Mikill samskiptaspekúlant var að falla frá, hann Hugó Þórisson – blessuð sé minning hans, – en ég sótti eitt sinn helgarnámskeið hjá honum og hlustaði a.m.k. 3svar á hann á fyrirlestrum. –
Það er ýmislegt sem situr eftir eins og ‘“Ég“ boðin, að tala út frá sjálfum sér en ekki með ásökun, og það að „Segja það sem maður meinar og meina það sem maður segir.“
Þó Hugó hafi aðallega gefið sig út sem ráðgjafi í samskiptum foreldra og barna þá gilda þessi samskiptaboð að sjálfsögðu milli fullorðins fólks.
Ferlið í samböndum vill of verða þannig að fólk kynnist með fyrirfram gefnar væntingar um hinn „fullkomna“ maka, og ætlar síðan hinum aðilanum alls konar hluti sem eru honum kannski alls ekkert eiginlegir. Væntingar verða s.s. óuppfylltar og skapa óánægju og vonbrigði hjá þeim sem væntir og vonar og ætlast til. Það versnar líka oft í því þegar annar aðilinn ætlast til að hinn hreinlega viti hvað hann eða hún er að hugsa og fer svo í gríðarlegt fýlu-eða gremjukast þegar hinn hegðar sér ekki skv. væntingum og tilætlun þess sem óskar.
Þá kemur inn þetta gullkorn að segja upphátt hvað við viljum, hvers við vonum og tala um þarfir okkar og langanir, jafnvel framtíðarvonir og framtíðarsýn og sjá hvort þær smella saman. –
Það þýðir ekki að ætla maka sínum að sjá um okkar eigin hamingju, – eða taka ábyrgð á okkar hamingju, – svo ekki sé talað um ef við erum búin að ætla honum að vera öðru vísi en hann er, svo er hann bara alls ekkert þannig og fara þá að stjórnast með hann á þann hátt að breyta honum í eitthvað sem hann alls ekki er!!!.. og jú, fara svo í megafýlu ef honum tekst ekki að vera það sem VIÐ viljum að hann sé. –
Flókið, pinku. – En þarna kemur inn stjórnsemin, og það að ef við hefjum samband á röngum forsendum, þ.e.a.s. við ætlum okkur að breyta maka okkar til að „aðlaga“ hann að okkur þá er það nokkurn veginn dæmt til að mistakast. Ef að einhver fæ ekki að vera sá sem hann raunverulega er finnur hann ekki hamingjuna sína og enn þá síður getum við ætlast til að viðkomandi geti gert okkur hamingjusöm.
Alltaf eru það sömu grunnlögmál sem virka, þ.e.a.s. í samskiptum, við þurfum að vera sátt í eigin skinni til þess að eiga farsælt samband með öðru „skinni“ 😉
Það á engin/n að orku-eða hamingjusjúga annan aðila til að fá hamingju og ekki eigum við heldur að þurfa að vera hamingjubrunnur fyrir aðra. Það er hver og ein/n sinn eigin hamingjubrunnur. –
Um leið og við förum að ætlast til að uppspretta hamingju okkar liggi í annarri manneskju erum við að gefa frá okkur eigin mátt og vald – og fær hinni manneskjunni máttinn – gera hana að einhvers konar æðra mætti og jafnvel þannig að hún skyggi á okkar eigin æðra mátt.
Makinn verður þá einhvers konar „Guð“ í okkar lífi – og þegar makinn klikkar – fer ekki að OKKAR vilja, þá missum við „trúna.“ –
Verum við sjálf – leyfum öðrum að vera þau sjálf – reynum ekki að breyta fólki – og látum ekki fólk breyta okkur.
Verum við sjálf og virkjum okkar eigin uppsprettu gleði, gleði, gleði! 😉