Eftirfarandi eru tveir pistlar sem ég hef sameinað eða „endurvakið“ af fyrra bloggi:
Þar sem líkaminn er farartæki okkar, er mikilvægt að huga að honum, fara vel með hann svo að allt virki og við komumst sem flestar „mílur“ á honum. Í því felst að sjálfsögðu að þrífa og bóna, en mikilvægast af öllu er að þykja vænt um hann hvernig sem hann er, því að hann gengur bæði fyrir andlegu og líkamlegu eldsneyti.
Mestu skiptir að hugsa fallega um líkama sinn, – ekki bara að láta hann líta vel út eða eins og við höldum að aðrir vilji (hrukkulaus og ungleg kannski?). Með útliti getum við bætt í traustið, en ekki hið raunverulega sjálfstraust heldur einhvers konar annað-traust. Eða eins og Pia Mellody höfundur bókarinnar „FACING CODEPENDENCE“ kallar það Other-esteem.
Fólk sem byggir á Other-esteem byggir á utanaðkomandi hlutum eins og t.d.;
Hvernig það lítur út
Hversu hár launaseðill þeirra er
Hverja þeir þekkja
Á bílnum þeirra
Hversu vel börnin standa sig í skóla, vinnu o.s.frv.
Hversu áhrifaríkur, mikilvægur eða aðlaðandi maki þeirra er
Gráðurnar sem þeir hafa unnið sér inn (Bjarnfreðarson með fimm háskólagráður)
Hversu vel þeim gengur í lífinu þar sem öðrum þykir þau framúrskarandi
Að fá ánægju út úr þessu ofantöldu, eða fullnægju er í fínu lagi, en það er EKKI sjálfstraust.
Þetta Other-esteem er byggt á gjörðum, skoðunum eða gjörðum annars fólks.
Vandamálið er að uppruni þessa Other er utan sjálfsins og því viðkvæmt eða brothætt vegna þess að það er eitthvað sem við getum ekki stjórnað. Það er hægt að missa þessa utanaðkomandi hluti hvenær sem er, og er því óáreiðanlegt – Það er ekki gott að byggja sjálfstraust á einhverju sem getur horfið eða eyðst.
Útlit okkar gerir það óumflýjanlega. Kjarni okkar er sá sami hvort sem við erum ung eða gömul, með gervineglur, botox, silikon, diplomur úr háskóla o.s.frv. Hann er alltaf sá sami og nærist á því að við sættumst við okkur, þekkjum og elskum okkur.
Sjálfstraust okkar á ekki að byggjast á hversu vel barni okkar gengur í skóla, eða hvort að því gengur illa í lífinu. Það er það sem flokkast undir Other.
Ef við lærum að við erum verðmæt og góð sköpun, hvernig sem við lítum út, hvernig sem börnum okkar farnast, þá náum við að hlúa að sjálfstrausti okkar og þá hætta utanaðkomandi öfl að þeyta okkur fram og til baka eins og laufblöðum í vindi.
Ef við látum umhverfið hafa svona mikil áhrif erum við meðvirk að meira eða minna leyti, og við erum það flest. Það er ekkert til að skammast sín fyrir og reyndar eigum við að skammast okkar sem minnst, en í staðinn hleypa tilfinningunum i þann farveg að vera meðvituð.
Ef við gerum okkur grein fyrir því að það sem Sigga systir sagði í gær hafði svona neikvæð áhrif á okkur, eða það sem Óli bróðir sagði hafði svona góð áhrif kom okkur upp í skýin erum við meðvirk.
Við látum umhverfið stjórna því hvort við erum glöð eða sorgmædd.
Ég fór sjálf út í meðvirknivinnu vegna þess að ég var eins og laufblað í vindi, lifði til að þóknast. En þegar ég vaknaði til meðvitundar um það , sá ég að það var til að þóknast öllum öðrum en sjálfri mér.
„Hvað skyldi þessi segja ef ég …. “ Ætli þessi verði ánægð ef ég … “ „Ég get ekki verið hamingjusöm nema þessi og þessi séu það líka…. “
Hvað græðir barn í Biafra á því að lítil stelpa á Íslandi klári matinn sinn?
Já, við lærðum þetta í bernsku.
Við þorum ekki að vera glöð vegna þess að einhverjum öðrum líður illa, – eða hefur það ekki eins gott, hvað hjálpar það þeim?
Að vilja gera lífið betra og setja lóð á vogarskálar hamingjunnar, byrjar hjá okkur. Við erum dropar í þessum hamingjusjó og ef við ætlum að gera gagn og bæta sjóinn þá skulum við huga að okkar sjálfstrausti, okkar innra manni sem er verðmæt manneskja – hvað sem á dynur.
Verðmæti okkar rýrnar aldrei.
Sem fyrirmyndir þá skulum við hafa þetta í huga, börn þessa heims vilja sjá þig með gott sjálfstraust – elsku mamma, elsku pabbi, elsku afi, elsku amma, elsku frænka og elsku frændi.
