Ég skrifaði pistil nýlega um mikilvægi því að „giftast“ eða gefast sjálfum sér. – Með því undirliggjandi sem þarf til að hjónaband virki. – Ég held það fari varla á milli mála að þar þarf að ríkja ást – virðing og traust. –
Mikilvægi sjálfsvirðingar – sjálfstraust og að elska sjálfa/n sig verður seint dregið í efa. Þ.e.a.s. að þykja vænt um sjálfa/n sig en ekki í hefðbundinni merkingu eða eigingirni. –
Í framhaldi af því segjum við oft að við verðum að elska okkur sjálf, virða og treysta til að aðrir geri það. Sú staðhæfing er góð og gild eins langt og hún nær. –
En lífið er svo skemmtilega (leiðinlega?) flókið – og það er staðreynd að margir eiga í erfiðleikum með að elska sig, virða og treysta og það þýðir ekki að við megum ekki eða eigum ekki að elska, virða og treysta þeim sem eru í vandræðum með það. –
Við getum nefnilega elskað, treyst og virt án skilyrða. – Þ.e.a.s. við getum fókuserað á að allar manneskjur séu elsku, virðingar og trausts verðar. – Ef þær eru brotnar er erfitt fyrir þær að byggja upp elsku, virðingu og traust án utanaðkomandi aðstoðar. –
„Ég fór að trúa að ég gæti þetta af því að þú trúðir á mig!“ –
Þetta er raunveruleg setning úr bréfi nemanda til námsráðgjafa.
Þó að umhverfið, eða í þessu tilfelli námsráðgjafinn, hafi áhrif, er það í raun alltaf nemandinn sem þarf að taka ákvörðun eða velja að hlusta á ráðgjafann, að samþykkja það sem hann segir og gera það að sínu. Þ.e. að fara að hafa trú eða traust á sjálfum sér eða getu sinni.
Margir hafa heyrt söguna um froskana sem voru að keppast um að klifra upp í mastrið. –
Hópur af froskum lagði af stað, en niðri var hópur sem kallaði, „þetta er ekki hægt“ – „Þetta tekst aldrei“ .. o.s.frv. – einn af öðrum gafst upp þar til einn froskur varð eftir og kláraði alla leið á toppinn. – Af hverju gafst hann ekki upp? –
Froskurinn var heyrnalaus. –
Það mætti líka snúa þessari sögu við, þar sem liðið á jörðinni væri að hvetja áfram og kalla hvatningar. Hvað hefði gerst þá? –
—
Hvernig tengist hjónaband með undirliggjandi ást, trausti og virðingu inn í þetta froskadæmi? –
Jú, við hjónavígslu lofar parið hvort öðru gagnkvæmri virðingu, ást og trausti. –
Gagnkvæmnin felur í sér að gefa og þiggja virðingu, ást og traust.
Á sama hátt og hver manneskja þarf að rækta sjálfa sig og það er eflaust grunnforsendan (eins og að elska sjálfa sig, virða og treysta) þá þurfa tveir aðilar að rækta hvern annan, og – hjónabandið þarf að rækta. –
Þarna fer oft ýmislegt að fara úrskeiðis. – Af hverju rakna hjónabönd upp? –
Það er þegar jafnvægið klikkar. – Þræðirnir ná ekki að spinnast saman eða liturinn fer að leka úr öðrum yfir í hinn. – Hjónabandið er úr tveimur heilum þráðum, sem þurfa að haldast heilir og vefja saman eitt sterkt band. –
Í upphafi getur pari liðið eins og algjört jafnvægi ríki, – það er þegar ástin er allsráðandi og eins og sagt er þá getur ástin blindað, þessi ástríðufulla ást, – ekki þessi sem varir, þessi sem er meira eins og djúp væntumþykja. –
Þegar fólk fer að upplifa mannlegu hliðarnar, – þá fara hlutir sem voru jafnvel krúttlegir áður að fara í taugarnar á hinum. –
Við getum tekið dæmi af konu sem er lengi að gera sig klára, og er af þeim orsökum alltaf of sein. Í tilhugalífinu þótti manninum hennar þetta krúttlegt, að hún tæki langan tíma að undirbúa sig fyrir hann og bara fyndið að mæta of seint í matarboð eða í leikhúsið. Seinna þegar þau eru gift, er þetta að hans mati einn af hennar stærstu ókostum og farið að taka mjög á taugarnar, og orðinn orsakavaldur margra uppákoma og rifrilda.
