Ég hlustaði á svo góðan fyrirlestur hjá Sigursteini Mássyni fyrir nokkrum árum, þegar hann var formaður Geðhjálpar.
Þá talaði hann um þessi gömlu gildi sem teljast að miklu leyti útrunnin í dag, eins og „að bera ekki tilfinningar sínar á torg.“
Fólk átti bara að hafa tilfinningar sínar heima hjá sér og helst bíta á jaxlinn og bera harm sinn í hljóði.
Reynslan hefur sýnt að það að bera harm sinn í hljóði þýðir ekki að harmurinn láti sig hverfa, eða að því fólki líði betur. Reynslan er að harmurinn og tilfinningarnar sitja fastar og loka á svo margt. E.t.v. á hjartað og það er vont að lifa með lokað hjarta. Um það skrifaði ég greinina „Að koma út úr skrápnum“ – því málið er að skrápurinn eða skjöldurinn sem er fyrir hjartanu verður þungur og oft óbærilegur (óberandi). –
Leyfum okkur því að bera tilfinningarnar á torg. Deilum sorginni – deiling er eins og í stærðfræði hún gerir minna.
Sigursteinn Másson þekkti mikilvægi þess að hætta að halda á lofti frösum eins og að bera ekki tilfinningar sínar á torg, það var vegna þess að það þýðir það sama og að bæla inni og bæling er vond og skaðleg heilsu, bæði andlegri og líkamlegri. Við erum gerð fyrir flæði og útrás. Það þarf líka hugrekki til „bera sig“ sýna sig nakinn tilfinningalega en við eigum ekki að þurfa að hafa neitt að fela. Það er eitt af leyndarmálum lífshamingjunnar að hafa ekki leyndarmál.
Ef okkur hefur verið innprentað að bæla tilfinningar, finna þær ekki þegar þær koma er hættan sú að deyfa þær eða bæla – en við finnum að við höfum þörf fyrir eitthvað en vitum ekki hvað.
Það þarf hugrekki til að ganga inn í erfiðar tilfinningar, við eigum það til að svæfa þær eða deyfa með neyslu, fá okkur tvo bjóra, rauðvínsglas, of mikið af mat. En málið er að það skilar okkur ekki hamingjusömum.
Til að geta upplifað hamingju, gleði, ást – þá þurfum við líka að hafa hugrekki til að ganga inn í andstæðuna; óhamingju, sorg, reiði o.s.frv. Það er það sem það þýðir að vera tilfinningavera.
Að fara inn í sorgarferli krefst því hugrekkis. Einu sinni las ég grein þar sem var talað um að fólki væri gefið lyf við sorg. Það er ekki lækning, aðeins deyfing.
Hugrekki – er þá þor til að takast á við tilfinningarnar, horfast í augu við þær, vera sýnilegur þeim og fólki út á við. Jafnvel bera þær á torg, sem þótti mikið tabú hér áður.
Við höfum sem betur fer þroskast og vitum betur núna.
Myndin sem fylgir er mögnuð. Svo hugleiði ég orðatiltækið ,,að bera sig“ versus berskjalda sig sem mér hugnast betur í dag og skilar árangri á hverjum einasta degi …