“  

Það er gott að hafa svona vörður, vörður hjartans – kærleikans – á slóðanum okkar.  Ef við lendum á gatnamótum og þurfum að velja á milli tveggja leiða, að spyrja okkur hvor leiðin færi okkur meiri kærleika, meiri ást – og þá allt sem áður er nefnt; gleði, frið og styrk. ❤

6a00d8344a59a353ef00e54f4fbf2d8834-800wi

Einföld formúla ánægjunnar ..

1. Þakklæti fyrir það góða sem er í lífi okkar (upplagt að minnast þess á hverjum degi seinni partinn, og endilega virkja alla fjölskyldumeðlimi, æði fyrir börn að alast upp við þennan sið).

2. Gleði – ánægja er afrakstur þakklætis, og kemur vegna þess að við höfum nú stillt fókusinn meira á það sem við erum þakklát fyrir og ánægð með í lífinu.

3. Jafnvægi – næst mun frekar þegar við erum glöð – við nennum ekki að ergja okkur á smámunum, á öðru fólki sem er í fýlu o.s.frv. –  ef við förum í gremju eða fýlu byrjum aftur á stigi 1 og þökkum meira og ef við spólum í sama fari þurfum við e.t.v. að fyrirgefa meira (sjálfum okkur líka).

4. árangur –  næst nú í því sem við tökum okkur fyrir hendur og í samskiptum.

Gleðin er ekki einungis besta víman, hún er besta orkan sem kemur okkur áfram að því markmiði sem við stefnum og að ganga í gleði hlýtur að vera mikill lífsárangur!

Eigum góðan dag og leikum okkur! –

426349_4403581721455_1819512707_n

 

Ég vil lifa og ég vil gleðjast …

Ég vil dvelja á stað þar sem umvefur mig hrein jákvæð orka, og ef ég hugsa það innar, þá vil ég VERA hrein jákvæð orka.

Ef ég er hrein jákvæð orka, tek ég ekki á móti neikvæðri orku,  hún nær engri tengingu og svona skoppar af mér eins og vatn ef ég væri smurð með olíu. –

Auðvitað íhuga ég lífið og auðvitað íhuga ég dauðann, eftir þjáningar þær sem ég er búin að fara í gegnum síðastliðið ár.  Dauðinn bankaði snemma á dyrnar hjá mér,  en það gerðist þegar pabbi lést 1969 og ég aðeins tæplega 7 ára gömul. –

Dauðinn er jafn sjálfsagður og lífið en voða lítið ræddur í raun.  Það mætti kannski ræða hann meira – ekki undir formerkjum þess að vera hrædd við dauðann,  eða óttast komu hans, heldur til að skilja hann og samþykkja að hann er einmitt hluti lífsins.

Okkur finnst það óréttlátt og hrikalega ósanngjarnt þegar ungt fólk deyr. Það er ósanngjarnt og ömurlegt einhvern veginn. Að ung börn fái ekki að lifa með móður – með föður,  sjái þau aldrei aftur í lifanda lífi.

Það má þó segja að það séu til aðrir vondir hlutir sem eru ekki beinlínis dauði,  en það er þegar foreldrar – lifandi foreldrar – hafna börnum sínum, eða börn foreldrum.   Hvers konar „dauði“ er það annars ekki?

Þegar skaðinn er skeður,  þegar dauðinn er hið raunverulega sem við verðum að horfast í augu við.  Þegar mamma, pabbi, dóttir, sonur, bróðir, systir, frænka, frændi, vinur, vinkona eru farin,  þá hvað?

„Minning þín er ljós í lífi okkar“  er algengasta áritun á legsteina í dag, það þekki ég því ég seldi legsteina í tæp tvö ár. –

Og minning minna nánustu sem farin eru úr þessari jarðvist er svo sannarlega ljós í lífi mínu.

Það er mikið að missa bæði dóttur og móður á sama ári.  Það hljómar eiginlega óbærilegt – og það er það,  en samt,  já samt kemst ég einhvern veginn áfram.

„When going through hell keep going“ –  heyrði ég um daginn.