Seinlæti og það að koma of seint eða láta bíða eftir sér er í raun óvirðing við tíma annarra. Sá aðili sem lætur bíða eftir sér er því að sýna bæði maka og öðrum „þolendum“ óvirðingu. – Óstundvísi er oft ávani eða lærð hegðun sem þarf að aflæra. En til þess þarf viljann til þess. –
Kona sem er búin að segja manni sínum að henni finnist dásamlegt að hann færi henni blóm við og við, – og hann færir henni aldrei blóm, er að óvirða langanir konunnar með að hlusta ekki á hana. –
Við verðum að yrða óskir okkar, langanir og þrár – og makinn á móti að virða þessar óskir, langanir og þrár (að sjálfsögðu á meðan það gengur ekki á virðingu makans). –
Þessar dæmisögur eru bara brotabrot og virka kannski einfaldar, en geta í raun verið upphafið að óánægjuferli. –
Þó að við eigum ekki að þrífast á viðurkenningum né hrósi, blómum eða hegðun annarra, þá komumst við ekki hjá því að slíkt hefur áhrif. Við þurfum ekki að láta eins og að við séum ónæm fyrir hrósi eða viðurkenningu, það er líka gott í hófi, eins og súkkulaði eða rauðvín er gott í hófi 😉
– Við þurfum að sýna tillitssemi og virðingu, – við erum tilfinningaverur og það er nú þannig að t.d. samlífið sem endar í rúminu á kvöldin hefst oft að morgni. –
Náin og falleg samskipti yfir daginn byggja upp áhugann fyrir kvöldið – á meðan vond samskipti og óvirðing brýtur niður áhugann. – Merkilegt þegar sumir halda að það sé hægt að vera leiðinleg/ur við maka sinn og fjarlæg/ur allan daginn jafnvel gera lítið úr – og svo eigi allt að „gerast“ um kvöldið.
Auðvitað eru undantekningar – en þær eru ekki reglan. –
Hjón deila næstum öllu með hvort öðru, lífi sínu og tilfinningum. Það er mjög mikilvægt að virða tilfinningar hvers annars, annars er ekki hægt að tjá sig um þær og þær safnast bara upp í hnút. –
Að sjálfsögðu þarf fólk að komast að samkomulagi, hvað er eðlilegt og hvað ekki og hafa sameiginlegar reglur og gildi fyrir heimilið, og þá ekki síst þegar börn eru í spilinu. –
Æ oftar heyri ég af körlum í hjónabandi sem vilja skoða klámsíður á netinu, – konan biður þá um að hætta, en ekki hættir maðurinn og unglingar á heimilinu komast jafnvel í efnið. – Þetta er raunveruleikinn. –
Ef að hjón eru ekki fær um að virða langanir, þrár, væntingar eða skoðanir hvers annars, þá fer að fjara undan. –
Hvað þá að virða hvort annað bara sem manneskjur. –
Mörg hjón stunda það, annað hvort bæði eða annað að gera lítið úr hinu og ýta oft á viðkvæmustu takkana, og það geta þau vegna þess að þau þekkjast svo vel. –
Sá aðili sem gerir þetta, notar það að hæðast að maka sínum, jafnvel fyrir framan annað fólk er yfirleitt sjálfur í vanlíðan. Þetta er því keðjuverkandi. –
Ég þekki þetta af eigin raun, – bæði að vera gert lítið úr og að gera lítið úr. –
Þetta kallast gagnkvæm óvirðing. –
Gagnkvæm óvirðing kemur þegar báðir aðilar eru brotnir, líður illa og stundum þarf bara einn að byrja og svo hefst vítahringurinn. –
Hjónabandið er því, eins og fyrirtæki, ekki sterkara en veikari hlekkurinn eða aðilinn. –
Fólk getur viljað vel, upplifir jafnvel væntumþykju – en kann ekki samskipti. – Kann ekki umgengi og skilur ekki hvað er eiginlega í gangi. –
Af hverju vill hún/hann ekki elskast með mér í kvöld? –
Af hverju er hún/hann í fýlu? –
Af hverju er hann/hún farin/n að leita í aðrar áttir?
