Við eigum mörg erfitt með að segja „Nei takk“ og segjum stundum „Já takk“ þegar við meinum Nei. Já, því miður er það þannig.
Við borðum matinn hennar ömmu því við viljum ekki særa tilfinningar hennar, jafnvel þó hann sé ótrúlega vondur. – Eða hvað?
Hér ætla ég þó ekki að ræða samskipti við ömmur, heldur á milli para eða hjóna.
Oft býður makinn upp á hegðun sem þér mislíkar. Oft, eða stundum skulum við segja. –
Því oftar sem þú segir „já takk“ – ekki upphátt endilega en þó í huganum við einhverju sem þér mislíkar, þvi´meira mislíkar þér við sjálfa/n þig. Þetta er keðjuverkandi og þú verður allta lélegri og lélegri í að segja nei takk og ferð að taka við ýmsu sem þú átt í raun ekkert að taka á móti.
Hvað ef að maki þinn blandaði nú drykk fyrir þig, edik, lýsi, súrmjólk og engifer skulum við segja og rétti þér hann og byði þér, eða jafnvel ætlaðist til að þú drykkir. Hvert væri svarið? – myndi það vera „já takk?“ eða „nei takk?“ Það þarf nú varla að spyrja að því.
Í þessu tilfelli væri nú varla um það að ræða að þú værir að sýna kurteisi eða vernda tilfinningar, þú værir kannski að gera þetta til að halda friðinn, makinn yrði til friðs ef þú bara drykkir drykkinn sem hann blandaði fyrir þig.
Stundum er ákveðin framkoma eins og ógeðisdrykkur, þér líður a.m.k. eins og eftir að hafa drukkið slíkan. Þá er að átta sig, virða sig nógu mikils til að segja „Nei takk, þetta er mér nú ekki bjóðandi.“
Kannski eru bragðlaukarnir orðnir dofnir? – Erfitt að skynja eða átta sig á hvað er ógeð og hvað er bara gott. Er ekki lýsi hollt? Er ekki engifer hollt? Drekka ekki sumir edik til að grennast? Súrmjólk, það þarf nú enginn að kvarta undan henni, eða kannski er hún full súr?
Kannski veistu bara ekkert í þinn haus og ekki viss hvað þér er bjóðandi og hvað ekki? –
Stundum erum við búin að venjast einhverju sem er vont.
Stundum þurfum við að leita ráða og biðja aðra um að smakka, ef að bragðlaukarnir eru orðnir dofnir af ógeðisdrykknum. Þá er gott að fá lánaða dómgreind, eða hitta einhvern sem er tilbúin/n að segja þér sitt álit. Ekki einhvern sem tiplar á tánum í kringum ykkur parið og þorir ekki að skipta sér af, heldur einhvern ómeðvirkan sem er tilbúin/n að segja hlutina hreint út.
Þá þarf líka að koma heiðarlega fram, heiðarlega við sjálfa/n sig og heiðarlega við þann sem um ræðir.
Það þarf yfirleitt tvo til að klúðra sambandi – það er sjaldnast bara einn sem ekki kann á samskiptin. Einn getur ýtt undir ókosti annars, að sjálfsögðu óvart og vegna kunnáttuleysis.
Hluti af því að stöðva slikt ferli er að átta sig á hvað manni er bjóðandi, hluti af því er að segja „Nei takk“ .. og sjá svo hvað gerist! …