Margir sem leita til mín eru að íhuga það sem kallað er æðri máttur, – en það er það sem ég og margir kalla dags daglega Guð. – Ástæðan fyrir því að fólki „líkar betur“ við hugtakið æðri máttur en Guð er að guðsmyndin er oft orðin fyrir þeim hálfónýt, þar sem það er mynd af dæmandi Guði, Guði hefndar – og jafnvel mjög fjarlægum Guði. –
Í lokuðum hópi í gær fór umræðan um almætti Guðs og kærleikann hátt, og sýndist sitt hverjum og allir höfðu rétt fyrir sér (að mínu mati) – því að í raun getur engin/n sagt okkur hvernig Guð er, eða æðri máttur, en það er hægt að segja frá sinni mynd og þegar við förum að tengja okkur við ákveðna mynd og skilja/þekkja æðri mátt þurfum við ekki að spyrja lengur, við bara finnum og skynjum. –
Nýlega heyrði ég þá tilgátu að þegar við létum annað fólk eða leyfðum því að vekja með okkur gremju, og þá stjórna lífi okkar og tilfinningum, værum við að gera það að okkar æðra mætti og þá væri ekki pláss hinn raunverulega æðri mátt. –
Ég hef vanið mig á að byrja daginn með einhverju fallegu, hlusta á fallegan boðskap á Youtube, lesa bæn, hugleiða – og í morgun dró ég úr „Fjársjóði hjartans“ en það eru spjöld sem nýbúið er að gefa út og fást í Kirkjuhúsinu, – þar sem falleg ritningarvers leiða mann inn í daginn og aftan á spjaldinu er bæn. – Tilviljun? – Ég sem var að ræða Guð og æðri mátt í gær, og þar að auki að skrifa um mikilvægi þekkingar/reynslu í pistli á mbl.is –
Spjaldið sem ég dró segir: „Því að Guð er meiri en hjarta okkar og þekkir allt.“ – 1. Jóh. 3:20
Í huga mér kom upp mynd af okkur krökkunum í kringum pabba, – en ég minnist þess að hann var að lesa framhaldssögu fyrir okkur, en hún heitir einmitt „Mamma skilur allt“ –
Börn upplifa oft Guð sem foreldri sem klikkar ekki, sem elskar þau skilyrðislaust og þannig á það auðvitað að vera. – En við þekkjum auðvitað að þar getur brugðið útaf. – Guð hefur það fram yfir mömmur og pabba – og hvern sem er að hann getur sett sig algjörlega í okkar spor. – Það sem er enn mikilvægara er að almætti hans felst í því að gera það sem við getum oftast ekki, það er að elska okkur og náungann skilyrðislaust og fyrirgefa. –
.. Þegar börnin mín voru lítil sagði ég við þau að ef að þau bæðu bænirnar fyrir svefninn, myndi þau dreyma vel. – En svo gerðist auðvitað hið óumflýjanlega, að barnið sem var fullt af trúnaðartrausti til móður og til Guðs, vaknaði einn morguninn og sagði „mig dreymdi illa, SAMT bað ég bænirnar mínar.“ – Ég hafði s.s. lofað upp í ermina á sjálfri mér og Guði sjálfum og barnið varð auðvitað eitt spurningarmerki, bað ég ekki nógu heitt? – Elskar Guð mig ekki nógu mikið? Er mamma að plata? Á ég ekki skilið að dreyma fallega? .. o.s.frv.
– Það hefði verið réttara að segja við barnið að við biðjum Guð að vera með okkur í draumunum okkar, og ef okkur dreymir illa, fáum jafnvel martröð, er Guð þar líka og upplifir hana með okkur, þannig að við séum aldrei ein og Guð skilji okkur 100% hvort sem okkur líður vel eða illa. –
Bænin aftan á spjaldinu sem ég dró er eftirfarandi:
„Guð, ég þakka þér fyrir allt sem þú getur gert i okkur og fyrir allt sem þú getur gert án okkar, Hjálpaðu okkur að hvíla í þér. -“
Þetta er það sem kallað er að gefa sig æðra mætti, – „Surrender to God“… Ég vil ekki kalla það uppgjöf, í hefðbundnum skilningi, heldur er það miklu líkara sátt. Að sættast við Guð, í stað þess að glíma við Guð. –
Eins og ég tók fram í upphafi, þá er engin/n sem getur sagt okkur hver okkar æðri máttur er eða hver Guð er fyrir OKKUR. –
Það er mikill friður og frelsun að hvíla í Guði/æðra mætti, – eða jafnvel því sem sumir kalla og talað er um í Biblíunni því sem ER. Því Guð bara er. „I AM“ – „ÉG ER“ – og það er alveg nóg.
-Mamma verður aldrei Guð, pabbi verður aldrei Guð, þú verður aldrei Guð, – manneskja verður aldrei Guð, því að manneskja getur aldrei þekkt allt eða skilið allt, hversu mikið sem hún leggur sig fram. En eftir því sem manneskja hefur meiri samhug, sýnir meiri einlægan skilning sýnir hún meiri þroska. – Dómharka er aftur á móti andstæðan, dómharkan er þroska- eða þekkingarleysi – og þá líka dómharka í eigin garð. –
Sá sem hefur þroska og þekkingu hefur líka skilning. –
Sumir telja að eina leiðin til að öðlast þennan þroska og öðlast visku sé í gegnum lífsreynsluna – jafnvel sársaukann, en við getum lagt okkur fram við að skilja og dæma ekki, án þess að þurfa að hafa gengið í gegnum alla þjáninguna sjálf. – Við náum langt og við náum þroska, en við getum aldrei og viljum aldrei þurfa að ganga í gegnum alla mögulega þjáningu. –
Við getum ekki verið okkar eigin æðri máttur, – eða okkar Guð, vegna þess að það liggur í orðanna hljóðan. Æðri máttur er máttur sem hefur gengið í gegnum allar sorgir mannlegs lífs og alla gleði og er enn að. – Enginn mannlegur máttur hefur möguleika á því. – Engin manneskja er fullkomin og engin manneskja getur ætlast til þess að hún sé fullkomin og við megum ekki dæma okkur fyrir það að geta ekki allt sem Guð eða æðri máttur getur. – Við erum mannleg og eigum að fagna mennsku okkar og virða það að við erum takmörkuð, en fagna því jafnframt að geta hvílt í Guði eða æðra mætti og skilyrðislausri elsku hans. –
Eftirfarandi er bútur úr kærleiksóð Páls Postula, en margir upplifa það að Guð sé kærleikur og ég leyfi mér hér að skipta út orðinu kærleikur og setja Guð í staðinn. –
Guð er langlyndur, hann er góðviljaður. Guð öfundar ekki.
Guð er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp.
Guð hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin,
hann reiðist ekki, er ekki langrækinn.
Guð gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum.
Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.
Guð fellur aldrei úr gildi.
Ef þú smellir hér er tengill á pistil sem ég vitna í að ofan og tengist þessum pælingum um þekkinguna og skilninginn. –