Jólahugvekja í október

Við erum skepnur vanans, á því er enginn vafi.

Við mætum á námskeið – veljum okkur sæti og svo mætum við aftur á námskeið og setjumst (yfirleitt flest) í sama sæti.  Það veitir okkur einhvers konar öryggiskennd.   Þetta sæti var ágætt síðast og þess vegna förum við í sama sæti.  Það sama gildir um plássið í íþróttasalnum.

Sumir standa sem næst speglinum og aðrir aftast til vinstri.  Ef einhver nýr mætir á svæðið og hefur slysast til að taka plássið,  eða jafnvel einhver tekur plássið vitandi það að það er plássið ÞITT,  verður þú e.t.v. pirraður, reiður eða æstur.

Þetta er auðvitað allt eitthvað sálfræðilegt.

Núna sé ég að fólk er byrjað að ergja sig á öðru.  Það pirrar sig á því að of snemma sé farið að tala um jólin,  allt of mikið af auglýsingum byrjaðar o.s.frv. –  Ég hef gaman af þessu, þó ekki sé langt síðan að ég var mjööög íhaldssöm hvað jólin varðaði.

Ég lít á þetta – alveg eins og hvern annan storm.  Ég get ráðið hvernig jólin hreyfa við mér,  eða réttara sagt hvernig umtalið, auglýsingarnar, lögin o.s.frv.  hreyfir við mér,  og einnig spyr ég mig; „Hvað skiptir máli?“ –

Ég var einu sinni með jólahugvekju hjá VÍS þar sem ég breytti slagorðinu; „Tryggingar snúast um fólk“   í  „Jólin snúast um fólk“

Við getum valið okkar jól.  Stundum er það slæmt að hefðirnar og siðirnir sé farið að stjórna okkar lífi.  Það er slæmt vegna þess að það kemur fyrir að ekki gengur allt upp,  rjúpurnar eru uppseldar,  jólatrén uppseld eins og gerðist hér um árið,   nú eða þá að einhver nákominn hefur horfið úr lífi okkar og það virðist óbærileg tilhugsun að halda jól án viðkomandi.   Tilfinningarnar bera okkur ofurliði.

Ég hef ALLTAF verið með þessum.  ALLTAF borðað þetta.  ALLTAF gert svona o.s.frv.  og nú verður breyting.  Við erum búin að ákveða fyrirfram að breytingin verði sársaukafull,  og auðvitað er sárt að eiga fjölskylduhátíð þar sem skarð er hoggið í fjölskyldu.

Ég hef gengið í gegnum þetta allt,  saknað og grátið, langað til að taka svefntöflu fyrir jól og vakna ekki fyrr en eftir áramót.  Leiddist allt þetta sem átti að vera „svona“ og „hinsegin“ en gat ekki verið það lengur.

Umhverfið er farið að stjórna.

Við getum alltaf VALIÐ okkar jól, okkar aðventu, okkar nóvember, okkar október og hvernig við bregðumst við öðru fólki og þeirra tali um jólin.

Mín jól eru innan í mér.

Ég er afskaplega hamingjusöm að stóra stelpan mín ætlar að koma heim til Íslands um jólin með tvö af þremur barnabörnum,  en samveran með henni eru í raun jólin.   Ég get upplifað jólin með grislingunum hennar hvenær sem er.

Ég veit að einhverjir skilja þetta, og kannski skilja sumir ekki.  En þetta er mín einlæga tilfinning.

Ég þáði lífsins gjöf þegar ég fæddist.  Týndist svolítið,  en vaknaði aftur og áttaði mig á því HVAÐ skiptir máli.   Samvera skiptir mig máli.  Góð samvera.  Ég hef ekkert alltaf verið flink í henni og er allt of oft fjarlæg, eða „absent minded“ – og langar mig að laga það.

Ég hef líka gengið úr skaftinu vegna utanaðkomandi áhrifa, áhrifa fólks,  atburða, aðstæðna, orða ..  en nú er að praktisera æðruleysið.

Líka í aðdraganda jóla.
Lærum að njóta,  hvað sem aðrir eru að pæla.

ÁSKORUN TIL OKKAR

Fólk hungrar meira eftir ást og hlýju
en öllum mat sem fer á heimsins borð
og hjörtu manna þrá það nú að nýju
að næri hugann ljúf og fögur orð.

Við viljum losna undan allri byrði
og okkar sálir hljóta nú að sjá
að lítill koss er miklu meira virði
en milljón vopn sem hjörtu skaðað fá.

Á meðan sumir öðlast enga gleði
og allslaust fólk í þessum heimi kvelst
þá eigum við með sátt og glöðu geði
að gefa það sem hjörtun skortir helst.

Kristján Hreinsson

Ath!  Námskeiðið „Sátt og Ró fyrir jól“ .. verður í anda þessa texta,  nánari lesning ef smellt er HÉR.

2 hugrenningar um “Jólahugvekja í október

  1. Bakvísun: Sátt og Ró fyrir jólin | johannamagnusdottir

  2. Bakvísun: Sátt og ró fyrir jólin | LAUSNIN, sjálfsræktarsamtök

Færðu inn athugasemd