Er hefndin sæt – eða súr? …

Ef þú hefur einhvern tímann rekið tána í stálfót – þá þekkir þú tilfinninguna sem kemur.  Sársauki – reiði og margir bölva upphátt.  Engum dettur þó í hug að sparka aftur á sama stað,  því þá meiðir sá hinn sami sig aftur. –

Það er ekki hægt að kenna neinum um nema okkur sjálfum að hafa rekist á stólinn.

Þegar aftur á móti einhver klessir innkaupavagninum aftan á hælana á þér í Bónus,  og þú finnur til – þá ertu komin/n með „sökudólg“ og gætir hvesst þig við hann,  sársaukinn er þó hinn sami,  og verknaðurinn var væntanlega og að öllum líkindum óviljaverk – og fæstir öskra á þann sem meiðir þá,  eða tekur sinn vagn og þrusar aftan á „sökudólginn.“ –

En í hvaða tilvikum þurfum við „hefnd?“ –

Væri það ekki ef að stóllinn hér i upphafi hefði sjálfstæðan vilja (sál) tilfinningar og myndi hreinlega ráðast á okkar tær? –   Eða að náunginn í Bónus hefði keyrt viljandi aftan á hælana á okkur?

Kannski felst hefndarviljinn helst í því að fólk þráir að einhver – og þá aðilinn sem særði SKILJI hvað þetta er vont.  Það liggur í fæstum tilvikum í því að vilja meiða.  Ef að sá sem keyrir aftan á biðst einlægrar afsökunar þá þurfum við varla að sýna honum framá hvað hann meiddi okkur mikið.

Hvað með hin andlegu sár? – Hvað með sárin eftir trúnaðarbrest eða höfnun? –   Höfnun upplifir fólk þegar makinn heldur framhjá með öðrum aðila.  Á þá að halda framhjá á móti og eru þá báðir aðilar komnir á sama plan? –  Er ekki bara skaðinn skeður og annað hvort að vinna í sáttum og fyrirgefningu eða kveðja stólinn, – nei ég meina makann?

Það er nefnilega þannig að reyna að hefna sín – með því að gera það sama, er eins og að sparka aftur í stólinn,  sársaukinn verður bara meiri.

En vissulega getur verið að þú sért búinn að kenna maka þínum „Lexíu“ – þ.e.a.s. nú hefur hann upplifað sársauka trúnaðarbrestsins,  eða það að þú ert búin/n að kenna henni hvaða tilfinningar það koma þegar þú stígur út fyrir ykkar heitbindingu.

En þetta er ekki sæt hefnd, hún er súr.

Auga fyrir auga, tönn fyrir tönn skilur heiminn eftir blindan og tannlausan. – Reyndar var þessu mótmælt í „The Intouchables“ þar sem síðasti maðurinn verður væntanlega eftir með eitt auga og eina tönn,  eða hvað?

En við náum því sem talað er um.

Það sem við viljum fá út úr hefndinni er einhvers konar uppgjör – skilningur og það þarf ekki alltaf að vera að gera það sama við gerandann og hann gerði þér. –

Dauðarefsingar eru löglegar enn í einhverjum fylkjum Bandaríkjanna, –  við sjáum í bíómyndum þar sem bugaðir foreldrar sitja og horfa á aftöku morðingja barnsins þeirra.   „Nú er réttlinu fullnægt“ – gæti setningin verið.

Líf fyrir líf – en hvað?  Er hefndin sæt? –  Fara foreldrarnir heim með bros á vör og sól í hjarta?  Er barnið komið til baka?    Auðvitað ekki.

Og er ekki verið að hefna sín á röngum aðila?  Ætli það séu þá ekki aðstendendur þess sem gerði sem sitja eftir með sorgina að missa.  Þá eru komnir fleiri syrgjendur í heiminn, gleði, gleði – eða ekki.

Það er eitthvað hörmulega rangt við þessa „hefnd“ –

Fólk þarf svo sannarlega að taka afleiðingum gjörða sinna,  fræðast,  skilja og átta sig.  Ef þetta fólk er ekki fært um það, og glæpurinn er á því stigi að það er hættulegt samfélaginu,  þarf að einangra það frá þeim sem það getur valdið skaða og til þess eru fangelsin.  Auðvitað eiga þau að standa undir nafni líka sem „betrunarhús“ – og þar þyrfti að vera öflugt starf þar sem farið er í að vinna uppbyggingarstarf með þá sem eru þar.

