„Ég óska þess heitast að sjá mömmu mína oftar glaða“ ..

Endurbirtur pistill, en ég skrifaði þennan 4. mars 2012. 

Ég horfði á þáttinn um Sundhöllina nýlega þar sem fylgst var með fullorðnum manni,  Kjartani. – Myndin var hæg en fangaði hugann og sýndi lífið eins og það var.  Fólk með stóra og litla drauma. Venjulegt og óvenjulegt fólk. – Ég tengist sundhöllinni reyndar tilfinningaböndum, þar sem mamma starfaði þar þegar ég var lítil stelpa og á sjálf margar nostalgískar minningar þaðan. –  Í viðtalinu við Kjartan kom fram að hann hafði misst einkason sinn,  Jón Finn Kjartansson,  en þar var um að ræða ljúfan dreng sem hafði farið á undan,  farið á undan í blóma lífsins. –  Mynd þessa drengs hefur fylgt mér.

Ég fann um hann minningargreinar, og í einni þeirra, sem systir hans skrifar er þetta fallega ljóð:

Þú hvarfst á braut með fangið fullt af blómum

að fagna jörð, er virtist björt að sjá,

en gættir ei að myrkum manna dómum,

er meiða saklaus bros á ungri brá.

Því var það svo, að veröldin þig grætti,

þó víst þú kysir bros í tára stað.

En hugur þinn, er ávallt góðs eins gætti,

gat ei komið brosum sínum að.

(Rúnar Hafdal Halldórsson, „Sólris“.)

Við þekkjum flest einhvern sem hefur valið að fara á undan.

Ég kalla það að fara á undan, þegar við styttum þessa lífsvist. – Ég þekki fólk, og hugsa til þessa fólks, og jú ég tárast. –  Yfirleitt eru þetta svo fallegar sálir, „viðkvæm blóm“ – sem þrífast illa í okkar vitskertu veröld. –  Veröldin er nefnilega þeirrar gerðar að hún ýtir okkur fram og til baka og út úr jafnvæginu okkar. –  Stundum svo langt út fyrir að við erum komin yfir hættumörkin,  alveg langt, langt. –

Það er vont, og í raun óbærilegt fyrir aðstandendur og vini sem sitja eftir og við megum ekki ásaka neinn.  Hvorki okkur sjálf né ferðalanginn. –  Það særir hann og það særir okkur.   Það fór sem fór, – við snúum ekki við tímanum en við lærum af þessu eins og öðru. Skóli lífsins er vissulega strembnari en nokkur skóli. –

Hjálp og takk, eru orð sem Paulo Coehlo rithöfundur segir að séu þau tvö orð sem við þurfum að kunna til að týnast aldrei. –

Ég held að það láti mjög nærri lagi. – Þegar við yrðum ekki líðan okkar nógu skýrt –  þá er ekki víst að einhver viti hvernig okkur líður eða finni okkur.  Að biðja um hjálp er t.d. að láta vita um aðstæður sínar, – við þekkjum það að sumir geta ekki beðið um hjálp, heldur henda sér frekar á brún hengiflugsins og vonast til að einhver sjái. –  Vonast til að einhver viti án þess að segja „hjálp.“  En við erum ekki ofurmannleg og eigum ekki að gera ofurmannlegar kröfur á okkur né aðra.

Við höfum flest verið á þessum stað, – það er að segja að þrá að vera séð og fá athygli. –

Það er vonleysið sem rekur fólk alla leið fram af bjargbrúninni. Þegar sýnin hverfur sjónum eða þegar skömmin fær valdið. –

Það er mikilvægt að muna það að veröldin sem er skökk, en ekki við.

