Þessi frásögn hefur víða farið – enda mikilvæg lexía okkur öllum.
Áströlsk kona, Bronnie Ware hefur nú skrifað bók um eftirsjá fólks á dánarbeði en hún hefur undanfarin ár unnið við að hjúkra deyjandi fólki. Hún hefur rætt við sjúklingana um hvað þeir sjá mest eftir í lífinu og skrifað bók um fimm algengustu atriðin sem fólk nefnir.
Hvað er annars EFTIRSJÁ? – Það liggur í orðanna hljóðan að það er að sjá eftir einhverju, hafa ekki sagt JÁ þegar við hefðum átt að segja já og kannski ekki sagt NEI þegar við hefðum átt að segja nei. – Til þess þarf hugrekki, vegna þess að stundum þýðir það að yfirgefa öryggisfarveginn sinn – sem er sá farvegur sem við þekkjum, jafnvel þó það vegur sem okkur finnst ekki gott að þræða, – og í því felst stíga yfir landamæri sem við höfum e.t.v. ekki prófað áður. – Að gera eitthvað nýtt – án öryggisnets og að vita hvernig það fer – jafnvel að stíga út í óttann! –
Eftirfarandi tilvitnun er höfð eftir Mark Twain:
Twenty years from now you will be more disappointed by the things that you didn’t do than by the ones you did so. So throw off the bowlines. Sail away from the safe harbor. Catch the trade winds in your sails. Explore. Dream. Discover. |
Fimm algengustu atriðin sem fólk sér eftir
1. Ég vildi að ég hefði haft hugrekki til að vera trú sjálfri eða sjálfum mér en ekki því sem aðrir væntu af mér.
(stundum förum við líka inní hausinn á öðrum og höldum að aðrir vænti einhvers sem þeir eru í raun ekkert að vænta).
2. Ég vildi að ég hefði ekki unnið svona mikið.
Karlmennirnir í hópnum iðrast þess sérstaklega að hafa misst af uppvexti barna sinna en fleiri konur í hópnum voru heimavinnandi og sáu ekki eftir þessu í sama mæli.
(Við þurfum að skoða forsendur þess að við séum að vinna mikið, – er það bara til að hafa í okkur og á, eða er það vegna hluta (dauðra hluta) sem við bara verðum að eignast? Er það vegna gjafa fyrir aðra sem við teljum okkur þurfa að gefa? – Það má nefna það að það besta sem við gefum börnum er tími og samvera, – það langbesta reyndar). –
3. Ég vildi að ég hefði haft kjark til að tala um tilfinningar mínar.
Margir segjast hafa byrgt inni tilfinningar sínar til að forðast átök og uppskorið biturð sem gekk yfir heilsuna.
(Flestir sitja uppi með einhvers sársauka, ótta eða skömm, og það getur virkað eins og eitur fyrir líkamann. – Við getum sleppt því að yrða tilfinningar okkar upphátt og við getum flúið þær, en það þýðir að við förum þá í staðinn í afneitun eða fíkn. – Tilfinningar sem ekki eru viðurkenndar og leyft að koma fram verða bældar og koma sér fyrir eins og tilfinningahnútur innra með þér, – nokkurs konar æxli. – Þetta æxli minnkar við tjáningu. – Þess vegna m.a. er svo mikilvægt að tala um tilfinningar, losa sig við leyndarmál sem er þungt að bera og við erum stundum að bera fyrir þá sem hafa beitt okkur ofbeldi). –
4. Ég vildi að ég hefði haldið sambandi við vini mína
Allir sakna vina sinna þegar þeir liggja fyrir dauðanum, segir hjúkrunarfræðingurinn.
(Við erum líka býsna gjörn á að bíða eftir því að vinir okkar hafi samband við okkur, ef allir hugsa svoleiðis hefur enginn samband við neinn! )
5. Ég vildi að ég hefði leyft mér meiri hamingju.
Flestir líta á hamingjuna sem val þegar þeir eru á grafarbakkanum. Óttinn við breytingar og sókn í þægindi hefur valdið því að margir þorðu ekki að grípa tækifærin þegar þau gáfust og breyta lífi sínu til hins betra.
(Hamingjan er ákvörðun, – eins og fram kemur í pistlinum sem ég skrifaði á unan, heldur þú á lyklinum að eigin hamingju, – hann fæst ekki útí bæ í BYKO eða í annarri manneskju, við getum ekki bara staðið og beðið eftir að hamingjan detti í fangið okkar í formi annars fólks, hamingjan er sjálfsköpuð). –
Hugrekki og hamingja fylgjast að …. það að lifa af heilu hjarta (skv. Brené Brown) er að hafa hugrekki til að fylgja sínum vegi, vera maður sjálfur – vera náttúruleg – eðlileg – orginal …
Það er að vera til … á meðan við erum til
Ég skrifaði nýlega pistil um það hvernig mér leið í heimsókn hjá mömmu á Droplaugarstöðum, þar sem fólkið er í raun komið á biðstofu .. og ég ákvað að taka það sem hvatningu fyrir mig, sem hef val, val um það hvort ég álíti lífið biðstofu dauðans, eða hvort ég er enn stödd í hringiðu lífsins og fjörsins …
Ég komst að því að ég hef val … og þú hefur val –