Hvað vilja börnin? –

Eftir að ég skrifaði pistilinn um að við værum ekki skuldir okkar, þ.e.a.s. að við gætum verið hamingjusöm blönk,  áttaði ég mig á því að í þeim pistli var ekki minnst á  börn.  Við erum svo sannarlega búin að gefa börnunum þau skilaboð að þau geti varla verið hamingjusöm nema að eiga x magn af því sama og hinir eiga, eða klæðast fötum eins og hinir. –  Þetta er þó bara samfélagslega mótunin,  EN ekki lögmál. –

Höfum við í raun spurt börnin hvað þau vilja? – Er það aðalmálið að eignast sem mest dót, eða hvað þurfa þau í raun og veru?

Ég á nokkrar reynslusögur í mínum fórum, sem hafa kennt mér að börnin eru ekki alltaf ánægðust yfir því sem er keypt handa þeim, heldur einmitt yfir tímanum sem við verjum með þeim.

Foreldrar eru langtímum saman að þræla sér út fyrir að kaupa …..hvað? –

Er eitthvað þarna sem má skera niður?

Það er auðvitað erfiðast að hugsa til fjölskyldna með börn – sem kannski geta ekki veitt þeim það sem þau eru vön, en öll þurfum við að íhuga gildi og virði lífsins.

Ég var Au Pair þegar ég var 17 ára og fór stundum með börnin út í skóg í „picnic“ eins og ég kallaði það. Elsta barnið, 5 ára, kallaði það pinkink. Í þessu pinkink setti ég vatn á flöskur og tók kannski með matarkexpakka.

Einn sunnudaginn fór síðan  öll stórfjölskyldan í dýrindis skemmtigarð, en það tók langan tíma að keyra þangð með tilheyrandi óþolinmæði í bílnum.  Við komumst í garðinn þar sem börnin fengu allt sem hugurinn girntist – og voru þau búin að úða í sig nammi og fara í mörg leiktæki.  Um miðjan dag leit ég á þann 5 ára þar sem hann sat með skeifu og stóran ís sem lak niður eftir hendinni á honum. Ég spurði hann hvað væri að – þá sagði hann “ „þetta er ekkert gaman – það er miklu skemmtilegra i pinkink“ ..

Hamagangurinn, ofgnóttin og lætin í garðinum hentuðu þessum litla strák ekki eins vel og róin útí skógi, þar sem hann fékk að heyra sögur og drekka vatn af stút og snæða matarkex. 😉

——-

Við bjuggum í Garðabæ þegar að börnin voru lítil,  það var á þeim tíma að oft varð rafmagnslaust og þegar að rafmagnið fór, fór hitinn hjá okkur líka því það var kynt með loftblæstri. –

Þegar rafmagnið fór, þjöppuðum við okkur saman fjölskyldan, kveiktum kertaljós og töluðum saman, sungum eða spiluðum. –  Það færðist einhver ró yfir heimilið, þegar að slökkt var á öllum raftækjum og ljósið takmarkað. –

Það var síðan einn daginn, þar sem ég stóð með ryksuguna á fullu í eldhúsinu – að elsta dóttir mín (þá um 12 ára gömul) kom heim úr skólanum og stundi upp „Oh, ég vildi að það væri rafmagnslaust!“ –

Ég horfði spyrjandi á hana en hún svaraði að bragði: „Þá erum við svo mikið saman, og syngjum og svoleiðis“ .. 😉

Ég gleymi aldrei þessari sögu, – ég hef líka orðið vör við það að t.d. biðja börnin oft um að við horfum á sjónvarpið með þeim og skýrum út og þeim finnst það skemmtilegra heldur en að vera ein. –

Ömmur og afar hafa oft áhyggjur af því að geta ekki gefið börnum dýrar jóla-eða afmælisgjafir.   Besta gjöfin er oft (og ekki síður fyrir foreldrana)  að gefa börnunum tíma með ömmu og afa (nú eða frænku eða frænda) og fara með þau á róló, lesa fyrir þau eða bara hvað sem er. –  Tími og samvera er það verðmætasta fyrir börnin. –

Svo ég held að það sé hálfgert sjálfskaparvíti ef við erum búin að koma börnunum upp á það og venja þau við að hamingja þeirra felist í merkjaklæðnaði, dóti eða hversu oft þau hafi farið til útlanda. Þarna erum við að ala upp fólk sem hengir hamingjuna sína á hið ytra. –

Öll þurfum við það sama og börnin, tíma og samveru.  Við erum svolítið týnd í þessum gnægtarheimi,  heimi sem stuðlar að aðgreiningu í stað meiri samveru.

Við getum í raun séð dótið okkar (og allt sem er í geymslunum) sem vegg á milli okkar og annars fólks og jafnvel barnanna okkar.  Var dótið sem nú er komið í geymslu þess virði að fórna svona miklum tíma í vinnu? – Ég veit ekki hversu marga krakka ég hef talað við sem þrá bara mest meiri samveru,  sérstaklega við feður sína. –

Að fara með pabba í sund eða út að leika á snjóþotu en þyngdar sinnar virði í gulli. –  Nú eða mömmu – eða báðum saman.-

Við þurfum að geta fætt og klætt börnin, en íhugum hvort að þau þurfi raunverulega allt þetta dót sem skapar reyndar oft mikið kaos í þeirra lífi,  bæði andlegt og raunverulegt og herbergin eru á kafi í rusli /dóti og fötin í stöflum. –

Við getum alveg heimfært þetta upp á okkur fullorðin og ég á mig, við konur verðum að hætta að segjast ekki hafa neitt til að fara í – þegar fataskápurinn er í raun fullur! ..

Íhugum hverjar er alvöru og hverjar er gerfiþarfir.

Í lokin, orðið sem er lykilorð í mennskunni er orðið ATHYGLI –

Börnin þurfa athygli – fullorðnir þurfa athygli – og við þurfum að veita sjálfum okkur athygli og því sem við erum að gera, lifa meðvituð og lifandi en ekki fljóta meðvitundarlaus með straumnum. –

Það tekur á að breyta, en það er ekki hægt að breyta nema við veitum athygli því sem við erum að gera núna. –

Vöknum því – fyrir börnin og fyrir okkur sjálf.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s