Það er gott að vita það að þau sem farin eru vilja ekki að við þjáumst þeirra vegna, það er það síðasta sem þau vilja.  Þau vilja að við séum hamingjusöm og höldum áfram á okkar ferðalagi, og þau vilja láta vita að þau eru komin í nýtt ferðalag og við þurfum ekki að hafa áhyggjur af þeim.  Þau elska okkur,  þykir vænt um okkur og biðja okkur um að fyrirgefa sér og sleppa. –

Við hittumst fyrir hinum megin, við þurfum bara að vera þolinmóð og lifa í því trausti. –  Njóta lífsins okkar og samferðafólksins sem við höfum núna, því það gæti verið farið einn daginn og þá værum við farin að sakna þeirra sem við höfum núna. –

Horfum ekki langt yfir skammt, horfum heim til okkar,  við munum öll sameinast aftur og aftur, við lifum öll í hvoru örðu og með hvoru öðru. –   Lítil börn fæðast og eru með persónuleika þeirra sem farin eru, það er ekkert skrítið 😉 ..

Ég held það sé ekki mikill munur á þeim sem velja sér að fara og þeim sem velja sér ekki að fara. –  Oft höfum við lifað þannig að óhjákvæmilega endar það með því að við flýtum fyrir okkar dauða. –

Við reykjum þó að á sígarettupakkanum standi „Tóbak drepur“ –

Við borðum óhollt og of mikið þó að við séum komin í lífsættulega yfirvigt ..

Við lifum á alls konar krabbameinsvaldandi fæði og förum með batteríin okkar og varaorkuna líka, þó að við vitum að stress stytti lífi okkar. –

Teljum það jafnvel til dyggða að gera hálf út af við okkur i vinnu. –

Ég er ekki að benda, ég er ein af „okkur“  –  Ég hef verið í svona sjálfseyðandi aðstæðum oftar en ekki. –  Farið langt yfir andlegt og líkamlegt þanþol. – Brunnið út í vinnunni vegna þess að ég var svo „ómissandi“ – og þegar ég var greind með sortuæxli og þurfti að vera frá í stuttan tíma,  spurði ég lækninn fyrst af öllu hvort ég þyrfti að vera mikið frá vinnu.

Það var hann sem sagði þá: „Þú veist að í kirkjugörðum heimsins hvílir ómissandi fólk“ …Þessi sami læknir sagði reyndar: „Kvíðinn og áhyggjurnar geta gert þig veikari en krabbameinið“

– Hann vissi hvað hann var að segja. –

Dæmum ekki þá sem taka eigið líf, við erum öll í sama pakkanum.  Jafnvel þó að við séum að hugsa vel um okkur, lifa eins heilbrigt og okkur sé mögulegt, dæmum ekki. –

Virðum hvert annað, látum þau sem eru í kringum okkur vita að við erum með opinn faðminn,  að við séum tilbúin í að hlusta. – Stundum er það nóg, en stundum er ekkert sem við ráðum við og þá er það ekki lengur í okkar mætti, ekki frekar en að ætla okkur að stöðva vindinn þegar hann blæs. –

Við verðum að lifa í sátt við vindinn, og reifa seglin eða þenja (eða hvað sem þetta er kallað á sjóaramáli)  eftir því sem vindur blæs og hvert við stefnum. – En vindinum getum við aldrei breytt.  Við verðum bara lúin ef við ætlum að halda áfram að rembast við það. –

Sættumst við það sem er,  eftirsjá og gremja er barátta við vindinn. – Virðum það sem er og gerum það að okkar stað til að halda áfram en ekki til að fara til baka. – Leiðin er fram á við. –

Þessi færsla er innblásin af  fólki sem mér var kært, og af fólki sem ég veit að ykkur var og er kært. –  Sum voru komin hálfa leið á bjargbrúnina og sum fóru alla leið.

Sendum þeim öllum hlýju, kærleika og ljós, en ekki halda aftur af þeim með söknuði okkar. –

Ég minnist þess úr samtali við ungling sem átti erfitt og foreldrarnir höfðu áhyggjur af honum,  en hann sagði:

„Ég óska þess heitast að sjá mömmu mína oftar glaða“

„Þú hvarfst á braut með fangið fullt af blómum

að fagna jörð, er virtist björt að sjá,

en gættir ei að myrkum manna dómum,

er meiða saklaus bros á ungri brá.“

„En hugur þinn, er ávallt góðs eins gætti,

gat ei komið brosum sínum að.“

Hleypum brosum þeirra að NÚNA.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s