Tómarúmið er fullt af ást, gleði og friði ..

Ég er búin að eiga bókina „Mátturinn í núinu“ í mörg ár.  Reyndar á ég hana í ensku útgáfunni „The Power of Now.“

Fyrst þegar ég las hana skildi ég smá, en samt mmmm… ekki nóg.

Í eirðarleysi mínu í gærkvöldi, dustaði ég rykið af henni og tók með mér upp í (tóma) rúmið og  þurfti ekki að lesa lengi til að skilja að allt það sem ég er að vinna við liggur í þessari bók, og því skildi ég hana mjög vel. –

En hún opnaði enn meira fyrir mér, þetta er bók sem ekki á að lesa bara einu sinni. –   Alla veganna ekki ég. –

Ég upplifði í raun það sem Eckhart Tolle var að segja.  Upplifði fjársjóðinn innra með mér. –   Fann fyrir friðnum, ástinni og gleðinni í núinu. –

Og það hoppar þarna og skoppar enn eins og lítil stelpa í gulum sumarkjól.

Tóma-rúmið sem mér hefur verið tíðrætt um.  Tóma stundin sem við reynum oft að fylla,  tómu tilfinningapokarnir eru ekki tómir. –

Tóma rúmið er fullt af friði, ást og gleði. –

Ég gat ekki séð það, og kannski þú ekki heldur,  vegna þess að hugsanir yfirskyggja það og trufla. –

Friður, ást og gleði er dýpra en tilfinningar.  Tilfinningar geta truflað, Eckhart Tolle segir þær vera truflun, – disturbance. –

Friður, ást og gleði er til staðar,  en það þarf að sjá þessa þrenningu, veita henni athygli. –  Ekki þrengja svo að henni með hugsunum að hún verði pinku pinku lítil. –

Í upphafi bókarinnar segir Tolle söguna af betlaranum við þjóðveginn, sem sat á kassa og betlaði peninga til að lifa. –

Maður nokkur gengur þar hjá og spyr betlarann hvað sé í kassanum. Betlarinn segist ekki vita það,  en maðurinn bendir honum á að kíkja. Til allrar furðu sér betlarinn að kassinn er fullur af gulli. –

Það er dásamleg tilfinning að fara að sjá gullið innra með sér, sjá og upplifa frið, ást og gleði innra með sér.  Að tómarúmið sé alls ekki tómt. –

„Gleðin er besta víman.“  og er grunnurinn að því að ná yfirhöndinni yfir annarri vímu, vímu sem kemur að utan.

Þegar ég finn þessa tilfinningu, einhvers konar „Enlightenment“ eða uppljómun,  þá langar mig svo að deila henni með fleirum og það er það sem ég þrái að kenna og gera að mínu ævistarfi, hvort sem það er innan kirkju eða bara í heimskirkjunni.

Ég veit þó að mín uppljómun verður aldrei annarra,  en kannski innblástur.  Það sem ég les hjá Eckhart Tolle, hef ég lesið og lært hjá mörgum öðrum, les það líka í Biblíunni, les það í náttúrunni,  úr ljóðum, úr samveru með fólki, börnum, gamalmennum og allt þar á milli.  þetta er allt sami grautur, misjafnlega borinn fram. –  Stundum hversdagslegur, stundum með möndlum, stundum með rjóma.  –  Enda skrifaði ég pistil á sínum tíma undir heitinu. „Lífið er hafragrautur“ –  og lagði áherslu á það að við nytum þess að borða hann, ilmsins, bragðsins o.s.frv. – og því má bæta við að borða (lifa) með og af ást, gleði og friði.

Verði okkur að góðu. –

 

Ein hugrenning um “Tómarúmið er fullt af ást, gleði og friði ..

  1. Bakvísun: Hugleiðslunámskeið, ást gleði og friður. | LAUSNIN, sjálfsræktarsamtök

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s