Ég lenti í skemmtilegum samræðum við tvo unga menn í gær. Ég öðlast trú á mannkynið þegar ég rabba við ungt hugsandi fólk. Annar maðurinn sagðist hafa lesið greinina, þar sem minntist á að börn væru ekki peð í valdatafli foreldra, eða þau mætti ekki nýta sem peð í valdatafli foreldra. –
Setningin er úr greininni „Draugagangur í sambandinu“ og hljómar svona:
„Börn eru EKKI peð á taflborði í skák – en stundum finnst manni eins og þau séu því miður notuð og völduð í einhvers konar valdatafli.“
Oft þegar verið er að takast á um börn verður mér hugsað til Salómonsdómsins, þar sem dæmt var hver væri hin sanna móðir barnsins. –
Dómurinn er í Fyrrri konungabók í Biblíunni og sagan er eftirfarandi:
-
„Þá sagði konungur: „Önnur ykkar segir: Það er sonur minn sem er á lífi en sonur þinn sem er dáinn. En hin segir: Þin sonur er dáinn en minn er á lífi.“ Og hann hélt áfram: „Færið mér sverð.“ Þegar sverð hafði verið sótt sagði konungur: „Höggvið barnið, sem lifir, í tvennt og fáið hvorri sinn helming.“ Þá sagði konan, sem átti lifandi barnið, við konunginn því að móðurástin brann í brjósti hennar: „Æ, herra minn! Fáðu henni barnið sem lifir, láttu ekki deyða það.“ En hin sagði: „Það er best að hvorki ég né þú fáir það. Höggvið barnið í tvennt.“ Konungur svaraði og sagði: „Fáið hinni konunni barnið sem lifir og deyðið það ekki því að hún er móðir þess.“ Er allir Ísraelsmenn heyrðu um dóminn, sem konungurinn hafði kveðið upp, fylltust þeir lotningu fyrir honum því að þeir skildu að guðleg viska bjó í brjósti hans þegar hann kvað upp dóma.“
Það er augljóst hvor konan er að hugsa um eigin hag í þessu tilfelli og það er augljóst hver hugsar um hag barnsins.
„Móðurástin brann í brjósti hennar“ … segir í textanum og þess vegna er hún tilbúin tli að gefa barnið sitt svo það megi halda lífi. – Þannig virkar óeigingjörn móðurást, skilyrðislaus, það þarf ekki að fá neitt í staðinn.
Fórnin er í raun algjör.
Auðvitað hefði það verið óréttlátt ef að hin konan hefði fengið barnið sem sitt og hin sanna móðir setið eftir tómhent, en þó ætti hún lifandi barn en ekki dáið. –
Þetta er erfið saga og áleitin. Hún er líka áleitin vegna þess að þessi mynd af móður er ekki endilega alltaf sönn.
Móðir er ekki bara móðir barns síns vegna, heldur líka síns eigin vegna. Móðir fær mikið út úr því að sinna barninu sínu og fá endurgoldna ást, kærleika, umhyggju – jafnvel aðdáun. Það sama gildir um föður.
En hvernig verður barnið peð í valdatafli foreldra?
Þegar foreldrar skilja hefst oft þessi barátta um barnið, og inn í það flækjast líka tilfinningamál foreldra. Annað foreldrið, ef ekki bæði, eru yfirleitt í sárum og þurfa að koma ýmsum skilaboðum á milli til hins foreldrisins og því miður eru börnin notuð óspart til að bera þessi boð á milli. Börnin eru flækt inn í tilfinningamál pabba og mömmu og upplifa sig oftar en ekki klofin. „Hoggvin í tvennt“ .. Það er þegar ósætti ríkir milli foreldra.
Í stað þess að halda barninu utan við deilur, er það notað í valdataflinu, bæði beint og óbeint með þeim áhrifum á barnið að það upplifir óvissu, óhamingju og vandræðagang og telur að eina leiðin til að „bjarga málunum“ sé að pabbi og mamma verði aftur saman. – Barnið fer að sjá í hillingum líf eins og í Disney bíómynd, þar sem allir una sér sáttir saman, mamma, pabbi, börn og bíll. – Oft er líka annað foreldrið sem elur á þessari hugmynd barnsins, – það foreldrið sem er ósátt við aðskilnaðinn.
„Ef við værum saman væri þetta nú ekki svona slæmt“ ..
„Mamma þín vill mig ekki… ég vil hana“ …
„Pabbi þinn fór – ég get ekkert að þessu gert…“
Barnið fer í björgunargírinn og óskar þess af öllu hjarta að mamma og pabbi byrji saman á ný, svo að mamma eða pabbi hætti að vera leið.“ –
Hver heggur í hjarta barnsins? – Að eignast barn er mikil ábyrgð, og ábyrgðin fellur seint úr gildi. Allt samfélagið hefur ábyrgð gagnvart börnum. Barn sem er beitt ofbeldi er á okkar ábyrgð, líka andlegu ofbeldi. Fátt er varnarlausara en barn sem er beitt ofbeldi af þeim sem það helst treystir, eða á að treysta. Barnið telur í fæstum tilfellum að það sé foreldrinu að kenna heldur því sjálfu. Það eigi það skilið, því eitthvað gerði það rangt. Barnið situr því oft uppi með sektarkennd yfir samskiptum við foreldra. (Að sjálfsögðu eiga þessi skrif við öll samskipti foreldra og barna, ekki bara fráskilinna).
Allt peðinu að kenna? ..
Það er svo miklu, miklu auðveldara að horfa á alla hina og sjá hvað þeir eru að gera rangt, en að líta í eigin barm, skoða hvort að það er eitthvað sem ég hef sagt eða gert skaðar barnið mitt, – ekki til að ala á minni eigin sektarkennd, heldur til að læra af því, getur verið býsna mikil áskorun.
Börnin þrá að foreldrar séu ekki óvinir. Að foreldrar geti haft samskipti án þess að þurfa að setja út á hitt, að barma sér hvað hitt er vont, leiðinlegt, ósanngjarnt o.s.frv. En þau þurfa líka að fá að vita að það séu ekki bara tvær leiðir. Saman eða sundur.
Samvinna og/eða samskipti foreldra eftir skilnað, skiptir barnið ekki minna máli en samskiptin fyrir skilnað.
Stríð milli foreldra skilur oft eftir sig sviðna jörð og ég trúi ekki að nokkurt foreldri vilji barninu sínu það að vaxa upp af sviðinni jörð, – enn og aftur vaknar þessi spurning sem hver og ein/n þarf að spyrja sig:
„Hvað skiptir raunverulega máli?“
Slíðrið sverðin
grafið stríðsaxir
látið orðin liggja
því enginn vill
að eftir liggi
sundurskorið
barn