Við verðum að spyrja af hverju, en ekki bara að ráðast á afleiðingarnar. –
Ef hjón vilja bæta samband sitt, þarf að:
Virða sig, virða maka sinn, virða hjónaband sitt, virða mörk sín o.s.frv. –
Það þarf að taka tillit til eigin langana og þarfa og yrða þær, ekki bara vona að makinn fatti, því að það er ekkert víst að hann hafi alist upp í þannig umhverfi. Á móti þarf sá sem tekur við að hlusta á langanir og þarfir og virða þær. –
Ekki gera lítið úr, ekki hæðast að. Ef fólk er ekki sammála þá verður að komast að samkomulagi eða niðurstöðu.
Stundum er það þannig að forsendurnar fyrir hjónabandinu eða sambandinu voru alltaf rangar og því er erfitt að bjarga, stundum hefur annar aðilinn beitt það miklum rangindum eða ofbeldi að því er erfitt að bjarga og þeim sem beittur var ofbeldinu bjóðandi að halda áfram. –
En þegar BÁÐIR aðilar sjá möguleika á því, og langar til að byggja upp gagnkvæmt traust, virðingu og elsku, þá ber að hafa það í huga að:
Það er dýrara og oft mun sársaukafyllra að skilja en að leita sér hjálpar eða fá ráðgjöf.
Þrátt fyrir ofan sagt, er forsendan alltaf að elska sig, virða og treysta. Því sá sem gerir það lætur ekki bjóða sér óvirðingu, yrðir tilfinningar sínar langanir og þarfir, setur eðlileg mörk í samskiptum og lítur ekki á sig sem stærri eða minni en aðrar manneskjur, heldur jafningja. –
Jafnframt: Það er sagt að við getum ekki breytt fólki og það er satt svo langt sem það nær. – Við breytum ekki fólki, það breytir sjálfu sér. – Þegar við segjum við einhvern að við treystum viðkomandi getur hann valið sjálfur hvort hann trúir því eða ekki. Við ákveðum það ekki fyrir hann. –
Við getum haft áhrif á fólk með því að breyta okkur, framkomu okkar, viðmóti og hvernig við umgöngumst það.
Við getum haft áhrif með því að vera fyrirmyndir, fyrirmyndir í elsku, virðingu og trausti. – Bæði á sjálfum okkur og öðrum. –
Þetta er búið að vera átakamikið umræðuefni, – set hér í restina trailerinn úr „Steiktir grænir tómatar“ – þar sem frúin var óánægð með sjálfa sig og ónærð í hjónabandinu og var farin að leita huggunar í konfektkassa og eiginmaðurinn í íþróttunum í sjónvarpinu. – Hún var að reyna að fá athygli hans, m.a. á tragikómískan hátt með að vefja sig inn í sellófan, en í raun var það endurnýjað sjálfstraust hennar í gegnum samtöl við fullorðna konu sem vakti athygli og áhuga eiginmannsins. –
Þú getur valið hvort þér þykir þetta trúverðugt.
Að lokum, það er aldrei uppbyggilegt að fara í ásökunargír hvorki gagnvart sjálfum sér eða maka, – miklu betra að setja sig í þann gír að vilja sýna sjálfum sér skilning, skilja maka sinn og skilja sjálfa/n sig.
Lokaspurning:
Hvað átt þú skilið og hvað ætlar þú að gera í því?