Ég held áfram, vegna þess að ég fæ enn fleiri minningar og enn meira ljós til að styrkja mig.

Ég fæ ljós frá minningum hinna dánu,  og ég fæ ljós frá hinum lifandi. Aldrei hef ég fengið eins mikla elsku og væntumþykju eins og núna síðustu ár, og þið þarna úti eruð að styrkja mig í því að hreinsa út neikvæða orku og ég vil lifa og ég vil gleðjast og ég vil vera hrein jákvæð orka,  því lífið er orka og við sogum til okkar neikvætt og við sogum til okkar jákvætt.

Þegar fólk fer á fínustu skemmtistaðina þá eru sumir sem fá V.I.P. passa, en V.I.P. þýðir Very – Important – Person.

Í mínu lífi hafa verið mjög mikilvægar persónur, – og þær eru að sjálfsögðu í lífi okkar allra.  Nokkrar af mínum V.I.P. eru farnar og ég varð fúl, sár og reið að þær væru farnar, – þá stærsta stjarnan mín hún Eva Lind,  sem var tekin svona fram fyrir röðina og fór á undan.

Það gat engan órað fyrir því að svona skyldi fara, en það getur engan órað fyrir því að ungt fólk fari – börn á undan foreldrum sínum, en samt er það alltaf að gerast.  Ég er ekki eina móðirin sem hefur misst barnið sitt, – þó að á þeim tímapunkti sem það gerðist liði mér þannig.

En ég VIL lifa og ég vil gleðjast, ég vil njóta þess og þeirra sem eru í þessari jarðvist.  Ég vil vera þeim hrein jákvæð orka um leið og sjálfri mér.

Aðeins út frá styrkleika mínum og mínu ljósi get ég gefið styrk og get ég gefið ljós – og ég get vísað veginn eins og viti.   Ég dreg engan áfram, því engin/n vill vera dregin/n.  – Allir vilja geta gengið á eigin jákvæðu orku.

Í gærkvöldi setti ég kómískan status á facebook: „Ef ég fæ 10 like tek ég tappann úr rauðvínsflösku“ –  ég er, í þessum skrifuðu orðum,  komin með 105 „likes“ .. –  Þetta var skemmtilegur leikur og vissulega var tappinn tekinn úr – og svo kom systir yfir og hjálpaði til, en ég naut í raun mun betur þess að hlæja að öllum „like“ og vinarþelinu sem þeim fylgdu, heldur en áhrifa vínsins.

(ég tek það sérstaklega fram að ég er ekki að hvetja til drykkju áfengra drykkju, og held fast við það að vatnið sé drykkur drykkjanna).

En eníhú – svo ég fari nú að setja botn í þennan pistil –  þá poppaði ítrekað upp í höfuð mér setning úr bók bókanna, sem er   B.I.B.L.Í.A. –  en þessi orð eru úr bók hennar sem kallast  „Prédikarinn“ .. reyndar ætla ég að setja allan kaflann hér með því mér finnst hann passa vel við það sem ég er að skrifa:

„Öllu er afmörkuð stund

1Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma.
2Að fæðast hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma,
að gróðursetja hefur sinn tíma og að rífa upp hið gróðursetta hefur sinn tíma,
3að deyða hefur sinn tíma og að lækna hefur sinn tíma,
að rífa niður hefur sinn tíma og að byggja upp hefur sinn tíma,
4að gráta hefur sinn tíma og að hlæja hefur sinn tíma,
að harma hefur sinn tíma og að dansa hefur sinn tíma,
5að kasta steinum hefur sinn tíma og að tína saman steina hefur sinn tíma,
að faðmast hefur sinn tíma og að halda sér frá faðmlögum hefur sinn tíma,
6að leita hefur sinn tíma og að týna hefur sinn tíma,
að geyma hefur sinn tíma og að fleygja hefur sinn tíma,
7að rífa sundur hefur sinn tíma og að sauma saman hefur sinn tíma,
að þegja hefur sinn tíma og að tala hefur sinn tíma,
8að elska hefur sinn tíma og að hata hefur sinn tíma,
stríð hefur sinn tíma og friður hefur sinn tíma.
9Hvaða gagn hefur verkamaðurinn af öllu striti sínu?
10Ég virti fyrir mér þá þraut sem Guð hefur fengið mönnunum að þreyta sig á. 11Allt hefur hann gert hagfellt á sínum tíma, jafnvel eilífðina hefur hann lagt í brjóst þeirra en maðurinn fær ekki skilið að fullu það verk sem Guð vinnur. 12Ég sá að ekkert hugnast þeim betur en að vera glaðir og njóta lífsins meðan það endist. 13En að matast, drekka og gleðjast af öllu erfiði sínu, einnig það er Guðs gjöf.

