Að ÞORA, VILJA og GETA breytt tilveru sinni ..

Hvað erum við að gera þegar við breytum tilveru okkar og hvað er það að vera til? –  Eða bara að vera? –

Ertu að sýnast eða vera? –

Hvað er þessi sögn „að breyta“ – að segja? –

Breyta er komið af orðinu braut og þess vegna er meira að segja y í orðinu breyta  au verður ey – i hljóðvarp! …

En hér er málfræðin ekki fókusinn,  heldur þetta að breyta yfir á aðra braut. –

En hvenær er tími til kominn að skipta um braut? –

Hugmyndir:

  • Þegar brautin sem við erum á er skaðleg?
  • Þegar brautin sem við erum á er leiðinleg?
  • Þegar á brautinni er fólk sem hindrar okkur í að ná árangri eða farsæld?
  • Þegar brautin býður bara upp á sársauka? –

Af hverju höngum við á þessari braut – á þessum vegarslóða sem er okkur e.t.v. helvíti og leiðir ekkert annað? –

Hugmyndir?

  1. Við gerum okkur ekki grein fyrir aðstæðum því þær eru orðnar samdauna okkur (vani)  og við sjáum því ekki ástæðu til að breyta.
  2. Við kunnum ekki að breyta
  3. Við ÞORUM ekki að breyta
  4. Við viljum ekki gera öðrum það að breyta
  5. Við eigum ekki skilið að breyta
  6. Þín ástæða? …

Já, – í fyrsta lagi þurfum við að sjá sársauka okkar,  skynja hann og vera vakandi,  það er í raun forsenda breytinganna.  Í öðru lagi þurfum við að hafa vilja, hugrekki, kunnáttu, – e.t.v. utanaðkomandi stuðning til að breyta? –

Við þurfum líka að vita og sjá hverju við getum breytt og hverju ekki. –  Við þurfum að þora að hrista af okkur púkann sem hvíslar;

„Hvað þykist þú vera, þú nærð aldrei árangri – þú nærð aldrei farsæld“…

Púki sem stöðvar okkur þegar við erum kannski um það bil að stíga upp úr djúpum farvegi. –  „Æ neee … best að halda bara áfram á sömu braut – ég veit þó hvað ég hef hér“ .. Þarna ertu gyrt/ur með belti og axlaböndum, – og missir því ekki buxurnar niður um þig – þannig að allir sjái nekt þína. –   Sést kannski bara alveg hver þú ert? –  Allar varnir farnar og skjöldur fullkomleikans líka. – Þú varst svo fullkominn í því sem þú varst í, eða var það bara fullkominn leikur? –  Við vitum að engin/n getur verið fullkominn svo það hlýtur að vera leikur – er það ekki? –

– Varstu ekki bara að sýnast – í stað þess að vera?

Úff hvað það væri nú hræðilegt að standa óvarin! –  Bara eins og Adam og Eva í aldingarðinum forðum. –  Þegar þau uppgötvuðu að þau voru nakin,  földu þau líkama sinn. –  Af hverju skömmuðust þau sín fyrir líkama sinn þó þau stælust til að borða ávöxt? – Það er reyndar önnur saga,  eða hvað? –

Heldur þú að þú stæðir nakin/n – grímulaus e.t.v. ef þú færir upp úr gamla farveginum,  örugga – þar sem þú ert í gamla hlutverkinu og leikur sama leikinn dag eftir dag? –  Ertu kannski örugg/ur í gamla hlutverkinu, veist að hverju þú gengur? –

„Fullkomleiki er 20 tonna skjöldur, sem við dröslum með okkur, og ímyndum okkur að hann muni vernda okkur, þegar hann í raun er hluturinn sem hindrar okkur að vera séð og að ná flugi.“– Brené Brown

Hún segir einnig:

Þegar við búum í samfélagi þar sem yfir flæða væntingar sem vonlaust er að uppfylla, væntingar um allt milli himins og jarðar, frá því hversu mörg kíló við eigum að vera til þess hversu oft í viku við eigum að stunda kynlíf, þá er ógnvekjandi að leggja frá sér varnarskjöldinn.

Að finna hugrekkið, ástríðuna og tenginguna við að flytja sig frá hugsuninni „Hvað ætli fólk hugsi“? yfir í „Ég er nóg.“ það er ekki auðvelt. En hversu hrædd sem við erum við breytingar, kemur að því að við verðum að svara eftirfarandi:

„Hvort er meiri áhætta? Að sleppa því sem fólk hugsar – eða að sleppa því hvernig mér líður, hvernig ég trúi, og hver ég er?

Hvernig búum við okkur undir hugrekki, ástríðu og tengingu sem við þurfum til að höndla okkar eigin ófullkomleika og að viðurkenna að við erum nóg – að við séum verðug ástar, að tilheyra og verðu þess að njóta gleði og farsældar?

