Af hverju meðvirkni? …

Orðið virkni eða að vera virkur er venjulega talið ágætt eitt og sér.  Það er auðvitað eitthvað til sem heitir of-virkur og van-virkur.   Öll þurfum við að vera virk, bara ekkert of eða van, það er meðalhófið sem er gulls ígildi. –

Ég ætla ekkert að ræða mikið meira hér um hvað meðvirkni er, – en það eru ýmsar skilgreiningar á henni og einkennum hennar sem má lesa á netinu. –

En af hverju verður til meðvirkni? –

Ég segi að grunnrót meðvirkni sé ótti.   Ótti við að missa.  Óttinn við að vera hafnað. Ótti við að vera ekki elskuð,  ótti við að tilheyra ekki ákveðnu mengi eða einhverri einingu,  hvort sem er um tvo aðila eða fleiri.

Við erum oft tilbúin að ganga mjög langt í þeim tilgangi að halda í þau sem við viljum vera með og umgangast. –
Við höfum þörf fyrir viðurkenningu, virðingu,  samþykki og athygli annarra.

Eftir því meira sem við viðurkennum okkur sjálf,  virðum, samþykkjum og veitum sjálfum okkur athygli,  minnkar þörfin fyrir að þetta komi að utan í samræmi við það. –

Þessi sjálfsvirðing hefur ekkert með „hið ytra“ að gera.  Hún þarf að koma að innan.  Ef þú ert forstjóri og missir vinnuna og verður atvinnulaus á það ekki að hagga innra verðmætamati. –  Sama hvað við störfum, hver efnahagur okkar er o.s.frv.  verðmæti okkar sem mannvera sem erum sköpuð hér á jörðu á ekki að minnka við það. –  Þetta eru ekki endilega skilaboðin sem fjöldinn allur sendir okkur eða hvað? –

Í glugganum í eldhúsinu hjá mér er planta,  hún var skrælnuð – það hafði gleymst að vökva hana.  Ég klippti hana niður og vökvaði og talaði fallega til hennar.  Já, talaði til hennar, og fékk reyndar líka hjálp frá ungri stúlku við það og við fengum að sjá fljótlega að plantan tók við sér og heldur betur,  því að hún fór að blómstra.

Plantan hefur ekki þetta viðnám sem við fólkið höfum.   Hún er bara planta og byrjar ekki með mótbárur sé talað fallega til hennar.  Hún segir ekki:

„Uss, ég á þetta nú ekkert skilið,  ég er bara ómerkileg planta,  af hverju ætti ég að blómstra?“ .. o.s.frv.? .. 

Plantan fær vatn, ummönnun, athygli og nýtur þess. –

Ég trúi því að okkar gamla forrit sé þannig gert að þegar við fáum hrós, eða talað er fallega til okkar, eigum við oft erfitt með að „kaupa það“

–  „Já, já, ég er dugleg/ur – „not“ ..   þessi veit nú ekki hvað ég get stundum verið ómöguleg/ur!!.. – ég á þetta ekkert skilið!“ .. 

Ef plantan hefði þessa „rödd“  inní sér þá efast ég um að hún myndi blómstra.

En hvernig tengist nú meðvirknin inn í þetta allt saman? –  Einhver innri rödd sem telur okkur e.t.v. trú um að við eigum ekki allt gott skilið?

Getur verið að í undirmeðvitundinn dvelji hugmyndafræði sem hindri framgang okkar í lífinu? –  Hvar skyldi þessi hugmyndafræði hafa fæðst?

Vitum við hvað við ættum að gera en virðumst ekki geta gert það?  Upplifum við sama mynstrið ár eftir ár?

„Like everyone else you were born into bondage. Into a prison
      that you cannot taste or see or touch. A prison for your mind.“
Morpheus – „The Matrix“

Sem mannverur erum við fædd allsnakin og varnarlaus,  og við erum forrituð til að læra að komast af.  Það eru góðu fréttirnar!

Vondu fréttirnar eru að við erum líka forrituð, á fyrstu árunum,  til að efast ekki um það sem við lærum af fullorðna fólkinu í kringum okkur.  Við förum ekki að efast eða draga í vafa réttmæti þess sem okkur er kennt fyrr en u.þ.b. sex ára gömul í fyrsta lagi.   (Wes Hopper)

Það þýðir að margt af því sem við lærum er bara alls ekkert endilega það besta fyrir okkur og kannski algjört rugl.  Ekki aðeins vegna þess að foreldrar, kennarar eða aðrir höfðu rangt fyrir sér,  þó oft hafi það verið, heldur vegna þess að hin reynslulitlu við, mistúlkuðum í sumum tilfellum það sem við sáum og heyrðum.

(Dæmi:  börn sem taka á sig ábyrgðina á skilnaði foreldra)

Börn fara að hegða sér eðlilega miðað við óeðlilegar aðstæður,  þau fara að vilja gera allt gott, allir eiga að vera „vinir“ – og taka ábyrgð á ýmsan máta.  Láta lítið fyrir sér fara, leika trúð, fá neikvæða athygli o.s.frv.