ETUM – DREKKUM OG VERUM GLÖÐ,   ÞVÍ ÞAÐ ER GUÐS GJÖF.

(feitletranir eru mínar).

eat_drink_enjoy_960x433

Gleðjumst yfir okkar innra ljósi ..

Marianne Williamson – er einn af þessum andlegu gúrúum sem ég hef aðeins verið að fylgjast með,  en eins og ég hef útskýrt áður þýðir gú-rú víst frá myrkri til ljóss. –

Á heimasíðu Marianne er hægt að finna margt áhugavert og m.a. eftirfarandi texta, að sjálfsögðu er orginalinn á ensku,  en þegar ég ætlaði að fara að snara honum á íslensku ákvað ég að leita hvort að einhver hefði ekki gert það fyrr og sú var raunin,  svo ég gerði í raun bara „kópí-peist“ –   svo textinn er í boði Marianne Williamson og þýðandans Svans Gísla Þorkelssonar.

En hann hljóðar svona:

„Það sem við óttumst mest er ekki að við séum ófullkomin. Það sem við óttumst mest er að við séum óendanlega voldug. Það er ljósið í okkur, ekki myrkrið, sem við hræðumst mest. Við spyrjum sjálf okkur að því;“hvers vegna ætti ég að vera snjöll, fögur, hæfileikarík og fræg?“ Spurningin ætti frekar að vera, „hvers vegna ekki ég.“ Þú ert barn Guðs. Að látast vera lítilfjörlegur þjónar ekki heiminum. Það er ekkert göfugt við að skreppa saman svo fólk finni ekki fyrir óöryggi í nálægð þinni. Við vorum fædd til að opinbera dýrð Guðs sem er innra með okkur. Hún býr ekki aðeins í sumum okkar, heldur öllum. Þegar þú lætur eigið ljós skína gefur þú ómeðvitað öðru fólki leyfi til að gera slíkt hið sama. Þegar við losnum við eigin ótta, frelsar nærvera okkar sjálfkrafa aðra.“

Marianne Williamson (þýðing Svanur Gísli Þorkelsson)

Þetta er í raun mikilvæg samantekt á því sem ég hef verið að skrifa um,  eins og mikilvægi þess að leyfa ljósi sínu að skína, – það er ekki nýr sannleikur og kemur t.d. fram í Biblíunni.

Líka mikilvægi þess að gera ekki lítið úr sjálfum okkur og það að okkar eigin ljós á ekki að skaða annarra ljós.

Margir eru hræddir við að láta ljós sitt skína, og margir eru hræddir við að vera glaðir.  Já, – nýlega komst ég yfir efni sem fjallaði um það að í raun væri gleðin eitt af því sem við óttuðumst.

Um leið og við förum að finna fyrir mikilli vellíðan eða gleði – þá byrjum við að skemma og hugsunin fer í gang „hvenær hættir þetta“ –  „þetta getur nú ekki enst lengi“ .. og svo framvegis.

„Of gott til að vera satt“ –   ef eitthvað er gott og okkur líður vel og erum glöð þá er okkur óhætt að njóta stundarinnar,  ekki skemma hana með því að hugsa að hún endist ekki,  að einhvern tímann muni þetta hætta og eitthvað verra taki við.

