Sorg … afneitun – reiði – sátt

„I was told by my GP that grief goes through three main stages – disbelief, anger, then acceptance. I can go through all three in an hour, let alone a day“ ….

Ég las þessa setningu í grein þar sem ung ekkja var að lýsa sorgarferli sínu.

Sorgarferlið er ekki slétt og fellt,  ekki svona þetta númer 1 „tékk“ svo númer 2 „tékk“ svo númer 3 „tékk“ og svo framvegis,  heldur sveiflast maður fram og til baka,  og þetta eru aðeins „main stages“  eða aðalstigin,  þau eru auðvitað fleiri.

„Ertu búin að jafna þig?“ … er vond spurning að fá mánuði eftir dauðsfall, og líka tveimur mánuðum eftir.   Það er hæpið að „jafna sig“  eftir svo stuttan tíma,  í hvaða sorgarferli sem er,  og þetta er ekki svona bara eins og að fá flensu eða eitthvað álíka.

Reyndar verðum við aldrei söm og áður,  eftir að stórt skarð er hoggið sem dauðsfall náins vinar, vinkonu, maka, systkinis eða afkvæmis.

Við eigum betri daga og verri daga,  betri stundir og verri stundir,  betri mínútur og verri mínútur.   Þó að þessir betri dagar komi og maður nái jafnvel að hvíla í jafnvægi einhverja stund,  þá er undiralda sorgarinnar svo sterk og minnir á sig.

Lífið heldur áfram,  þó að manni langi stundum til að stöðva allar klukkur,  eins og segir í ljóði skáldsins Audens.

Það eru líka margir þröskuldar á sorgarferlinu,  sem þarf að yfirstíga.  Fyrst er það bara hreinlega að þurfa að hitta fólk, – aðrir þröskuldar eru t.d. að fara að stunda vinnu,  mæta á samkomur,  alls konar hátíðir,  afmæli,  páskar,  jólin  (úff)  í fyrsta skipti sem við gerum eitthvað eftir að sá eða sú sem okkur er kær hefur yfirgefið þetta jarðneska líf.

Ég er að fara að stíga yfir mjög erfiðan þröskuld nk. fimmtudag,  en þá er ég að fljúga í fyrsta skiptið til Danmerkur eftir dauðsfall dóttur minnar.   Síðast þegar ég kom var ég að fara beint á spítalann til hennar,  en það var 20. desember sl.  Þarsíðast þegar ég kom,  í lok nóvember 2012,  tók hún „surprise“  á móti mér á flugvellinum.  Við féllumst í faðma og grétum.

Nú er ég í fyrsta skiptið að koma og hún er ekki þar,  en ég er að heimsækja börnin hennar.   Tilfinningin er blendin,  tilhlökkun að sjá börnin er mjög mikil,  en tómleikinn verður mikill að hafa hana ekki þar líka, og ALLT minnir á það sem var og þá tíma sem við áttum saman í Hornslet,  heimabæ þeirra.

Ég er ekki að fara í fyrsta skiptið til Hornslet eftir dauðann,  svo sá þröskuldur er þegar yfirstiginn,  við Elisabeth Mai,  þriggja ára skottan, sem er lifandi eftirmynd mömmu sinnar,  fengum okkur göngutúr – þegar við fórum yfir lestarteinana varaði hún mig við og sagði að við yrðum að passa okkur að lestin keyrði ekki á okkur,  því þá yrðum við englar eins og mamma hennar.

Það var svo skrítið að hitta hana og Ísak Mána í fyrsta skiptið eftir á,  við lifum nefnilega í fólkinu í kringum okkur,  foreldrar lifa í börnum sínum og börn í foreldrum,  og við öll í hvert öðru,  því öll erum við eitt í raun.  Það er hægt að sjá börnin í frænkum og frændum líka og frænkur og frændur í börnum.    Ég horfði á litlu Elisabeth Mai og sá í raun mömmu hennar á hennar aldri, að sama skapi sagði hún: „Jeg savner dig amma, og svo byrjuðu tárin að trilla og hún sagði „Jeg savner min mor“..

afneitun – reiði – sátt

reiði – sátt – afneitun

sátt – afneitun – reiði

Kannski minnkar skammturinn af sorginni hægt og rólega,  ég held að það sé það sem gerist.  Ég er svo „menntuð“  í þessum fræðum að ég er meðvituð,  ég hreinlega get horft á sjálfa mig utan frá,  og ég veit svona u.þ.b. allt sem skiptir máli varðandi sátt og sorgarferli,  og sorgarferlið er vissulega þroskaferli þó þetta sé þroski sem ég hefði kosið að öðlast á allt annan máta.

Bikarinn er allt of beiskur og ég er bara mennsk.

Og hversu menntuð eða reynslurík sem við erum og kunnum mikið af aðferðum við að komast í jafnvægi,  þá sleppum við ekki við sorgina,  henni verður ekki ýtt til hliðar eða hlaupið frá henni,  því það er um leið flóttinn frá sjálfum sér.  Sorgin er núna hluti af sjálfri mér,  um leið og sáttin er hluti af sjálfri mér.

Við förum í gegnum þetta,  flýjum ekki eða förum framhjá.  Það eru þröskuldarnir sem við yfirstígum,  komumst lengra og lengra,  en bara á okkar tíma og okkar hraða og þegar við erum sjálf tilbúin.

En nei,  ég er ekki búin að jafna mig.

Í lok þessa pistils ætla ég að gera það sem ég geri á hverjum degi í huga mínum.   þakka fyrir veitta vináttu vinanna og samstarfsfólks,  þakka börnin mín Völu og Tobba,  þakka barnabörnin,  þakka fjölskylduna mína, systkini mín, þakka fyrir manninn minn,  Jón Friðrik – því að stuðningur hans og elska er mér ómetanleg í þessu sem öðru sem á móti okkur blæs,   og síðast en ekki síst að þakka Evu Lind fyrir allt það sem hún kenndi mér með lífi sínu og gerir enn.

Lifum af heilu hjarta.

WEBBizCardFront

4 hugrenningar um “Sorg … afneitun – reiði – sátt

  1. Þakka þér Jóhanna fyrir að gefa svona mikið og fallega af þér. Þessi pistill snart mig djúpt. Svo sterkur og sannur. Megi allar góðar vættir umfaðma þig í Danmerkurferðinni og alla daga. Þú ert demantur.

  2. Þú munt elsku Jóhanna mín yfirstíga stóra þröskuldinn á morgun síðan tekur þú hina alla sem koma á eftir einn í einu, þú ert svo sterk en það dugar ekki alltaf en eitt vitum við ljúfust mín að sárin gróa og eftir verða minningarnar, það sem er svo gott við þær er að engin getur tekið þær frá okkur.
    Mér þykir afar vænt um þig og þess vegna ert þú í mínum bænum alla daga.
    Góða ferð ljúfust og vertu meðvituð um alla englana sem verða með þér í ferðinni

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s