Enn aftur að fórnarlömbunum.  Það er einhver fróun sem fólk leitar, leitar skilnings,  það vantar eitthvað eða einhvern til að beina sársauka sínum og reiði að.

Vandamálið er að það að rífa auga úr þeim sem rífur auga úr okkur færir okkur ekki sjonina á það auga. –

Jú – hinn er eineygður líka,  en það breytir engu fyrir okkar sjón.

Til að geta náð bata – andlegum bata,  þurfum við að fyrirgefa, fyrirgefa OKKAR vegna.  Vegna þess að batinn næst ekki meðan við hvílum í reiðinni.   Batinn næst ekki meðan við erum föst í ásökun.  Batinn hefst þegar við sleppum tökunum á geranda,  kveðjum hann – höldum okkar leið, stillum fókusinn af honum og á okkur.  Byggjum upp andann, sættumst við aðstæður,  svona ERU þær og við getum ekki breytt því sem gerðist – svona afturábak. Við getum ekki breytt fortíð og sama hversu mikið við meiðum og lemjum einhvern –  við fáum ekki það til baka sem við misstum.

Höldum áfram,  og besta „hefndin“  í sumum tilvikum er einmitt að vera hamingjusöm. –   Það er ekki bara besta hefndin,  heldur í þeim tilvikum sem við höfum misst,  þá er það það hið besta sem við getum gert fyrir þann sem við höfum misst.  Þið getið bara hugsað það út frá sjálfum ykkur,  ef þið færuð úr þessari jarðvist,  mynduð þið vilja að ættingjar sætu fastir í reiði og hefndarhug eða næðu sér á strik og yrðu glöð og hamingjusöm? –

Hvað með trúnaðarbrestinn og höfnunina? –  Hvað ef að þessi fyrrverandi sér nú eftir ykkur og sér að þið eruð bara lukkuleg og glöð án hans/hennar?

Að fyrrverandi sé ekki sólin ykkar og tunglið og þið komist áfram og séuð farin að dansa salsa og ganga á fjöll með skemmtilegum hópi? –  Eða bara eiga ykkar glöðu stundir með sjálfum ykkur? –

Það er sætleiki en ekki súrleiki.

Það er af mörgu að taka hér – og ég hef tekið ýmislegt hér inn sem við gætum viljað hefna fyrir.  En hefndin – svona klassíks þar sem við viljum gera það sama við hinn aðilann – gengur sjaldnast upp.  Hún er súr og við gætum í sumum tilvikum alveg eins sparkað í stólinn sem við meiddum okkur á aftur, og svo aftur og bara meitt okkur út í hið óendanlega.

Þér hafið heyrt, að sagt var: ,Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn.`

En ég segi yður: Rísið ekki gegn þeim, sem gerir yður mein. Nei, slái einhver þig á hægri kinn, þá bjóð honum einnig hina.“ –  (MT 5.:38-39)

Þetta þýðir að við förum ekki á sama plan og sá/sú sem slær.  Við rísum yfir það og tökum ekki þátt.  Skiljum að flest ofbeldi eða það sem á okkur er unnið er út frá sársauka, dómgreindarleysi eða vanmætti þess sem fremur verknaðinn.  (Ofbeldi er í raun vanþekking og vanmáttur – vanmáttur þess að geta tjáð og ástundað kærleika – og kærleika kennum við varla með ofbeldi).

Kristur segir á krossinum,  „faðir fyrirgef þeim því þau vita ekki hvað þau gjöra“ –  er það ekki skýrasta dæmið?

Fyrirgefningin er gjöf til okkar sjálfra, – ef hún reynist okkur ofviða má feta í fótspor frelsarans og biðja föðurinn,  æðri mátt, lífið að taka boltann – fyrirgefa fyrir okkar hönd, því mennska okkar hindrar okkur í því að fyrirgefa beint og milliliðalaust. –

En fyrirgefning er fyrst og fremst gjöf frelsisins til okkar sjálfra,  hún hindrar það að hegðun annarra tæri upp okkar eigin hjörtu.

Fyrirgefningin er sæt.

1234933_10151721377503141_1503000993_n

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s