Ýmsir af þessum meisturum eða gúrúum tala um „The present moment“  eða Núið.  Að njóta Núsins,  og er Eckhart Tolle kannski þar fremstur meðal jafningja enda skrifaði hann bókina „Mátturinn í Núinu.“

Það er svo gaman að orðaleiknum, „Present“ – og tengist textanum frá Marianne.  Því auðvitað er present ekki bara núið heldur líka þýðir það gjöf.   Lífsins gjöf.  Þegar við erum „present“ erum við viðstödd.  Viðstödd –   stöndum í núinu.

Þegar við erum viðstödd (okkur sjálf) eigum við auðveldara með að tengjast okkar eigin innra ljósi en ef við erum fjarri – ef hugurinn er einhvers staðar annars staðar.

Innhverf íhugun er hugsun um þetta innra.  Við tengjum hugann við ljósið,  í stað þess að vera með hann á flökti út um allar trissur, hvort sem það er í öðru fólki eða á öðrum tíma.

Ef við erum ótengd þá höldum við að við verðum glöð „þegar“  – þegar eitthvað hefur gerst – eða þarna,  þ.e.a.s. á öðrum stað.

Auðvitað hefur umhverfi áhrif, fólk hefur áhrif.  En ef við erum ekki tengd okkar innra ljósi,  þá verðum við aldrei ánægð og finnst alltaf eins og okkur skorti eitthvað. –

Þá skiptir engu máli að fara í „draumaferðina“ til Parísar,  eða á sólarströnd, eða hvert sem ferðinni er heitið.   Ef við erum ekki með sjálfum okkur,  við erum absent eða fjarverandi okkur sjálf þá njótum við ekki stundarinnar, – erum ekki „present“ – erum ekki að njóta þessarar dýrðar sem okkur er gefin,  okkar innri fjársjóðs.

Þess vegna er þetta svo magnað – þessi áskorun að vera ekki í óverðugleikahugsuninni, –  heldur að sjá okkar innra ljós og upplifa innra verðmæti,  og ekki síst vegna þess að við gerum heiminum ekki gagn með því að gera lítið úr gjöf Guðs,   lífinu sjálfu, úr okkur sjálfum.

shine-large

Uppskrift að betra lífi ..

1.  Ástundum þakklæti – því þakklæti leiðir til gleði og gleði til árangurs.

2. Gerum okkur grein fyrir að tilgangur lífsins er gleði,  og alltaf þegar við stöndum frammi fyrir ákvörðunum þá veljum þá sem veitir meiri gleði.

3. Veljum góða andlega næringu,  við förum ekki í jákvæðnikúr, við breytum siðum okkar þannig að góð andleg næring er það sem við kjósum á diskinn okkar allt lífið. –  Þess meira pláss sem við gefum hinu góða því minna pláss er fyrir hið vonda. –

4. Forðumst að vera fórnarlömb,  klæðum okkur ekki í „fórnarlambsbolinn“ á morgnana heldur „sigurvegarabolinn“ –  berum höfuðið hátt.

5. Fyrirgefum, sleppum ásökunum – gerum okkur grein fyrir aðstæðum og skiljum þær, en notum hvorki fólk né aðstæður til að stimpla okkur inn í aðgerðaleysi og eymd.  Eymd er valkostur.

6.  Trúum að við fáum aðstoð lífsins, að þegar við segjum „já takk“ að lífið komi til móts við okkur.  – Trúin er þessi hlekkur sem oft vantar þegar allt hitt er komið.  Þegar við vitum allt – t.d. hvernig við eigum að ná árangri – en við trúum ekki á eigin árangur.  Trúðu á þinn mátt og megin.

7.  Veitum athygli og virðum það góða,  okkar eigin kostum og kostum þeirra sem eru í kringum okkur.  Að veita athygli er svipað og að virða,

8. Ekki leita eftir elsku, gleði, skemmtun eða  þakklæti frá öðrum. Elskum, gleðjumst, skemmtum okkur og þökkum.  Við höfum uppsprettu þessa alls innra með okkur.  Okkur skortir ekkert.  Gleði laðar að sér gleði, elska laðar að sér elsku og þakklæti laðar að sér þakklæti.

