Get ég verið blönk og hamingjusöm? –
Það eru býsna margir orðnir aðþrengdir og aðkrepptir vegna þess að tekjur og/eða bætur hrökkva ekki fyrir mánaðarlegum útgjöldum. –
Ég er ein af þeim sem hefur verið í þeirri stöðu, – og jú stundum upplifað örvæntingu og kvíða af þeim sökum. – Ég kalla það „afkomukvíða“ ..
Líf mitt hefur breyst stórkostlega, frá því að þurfa næstum ekkert að velta fyrir mér peningum og meira að segja geta gaukað að vinum og ættingjum einhverri upphæð hafi þeir verið í vanda, í það að tja.. skrimta …og vera sú sem er að þiggja frá vinum og ættingjum.-
Uppeldi mitt og okkar margra hefur verið í þá áttina að skulda aldrei neinum neitt, og sérstaklega ekki peninga. Svo það er býsna stór biti t.d. að fá hótun um að fara á vanskilaskrá, að nafnið manns fari á einhvern „svartan lista“ …. fá neitun í bankanum um yfirdrátt, geta ekki greitt kreditkortaskuldina o.s.frv…
Hlutir sem áður voru sjálfsagðir, eins og að versla sér skó, fara á árshátíðir, jólahlaðborð, kaupa vel inn fyrir helgi án þess að hugsa um upphæðina, fara á kaffihús og drekka flösku af rauðvíni eru varla inni í myndinni hjá mér í dag.. eða kannski þá bara alveg „spari.“
Húsaleigan hefur forgang, því ég þarf þak yfir höfuðið og rekstrarreikningar, ég þarf líka að kaupa bensín á bílinn en keyri hann sparlega, en maturinn er aftast á lista og nú er borðað allt pastað, grjónin og fleira sem hefur safnast upp í skápunum. Ég hendi ekki mat eins og áður, en nýti hann miklu, miklu betur. Reikna saman í huganum það sem ég kaupi í Krónunni og Bónus. –
En það eru ýmsir góðir hlutir sem koma í staðinn og ég hugsa, „hvað er ég að læra af þessu?“ – „Hvað er verið að kenna mér“?
Hófsemi, sníða mér stakk eftir vexti, hætta að lifa í kredit og vera meðvitaðri um hverja krónu sem ég eyði. –
Ég geri lista yfir það sem er „ókeypis“ í lífinu, samveruna með vinum, gönguferðirnar, að leika mér með barnabörnunum. Fyrirlestrar í Háskólanum, sæki andlega næringu í fyrirlestra á netinu, bækur o.fl.
En það sem skiptir mestu máli er að vita og trúa því að verðgildi okkar sem manneskju er alltaf hið sama og launaseðillinn okkar eða bætur segir ekkert til um það. – Ef að við ættum að meta verðgildi fólks eftir tekjum þess þá væru nú heldur betur margir „svindlarar“ verðmætustu manneskjurnar. –
Ríkir eru verðmætar manneskjur og fátækir eru verðmætar manneskjur, en það verðmæti kemur bankareikningi þeirra EKKERT við. –
Já, ég er heppin að hafa lært það að ég get og má vera hamingjusöm akkúrat núna – hvað sem á gengur! – Frekar „fyndið“ – og þegar ég segi stundum við mig „ég er hamingjusöm“ eða endurtek „mig vantar ekkert“ þá hlæ ég inní mér og það er bara gott. –
Ég er samt bara manneskja og fæ við og við nokkurs konar „afkomukvíða“ – en spyr mig samt hvað sé það versta sem getur gerst? – Er þetta ekki bara spurning um stolt?
Voru ekki mestu spekingar heimsins eins og Eckhart Tolle húsnæðislausir á tímabili, – og maðurinn sem heyrði í Guði og átti samræður við hann? – Neale Donald Walsch, hann lifði í tjaldi í almenningsgarði, komst alveg á botninn, en af botninum er besta spyrnan og „úr djúpi reis dagur.“ –
Þessir menn sem ég vitna í hér á undan eru orðnir múltimilljónerar á fyrirlestrum og bókaútgáfu. Þeir hafa reynslu og hafa upplifað „frelsið“ við að vera algjörlega eignalausir, – já þetta hljómar kannski mótsagnakennt, en stundum eru eignir og skuldir af þeim bara eins og hlekkir. –
Við erum eflaust mörg sem þurfum að koma út úr skápnum með áhyggjur okkar, láta þær ekki skyggja á lífsljósið okkar. –
Það verður aldrei nógu oft ítrekað að verðmæti okkar er ekki tekjur okkar, húsið okkar eða bíllinn. Sjálfstraustið á ekki að byggjast á því – það er það sem kallað er „other“ esteem, traust sem byggist á hinu ytra. – Það styður vissulega hið innra, en eftir því sem við leyfum hinu innra að stækka meira og vera meira ráðandi og meta okkur minna eftir hinu ytra.
– Við erum ÖLL stórkostlegar manneskjur! –
Við eigum öll ljósið innra með okkur, lífsneistann – það er okkar að glæða hann og laða að okkur hið góða. – En hlustum á spekingana spjalla og íhugum hið raunverulega verðmæti. – Spekingana sem báðir áttu ekkert veraldlegt, en þess meira andlegt. Við sem búum á Íslandi erum lánsöm, við eigum fríska loftið og við eigum góða vatnið, bæði kalda og heita. Land sem er laust við stríðsátök o.fl.o.fl. Hversu margir ætli það séu þarna úti í heimi sem myndu óska sér og upplifa sig ríka bara af þessum gæðum?
– Bara að lifa í friði? –
Það er gott að nota það sem við eigum nú þegar, þakka það sem við eigum og erum og setja fókusinn á það. – Sætta okkur við okkur. Samþykkja okkur, elska og virða – því við erum virðingar verð. –
Guð gefi mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég get ekki breytt
Kjark til að breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli
Mikið ofboðslega er þetta innihaldsríkur og góður pistill hjá þér elsku Jóhanna mín…svo algerlega í takt við það sem ég er að hugsa um og upplifa þessa dagana..hvernig við lærum að meta hvað skiptir máli í gegnum hinar mismunandi reynslur. Og fólk sem hefur til að bera kjarkinn til að skína í öllum aðstæðum og gefur öðrum hlutdeild í sjálfu sér er dýrmætast af öllu. Þú ert svo sannarlega ljósberi:)
Þakka þér fyrir mín kæra Katrín! 😉 ..
Ég segi bara eitt stórt TAKK! 🙂
Takk fyrir að lesa Ásdís mín 😉
Bakvísun: Hvað vilja börnin? – | johannamagnusdottir
Þessi grein kom á háréttum tíma til mín 🙂