Sjálfstraust er eitt það mikilvægasta sem fólk hefur í lífsgöngunni, trú á sjálfu sér, því með gott og heilbrigt sjálfstraust getur þú gengið án þess að láta kasta þér fram og til baka, án þess að láta einelti hafa áhrif á þig, eða minnka áhrif þess. Án þess að gleypa agn veiðimannsins sem vill veiða þig á beitu og láta þig engjast á önglinum.
Dæmi um slíkt er þegar einhver þarna úti pirrar þig og þú færð hann eða hana á heilann og þá ert það ekki þú sem ert við stjórnvölinn í þínu lífi lengur, heldur sá eða sú sem þú vilt síst að sé það.
Meðvitund er það sem þarf og það þarf sjálfskoðun, sjálfsþekkingu og sjálfsfrelsun.
Frelsun frá því að finnast það sem öðrum finnst.
Þegar þú veist hvað ÞÉR finnst, já þér og engum öðrum, um sjálfa/n þig, þegar þú ert farin/n að samþykkja þig og þínar skoðanir, standa með sjálfri/sjálfum þér þá ertu farinn að uppgötva sjálfstraustið þitt.
Geneen Roth segir frá því sem Súfistarnir kalla „Ferðalagið frá Guði“ ..
„Í Ferðalaginu frá Guði trúir þú því að þú sért það sem þú gerir, það sem þú vigtar, áorkar, svo þú eyðir tíma þínum í að reyna að skreyta þig með ytri mælikvarða um gildi þitt.
Vegna þess að jafnvel grannt og frægt fólk verður óhjákvæmilega gamalt, fær appelsínuhúð og deyr – er ferðalag frá Guði 100% líklegt til að valda vonbrigðum.“
Þegar ég tala um Guð, þá finnst mér einfaldast að setja upp guðsmyndina sem kemur fram í eftirfarandi ljóðlínum:
Trúðu á tvennt í heimi.
Tign sem æðsta ber.
Guð í alheims geimi.
Guð í sjálfum þér.
(Steingrímur Thorsteinsson, ath! Guð i alheims geimi og Guð í sjálfum þér er bara eitt og hið sama).
Og meira um að vera elskuð ..
Elskan er í raun grunnur sjálfstrausts, en ekki það sem mölur og ryð geta grandað, titlar, útlit o.s.frv., allt annað – það sem kemur að utan, hversu fræg við erum og slíkt, er ekki trygging fyrir sjálfstrausti, því það er eitthvað sem eyðist og hverfur.
„You are loved“
– og það hittir í mark, enda getur elskan ekki geigað nema að sá sem hún er ætluð forði sér eða skýli hjarta sínu.
Við þurfum nefnilega öll að vita að við séum elskuð, og ekki bara vita, heldur trúa því.
Þú ert elskaður
Þú ert elskuð
Það sem er þó mikilvægast að trúa er að við séum okkar eigin elsku verð.
Kærleiksboðorðið virkar í báðar áttir;
Elskaðu aðra eins og þú elskar þig – Elskaðu þig eins og þú elskar aðra
Sýndu sjálfri/sjálfum þér virðingu.
Við göngum oft býsna nærri okkur sjálfum, sýnum okkur ekki þá tillitssemi sem við oft á tíðum sýnum öðrum. Bjóðum okkur upp á hluti sem við myndum ekki bjóða neinum öðrum. Erum næstum dónaleg við okkur sjálf.
Í leit okkar að elsku og viðurkenningu förum við stundum yfir mörk þess boðlega fyrir okkur sjálf.
Við erum alltaf að lenda í þessu, að yfir okkur sé gengið að einhver tali niður til okkar, að okkur sé sýnd óvirðing. Þá fer það eftir viðhorfi okkar til sjálfra okkar hvernig við tökum því. Hvort við kokgelypum eins og fiskur sem gleypir agn, eða hvort við sendum það til föðurhúsanna, annað hvort í huganum eða við tölum upphátt, eða stígum út úr aðstæðum á annan hátt.
Ef við elskum okkur ekki nógu mikið eða gerum okkur grein fyrir verðmæti okkar þá látum við það líðast að aðrir nái að fara undir skinnið okkar og stjórna, við gefum út leyfisbréf og látum þetta jafnvel brjóta okkur niður.
En þegar við gerum okkur grein fyrir að elskan er fyrir hendi, hún hefur alltaf verið fyrir hendi – hún er hluti af þér og kemur frá hjarta þínu, þá getur þú farið að slaka á, þú átt allt gott skilið.
„You are loved – Love is you“ …
„Love’s like the water when the well runs dry
Quench my thirst, keep me alive
Just need one sip, baby, love is you
Love is you, love is you, love is you, love is you“
Getraun: Þessi mynd er tilvitnun í ákveðinn sálm í Biblíunni …. 😉