9. Leyfum okkur að skína, leyfum okkur að eiga allt gott skilið, verum að-laðandi, það þýðir að við fyllum á okkar eigin bikar – fyllum á hann með heilagleika sem við getum lært við hugleiðslu, yoga, bænir,  útiveru,  fjallgöngur eða annað sem við finnum að gefur okkur nánd við það sem er heilagt og tært.

10.  Gerum okkur grein fyrir því að hið andlega líf, vellíðan hið innra er undirstaða að betra veraldlegu lífi.

11. Verum heiðarleg og sönn,  gagnvart sjálfum okkur og öðrum. Heiðarleiki er grundvöllur góðra samskipta. Tjáum okkur opinskátt og segjum það sem við meinum, en förum ekki fjallabaksleið að efninu.  Tölum út frá hjartanu,  það þýðir að segja ég en ekki þú. „Mér líður svona þegar“ .. í stað þess að ásaka „Þú ert ..“

12.  Sýnum samhug en verum ekki heimshryggðarkrossberar.  Heimurinn hefur ekkert gagn af okkur ef við erum gagntekin af sorg yfir atburðum sem gerast hinum megin á hnettinum.  Þá fjölgar bara fórnarlömbunum ef við erum orðin óstarfhæf eða máttlaus vegna þessarra atburða.

13. Lítum okkur nær.  Dokum við og lítum í eigin barm áður en við förum í það að dæma náungann.  Ef við erum vöknuð ekki dæma þau sem eru enn sofandi.

14. Þegar við lendum í stormi, myrkri, holu  – sem okkur líður illa í – hugsum ekki myrkur, heldur hugsum ljós.  Þá erum við lögð af stað út úr myrkri, holu, sorg.

15. Munum að þó að sælla sé að gefa en þiggja þá þurfum við líka að sýna þá auðmýkt að vera á þeim enda að þiggja. Þiggja hrós og þiggja hjálp. – Ekki vera of stolt,  –

15. Opnum hjörtu okkar, sýnum tilfinningar, höldum ekki leyndarmál sem skaða okkur,  virðum innri frið.

16. Elskum óvini okkar – óttann og skömmina, – „Kill them with kindness“ – það þýðir að við eyðum þeim með elsku.  Rými þeirra minnkar og endar með því að við verðum að mestu óttalaus og förum að lifa af hugrekki. – Stundum elskum við mest með að sleppa tökunum – og af hverju ekki að sleppa tökunum á ótta, kvíða og afbrýðisemi? –   Stjórnsemi – það að treysta ekki er að óttast. „Faith or fear“ –   Við óttumst það sem við þekkjum ekki, við óttumst óvissuna.  Óttinn og vantraustið er grunnur stjórnsemi og stundum verðum við hreinlega að sleppa tauminum því að okkur er farið að verkja – og leyfa lífinu að vera án okkar stjórnunar.

Biðjum um æðruleysi – til að sætta okkur við það sem við getum ekki breytt – sætta okkur við fortíð og fólk og fyrirgefa, okkar vegna. Biðjum um hugrekki til að breyta því sem við getum breytt, um hugekki til betra lífs, til að tjá okkur án ótta.  Biðjum um vit til að greina a milli þess sem við getum breytt og þess sem við getum ekki. –  Fortíð verður ekki breytt og fólki verður ekki breytt.

Sættum okkur við það sem er, eins og við höfum valið það – því út frá sáttinni hefst nýr vöxtur – ekki fyrr. 

Lífskrafturinn er kærleikur,  allt sem við gerum, setjum kærleikann inn í þá jöfnu og munum að meðvirkni er ekki góðmennska,  hún er vankunnátta í góðmennsku og hún er í raun eigingjörn góðmennska. –  Við erum ekki að leyfa fólki að takast á við þeirra eigin áskoranir í lífinu,  við erum að stela sjálfstæði, stela virðingu.

Mesti kærleikurinn getur verið í þvi að setja fólki mörk.

