Ert þú til í að brosa til sólar taka þér plóg í hönd og rækta nýjan skóg?
Ég hef yfirleitt notað líkinguna af því að vera í farvegi og skipta um farveg, en fæ þessa skemmtilegu líkingu lánaða hjá vini mínum – að breyta um skóg. –
Kannski erum við að púla í röngum skógi?-
Það hafa margir verið að spyrja um „tæki“ til að breyta hugsunarhætti eða siðum. – Það er fólkið sem yfirleitt er búið að sjá að breytinga er þörf, finnur að það er komið í rangan farveg, hvort sem er andlega eða líkamlega. –
Marga langar í tilbreytingu, – en orðið skiptist í tvö orð til-breyting og felur í sér hreyfingu. Lífið er orka og lífið er hreyfing. –
Stundum er nóg að þessi hreyfing sé aðeins að breyta um viðhorf. Hugsa út fyrir kassann, fara út fyrir þægindarammann eða fara upp á nýjan (sjónar)hól. –
Þetta er nú alveg helling 😉
Við getum hugsað okkur að við séum að íhuga draumana okkar, – sjáum fyrir okkur sýnina, trúum á hana, en ekki nóg því við sitjum alltaf kyrr. Það gengur ekki alveg upp. Við verðum að hætta að horfa upp í stofuloftið, – standa upp úr sófanum, e.t.v. bara nokkur skref og horfa upp í himinn, anda djúpt og fylla lungun af fersku lofti. – Þá erum við tilbúin í slaginn. –
Á sama hátt þurfum við að fylla huga okkar af ferskum hugsunum. Leyfa hinum stöðnuðu og jafnvel að skoða dagsetningar á sumum þeirra, hvort þær séu ekki komnar langt yfir síðasta neysludag og þv´verða þær að víkja.
Útrunnar hugsanir geta verið stórhættulegar!
Vertu til er vorið kallar á þig,
vertu til að leggja hönd á plóg.
Komdu út því að sólskinið vill sjá þig
sveifla haka’, og rækta nýjan skóg.
Ert þú til í að hlýða kalli vorsins, leggja hönd á plóg og rækta nýjan skóg?