Ef þú ert komin/n í hættulega yfirþyngd og læknirinn þinn er búinn að vara þig við rjómatertum en þú sækir samt í þær hvað segir það þér? …
Ef þú ert orðin/n veik/ur í lungum og læknirinn búinn að vara þig við reykingum en þú reykir samt hvað segir það þér?
Ef þú ert í sambandi með einstakling sem beitir þig ofbeldi, hvort sem er andlegu eða líkamlegu en sækir samt í viðkomandi einstakling hvað segir það þér?
Ertu stjórnandi í eigin lífi, eða er það rjómatertan, sígarettan eða önnur manneskja?
Veistu hvað þú vilt og veistu hvað þú vilt ekki, hvaðan kemur mótstaðan við að vera og gera það sem þú vilt?
Starf mitt í Lausninni hefur byggst m.a. á ofangreindum spurningum, námskeiðin „Í kjörþyngd með kærleika“ – „Lausn eftir skilnað“ – hópavinna og einstaklingsviðtöl.
Af hverju geri ég ekki eins og ég vil? – Kannski veit ég ekki hvað ég vil, eða einhver annar er að segja mér hvað ég vil? ..
Einstaklingur með brotna eða jafnvel týnda sjálfsmynd veit ekki endilega hvað hann vill.
Við getum verið „misþroska“ hvað þetta varðar.
Við getum tekið dæmi um flotta framakonu sem virkar sterk og sjálfsörugg í starfi, en er í raun afskaplega lítil innra með sér, er bara eins og lítil týnd stelpa.
Aðferðin er m.a. að hin þroskaða kona mæti litlu stelpunni og leiði hana út úr þeim aðstæðum þar sem hún er föst, þar sem hún er föst sem ósjálfstæð og stjórnlaus hvað eigin líf varðar.
Sjálfsvirðing – sjálfstraust – sjálfsást – sjálfsþakklæti – sjálfsfyrirgefning eru lykilorð í því að ná inn í sjálfið sitt.
Athygli er annað lykilorð, þ.e.a.s. að veita sjálfum/sjálfri sér athygli og spyrja sig spurninga –
„Af hverju geri ég það sem ég geri, þó það þjóni mér ekki“ ..
Sumt getur þjónað í skamman tíma;
Marengstertan er góð – akkúrat meðan marengsinn er að bráðna í munninum.
Sígarettan er góð – akkúrat á meðan verið er að reykja hana (held ég).
(Rangur) maki getur veitt þér eitthvað sem þig vantar tímabundið.
En allt ofantalið má flokka undan „skammgóðan vermi“ – eins og að missa piss í skóna. Fljótlega fer að kólna.