Hvers vegna erum við öll svona hrædd við að láta hin sönnu okkur vera séð og þekkt?  Hvers vegna erum við svona lömuð yfir því hvað aðrir hugsa um okkur?

Eftir áratuga rannsóknir Brene Brown á berskjöldun, skömm, og því að vera ekta,  hefur hún uppgötvað eftirfarandi:

„Djúp þörf fyrir að tilheyra og vera elskuð er eitthvað sem engin manneskja getur gefið afslátt af. Við erum líffræðilega, vitsmunalega, líkamlega og andlega „víruð“ til að elska, vera elskuð og tilheyra. Þegar þeim þörfum er ekki fullnægt, virkum við ekki eins og okkur er ætlað. Við brotnum. Hrynjum niður. Við dofnum. Okkur verkjar. Við meiðum aðra. Við verðum veik. Sannarlega eru aðrar ástæður veikinda, doða og sársauka, en fjarlægð við ást og að tilheyra mun alltaf leiða til þjáningar.“

Í rannsóknarviðtölum sínum, komst hún að því að aðeins einn hlutur aðskildi konurnar og karlana sem upplifðu djúpstæðar tilfinningar ástar og þess að tilheyra frá þeim sem voru að berjast við það.

Það var verðmætamat þeirra.

Það er eins flókið og einfalt og eftirfarandi: Ef við viljum upplifa að fullu ást og það að tilheyra, verðum við að trúa að við séum verðug ástar og að tilheyra einhverjum. Stærsta áskorunin fyrir okkur flest er að trúa að við séum verðug núna, á þessari mínútu.

Það eru engin skilyrði fyrir verðmæti. Mörg okkar hafa skapað lista fyrir forsendum verðmætis:

* Ég verð vermæt/ur þegar ég hef misst 10 kíló

* Ég verð verðmæt ef ég verð ófrísk

* Ég verð verðmæt/ur ef ég verð/held mig edrú

* Ég verð verðmæt/ur ef allir halda að ég sé gott foreldri

* Ég er verðmæt/ur ef ég hangi áfram í þessu hjónabandi

* Ég verð verðmæt/ur ef ég næ í flottan maka

* Ég verð verðmæt þegar foreldrar mínir samþykkja mig loksins

* Ég verð verðmæt/ur þegar ég get gert allt, og það lítur út fyrir að ég sé ekki einu sinni að reyna.

Hér er það sem er í raun kjarninn í því að lifa af heilu hjarta:

Verðmæt/ur núna. Ekki EF. Ekki ÞEGAR. Þegar við erum verðug ástar og þess að tilheyra núna. Þessa mínútu. Eins og er. Að sleppa forsendunum fyrir verðmæti þýðir að ganga hinn langa gang frá “ Hvað heldur fólk?“ til þess: „Ég er nóg.“ En eins og öll mikil ferðalög, hefst þessi ganga á einu skrefi, og þetta fyrsta skref í göngunni að heilu hjarta er að æfa sig í hugrekki.

Rót orðsins „courage“ á ensku er er latneska orðið cor – fyrir hjarta. Í fyrri tíma skilgreiningu hafði orðið „courage“ aðra skilgreiningu en það hefur í dag. Það hafði upprunalega þá þýðingu að segja huga sinn, með því að tala frá hjartanu. Það stemmir ágætlega við íslenska orðið hugrekki, að segja hug sinn. Í tímans rás hefur skilgreiningin breyst og í dag á hugrekki meira skylt við hetjuskap.

Hetjuskapur er mikilvægur og við þurfum sannarlega á hetjum að halda, en Brené Brown telur að við höfum misst tenginguna við það að tala einlæglega og opinskátt um hver við erum, um tilfinningar okkar, og um reynslu okkar (góða og slæma) – það sem er skilgreining á hugrekki. Hetjuskapur er oft um það að leggja lífið að veði. Hugrekki er um að leggja berskjöldun okkar að veði – að fella varnir okkar. Ef við viljum lifa og elska af heilu hjarta og taka þátt í tilverunni þar sem við erum verðmæt, af sjónaróli verðugleikans, er fyrsta skrefið að æfa hugrekkið að vera saga okkar (skammast okkar ekki fyrir líf okkar) og segja sannleikann um það hver við erum.

Meira hugrekki er ekki hægt að hugsa sér.“ —

Þori ég, Get ég, Vil ég? – Sungu konurnar hér um árið sem voru sem hugrakkastar í kvenfrelsisbaráttunni. –  Já „frelsis“ – frelsis upp úr fari sem þær voru ósáttar við. –   Þær vildu breyta.  Þær peppuðu sig upp með söng og samstöðu. –

Þorir þú,  getur þú, vilt þú vera (til) eða sýnast? –

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s