Alla veganna er það þannig að lengi býr að fyrstu gerð og þarna á fyrstu árunum myndum við grunninn fyrir hygmyndafræði okkar,  um okkur sjálf og hver við erum.  Við lærum þarna hvernig við eigum að sjá okkur sjálf og heiminn í kringum okkur.   Þarna er í sumum tilfellum skapað þetta fangelsi hugans sem talað er um í tilvitnunni.  „A prison for your mind“   – Einar Már rithöfundur skrifaði einmitt bókina „Rimlar hugans“ – sem er sama táknið að sjálfsögðu.

Sjálfsmyndin er fyrst sköpuð þarna, á fyrstu árunum.  Viðhorf okkar,  sýn á heiminn og annað fólk.  Viðhorf okkar til okkar sjálfra.  Hvort sem þetta viðhorf er sanngjarnt eða ekki er það forritað þarna.  Þetta viðhorf setur okkur í ákveðinn farveg sem getur verið erfitt að komast upp úr.

Það er þó ekki ómögulegt.  Fyrsta skrefið væri að átta sig á því að eitthvað er bara alls ekki rétt,  það er bara lygi hreint út sagt.  Það er t.d. lygi að við séum ekki verðmæt og eigum ekki allt gott skilið.  Margir ljúga því að sér daglega.

Við þurfum að skilja að við berum ábyrgð á eigin hamingju og það er ábyrgð hverrar fullorðinnar manneskju að viðhalda henni.

Við þurfum að saga rimlana – fara út úr fangelsi hugans.

Hver eru hin algengu viðhorf  í þinni fjölskyldu? –  Um fólk, um peninga, varðandi vinnu og hvað „fólk í fjölskyldunni þinni gerir“ ..og gerir ekki? –  Það er möguleiki að margt af því sé bara ekkert satt.

„Engin/n í okkar fjölskyldu hegðar sér svona“ .. gæti ættmóðirin sagt eftir að einhver hefur gert eitthvað sem henni líkar ekki. –

Ekki láta annað fólk skrifa þína lífssögu eða gera kvikmynd lífs þíns.  Spyrðu þig út í hugmyndafræði þína, og út í trú þína,  er þetta satt fyrir þér eða er þetta bara satt af því einhver sagði þér það einu sinni, fyrir langa löngu?“ .

Skrifaðu handritið að þínu lífi, eins og þú vilt hafa það!

Hvað gæti gerst? –  Einhver væri ósáttur við að þú gerðir eitthvað nýtt, eða fylgdir hjarta þínu, og hvað þýddi það? –  Að viðkomandi – kannski maki,  vildi þig ekki lengur? –  Elskar hann þig þá raunverulega?    Hvað með foreldra?   Hvað ef að unglingurinn kemur út úr skápnum og neitar að hafa e.t.v. fordómafullar skoðanir gagnvart samkynhneigð,  hann veit að þau viðhorf sem honum voru kennd ganga ekki upp? –  Missir hann tengsl við foreldra sína.  Já, það gæti verið – stundum er það þannig.

Það er því ótti við að vera ekki elskaður,  ótti við höfnun,  ótti við að missa tengingu sem stýrir því að ekki er hægt að vera maður sjálfur.   Þetta dæmi um samkynhneigð er gott,  en það er í raun dæmi fyrir svo margt. –  Margir óttast að velja námsbrautir sem þá langar að velja,  vegna þess að þá eru foreldrar ekki sáttir. –  Sumir velja sér maka frekar eftir „tékklista“ fjölskyldunnar heldur en að láta tilfinningar fyrir aðilanum ráða. –   Auðvitað er það byggt á ótta.

Stundum þora foreldrar ekki að segja NEI við börnin sín, – stundum er það reyndar vegna þess að foreldrarnir eru þreyttir og/eða hafa gefist upp og eru að kaupa sér frið,  en í öðrum tilfellum er það þannig að þeir óttast að ef þeir segi nei hefni barnið sín með einum eða öðrum hætti.   Þetta gæti t.d. átt við í tilfellum þar sem um er að ræða skilnaðarbörn,  ef að pabbi segir Nei – það má ekki, þá vil ég bara vera  hjá mömmu eða öfugt.   Þarna er líka um ákveðna stjórnun að ræða af barnsins hálfu,  án þess að fara nánar út i það í þessum pistli.

Það þurfa allir að finna eigin innri rödd, stunda sjálfstyrkingu en ekki sjálfskyrkingu eða sjálfspíslarhætti, – ekki láta stjórnast af því sem var forritað einu sinni og ekki viðhalda því sjálf. –  Það eiga allir elsku skilið.

Ekki stjórnast af ótta heldur KÆRLEIKA.

Leyfum okkur að elska án skilyrða – líka okkur sjálf.  Setjum ekki hindranir fyrir andardrátt lífsins,  ekki búa til stíflur í árfarvegi hugsunarinnar.

Ekki setja upp ósýnilega rimla – eða fangelsisveggi – komum út og finnum það sem fylgir frelsinu að vera við sjálf. –

Leyfum okkur að anda,  flæða – lifa og VERA.


 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s