Verum sjálf breytingin sem við viljum sjá hjá öðrum. Ergjum okkur ekki á þeirra vanmætti eða vankunnáttu, – verum okkar eigin bestu fyrirmyndir og þá um leið annarra.

Lifum heil. og höfum trú.  

1185179_423218941120300_1002824657_n

Þetta snýst allt um trú …

Þegar ég skrifa trú, þá er ég ekki að tala um trú sem trúarbrögð,  en við erum svo fátæk í íslenskunni að trú er notað um faith, belief og religion,  kannski fleira.

Trúin sem ég er að tala um hér er hugmyndir eða sú trú sem við höfum um okkur sjálf, getu okkur og um hvernig við erum og hvað við gerum. –

1174682_501815599908980_883015767_n

Snýst um trú á sjálfan sig og trú á að lífið komi til móts við okkur.

Ótti – kvíði – stjórnsemi – óöryggi o.fl eru einkenni þess að skorta trú.

Við trúum ekki á okkar hæfileika, við trúum ekki að við eigum allt gott skilið, við trúum ekki að okkur geti gengið vel,  við trúum ekki að við finnum góðan maka, við trúum ekki á að við finnum starf sem er áhugavert, við trúum ekki að við eignumst draumahúsið o.s.frv. –  Svo er það hið innra, við trúum ekki að við náum heilsu, náum sátt, náum að finna frið o.s.frv. –

Við getum lesið alla „The Secret“ – og allar sjálfshjálparbækur,  en ef við trúum engu sem þar stendur þá gera þær ekkert gagn.

EInhvers staðar stendur að trúin flytji fjöll.

Þau sem hafa trú á markmiðum sínum ná frekar árangri,  þau sem leyfa sér að leggjast í hendi trúarinnar og efast ekki þau uppskera oftast samkvæmt því. –

Það er þessi BELIEF – TRÚ  – eða HUGMYNDAFRÆÐI um okkur sjálf sem skiptir máli. – Ekki hvað aðrir hugsa, og við megum ekki gera það heldur að okkar trú eða hugmyndum – heldur hvað við hugsum í okkar höfði, eða hverju við trúum.  Ef við trúum að við séum heppin erum við fókuseruð á heppni.  Ef við trúum að við séum óheppin þá sjáum við ekki einu sinn þó að það liggi þúsund kall á götunni,  því við erum svo viss um að við séum svo óheppin.

Þetta með trúna og óheppnina sannaði Darren Brown í mynd sem hann gerði um „The Lucky Dog“ –  þar sem hann (ásamt hjálparfólki) náði að sannfæra fólk um að ef það snerti styttu af hundi – sem var algjörlega valin af handahófi,  yrði það heppnara. Og það var reyndin.  Hægt er að sjá heimildarmynd um þetta á Youtube.

Svo það þarf bara að fara að trúa, eða skipta út trúnni.

Í staðinn fyrir að nota alls konar setningar eins og

„Ég ætla að reyna að gera það“

„Ég ætla kannski að gera það“

„Ég vona að ég geti það“

„Ég er ekki viss um að ég geti það“

þá segjum við einfaldlega:

„ÉG GET ÞAГ  .. og við trúum á okkar mátt og megin,  það sem okkur er gefið hið innra. – Losum okkur við það sem íþyngir eins og ótta, skömm og efa – og höldum áfram í góðri trú.

Það munu koma hlykkir á leiðina, – og stormar,  en trúin er lykilatriðið.   Ef við erum í vanda með það,  þá þurfum við að biðja fyrir okkur að öðlast meiri trú – og fá styrk við það.   Trú á kærleika, jákvæðni og gleði. –

Við getum líka þakkað fyrir hvað við erum heppin að svo mörgu leyti. –

Við höfum öll máttinn (og dýrðina),  en við þurfum að læra að nota hann.  Leita inn á við, – leita ekki langt yfir skammt.

Þessi pistill er grundvallandi fyrir því sem ég er að fara að kenna – núna á örnámskeiði kl. 18:00 -20:00 í dag í Lausninni,  Síðumúla 13, 3. hæð.   Sjá http://www.lausnin.is

971218_563124067057884_436886814_n(1)