Í lífi og starfi hef ég tekið eftir því hvað skiptir okkur máli að finna sökudólga. Það er þessi leit að einhverjum sem hægt er að kenna um.
„Það er þessum að kenna, eða hinum að kenna.“
Það er spurning hvort að aðstæðurnar ráði yfir okkur eða við yfir aðstæðum.
Erum við aðeins fórnarlömb aðstæðna? – Tökum við ábyrgð á eigin lífi eða er líf okkar á ábyrgð annarra?
Það að ásaka aðra um hvernig komið er fyrir okkur er ákveðin flóttaleið frá ábyrgð. Það er auðveldara að benda á aðra í stað þess að líta í eigin barm. Ásökun er ekki uppbyggileg, það hjálpar hvorki okkur sjálfum né nokkrum öðrum – það vinnur engin/n í „The Blame Game“ eða ásökunarleiknum.
Af hverju ekki? –
Ef við lítum á okkur sem fórnarlömb aðstæðna eða ákveðins fólks, þá erum við búin að færa aðstæðum/fólkinu valdið yfir okkur.
Þetta virkar í báðar áttir, – þ.e.a.s. við getum ásakað en við getum líka litið á utanaðkomandi sem gerendur í okkar gleði. „Það er þessum aðstæðum/fólki að þakka að mér líður svona vel.
Eftir því sáttari sem við erum í eigin skinni, eftir því sem við erum æðrulausari þess minna látum við aðstæður eða fólk setja okkur út af laginu.
Ef ég er illa fyrirkölluð og einhver gagnrýnir mig, er mun líklegra að ég ásaki þann sem gagnrýnir mig um líðan mína og óánægju. En í raun er það ég sjálf sem þyrfti að skoða, hvað það sé í mínu lífi eða innra með mér sem gerir það að verkum að ég er viðkvæm fyrir gagnrýninni.
Það er auðvelt að sjá þessa hegðun hjá börnum, „hann sagði að ég væri leiðinleg“ .. og þá tekur barnið það að sjálfsögðu til sín, og upplifir vanlíðan og trúir eflaust viðkomandi.
Ef þú kreistir appelsínu færðu út appelsínusafa.
Ef þú kreistir reiða manneskju þá kemur út reiði, ef þú kreistir sátta manneskju kemur út sátt, eða er þetta svona einfalt? …
Bara pæling.
Ef við tökum „The Blame Game“ og skoðum út frá skilnaði, þá virkar það þannig að það þarf tvo aðila til að skilja. Já, já, ég veit alveg að annar aðilinn gæti verið „drullusokkur“ – eða hafi brotið trúnað o.s.frv.- og hinum finnst hann hafa gert allt rétt og sé fórnarlamb aðstæðna, en í fæstum tilvikum er það þannig. Skilnaður er yfirleitt útkoma úr sambandi sem er vanvirkt, meðvirkt, – það er sambandið sjálft sem er vont, eða samskiptin eru vond og skemmandi.
Jafnvel þó við álítum að við höfum gert ALLT RÉTT, – þá sýna niðurstöðurnar annað. Ef við neitum að horfast í augu við þetta gætum við lent í sama sambandinu aftur, eða svipuðu. Sá eða sú sem upplifir sig hafa gert ALLT RÉTT er iðulega meðvirk/ur og hefur í raun tekið þátt í að þróa sambandið í þá átt sem það fór. Þetta er sárt, en aðeins við að sjá meinið eða hvað vanmátturinn liggur og viðurkenna hann getum við breytt.
En svona í lokin, höfum það í huga að ásökun er aldrei uppbyggileg, að sjálfsögðu þurfa allir að höndla sína ábyrgð, og við erum mannleg. Gefum ekki valdið yfir líðan okkar í hendur annarra, hvorki til góðs né ills.
Við höfum val. Val um að þroskast, val um að læra, val um að halda áfram .. en ásakanir eru ávísun á stöðnun.