„Þetta er mér ekki bjóðandi“ ….

Karlkyns kennari gengur að kvenkyns samkennara sínum og fer að nudda á henni axlirnar,  hún frýs, rennur kalt vatn milli skinns og hörunds, líður ógeðslega illa og vonar að hann hætti sem fyrst, en…. hún segir ekkert.  Hún jafnvel kvartar ekki til yfirmanna.

Þetta gerist og það er ekki einsdæmi.  Stundum er þetta kennari og nemandi. Og vissulega er hægt að víxla kynjunum þarna líka, þótt eitt sé algengara en hitt. –  Jú, stundum er kvartað en ekki alltaf.

Það vakna margar spurningar.

Í þessu  dæmi sem ég set upp í upphafi. Af hverju leyfir karlinn sér þetta?   – Kannski finnst honum hann bara „næs?“ –  en þetta snýst í raun ekki hvað honum finnst. –  Þetta snýst um upplifun og tilfinningar konunnar. – En á móti er spurt af hverju virðir hún ekki sín mörk og sínar tilfinningar? –  Af hverju segir hún ekki neitt? –

Hana vantar sjálfstraust, hana vantar sjálfsvirðingu og ef til vill að elska sig nógu mikið til að segja upphátt  „Þetta er mér ekki bjóðandi“ – eða bara „Nei takk, sama og þegið ég vil þetta ekki.“ – eða eitthvað í þeim dúr. –

Ef hún segir aldrei neitt, – þá er mjög líklegt að karlinn haldi að henni þyki þetta bara „næs“ eins og hann upphaflega hélt.  Nú kannski hefur hann áhuga fyrir þessari konu og gengur á lagið? –  (Auðvitað vond nálgun, en kannski kann hann ekki aðra leið). –

Ég er með þessari umfjöllun ekki að varpa ábyrgðinni á kynferðisáreitni á þolandann og langt í frá.

Aðeins að vekja athygli á mikilvægi þess að virða tilfinningar sínar, þora að tjá sig, þora að tala upphátt. –  Til þess þarf hugrekki – það þarf nefnilega hugrekki að játa að manni finnist eitthvað óþægilegt, að við séum ekki bara naglar sem sé sama þó að ókunnar hendur fari að nudda á okkur axlirnar.  Við erum kannski hræddar við að vera álitnar teprur eða of viðkvæmar. – En þá erum við heldur ekki að virða það sem við erum.

Styrkleikinn liggur í að viðurkenna viðkvæmnina, að viðurkenna að okkur finnst eitthvað óþægilegt og segja það upphátt. – Ekki láta bjóða sér upp á það sem okkur finnst vont og óþægilegt – og það er ekkert til að skammast sín fyrir að segja „Nei takk“ ekki frekar en að segja „nei takk“  við hákarli eða lifur eða hverju því sem okkur finnst bragðvont. –  Ef við virtum nú ekki bragðlaukana okkar, og myndum pína okkur til að borða það sem hinir réttu að okkur,  einungis til að geðjast þeim, láta ekki vita að okkur þætti þetta vont, myndi okkur ekki þykja við klikk? –   Svona göngum við á okkur sjálf og sjálfsvirðingu okkar, og við förum að safna skömm. – Eins og ég hef skrifað um annars staðar er skömmin krabbamein sálarinnar og hún lagast helst við að tjá sig um hana, eða það sem veldur henni,  sé talað.  Tjáningin er því líka lækning þar. –  Skömmin er svo vond tilfinning að hún lætur okkur skammast okkar fyrir okkur sjálf, það er í grófum dráttum munur á sektarkennd og skömm.  Sektarkennd = ég skammast mín fyrir það sem ég gerði.  Skömm = ég skammast mín fyrir það sem ég er.

Því miður elur samfélagið á þessari skömm þegar það gefur ákveðin skilaboð um hvernig við eigum að vera og hvernig ekki. „Við eigum að vera sterk og ekki bera tilfinningar á torg.“  „Bíta á jaxlinn“  o.s.frv. –

Það er enginn að tala um að við eigum að standa vælandi niðrá torgi, en við eigum að geta talað um tilfinningar okkar alltaf þegar við þurfum á því að halda.  Þegar okkur er mál.    Annars verðum við veik, vond o.s.frv. og það skapast vítahringur.  –

Við þurfum að hjálpa börnunum okkar að virða sínar tilfinningar, þekkja inn á þær og leyfa þeim að tala.  Ekki gera lítið úr þeirra tilfinningum,  þær eru sannar. –  Ekki segja „þér finnst þetta ekki vont“ – þegar barnið segir „mér finnst þetta vont“ …   Þá kennum við því að virða ekki tilfinningar sínar og það fer að efast.

Konan í upphafi sögunnar lærði það í bernsku að virða ekki sínar tilfinningar, það væri jafnvel hallærislegt eða sýndi að hún væri of viðkvæm.

Virðum okkar mörk – svo aðrir virði þau líka. –

Elskum okkur, virðum okkur og treystum okkur svo aðrir geti elskað okkur, virt og treyst. –  

Það er ekki bara eitthvað sem er sniðugt að gera, eða góð hugmynd að prófa að reyna að elska sig,  það er nauðsynlegt fyrir farsæld og hamingju hverrar manneskju að gefa ekki afslátt af sjálfri sér,  þ.e.a.s. af tilfinningum sínum, virðingu eða trausti. –

Allt sem ég fjalla um hér að ofan, gildir fyrir karlmenn sem konur, – að virða tilfinningar sínar. –  Gildir líka í öðrum samskiptum þar sem á okkur er gengið, – að setja okkar mörk og yrða þau upphátt við þá sem í kringum eru. –

Þú átt alla þína elsku skilið – leyfðu þér að trúa því! –

Blái Ópallinn söng „Stattu upp fyrir sjálfum þér“ –  það er nákvæmlega sem við þurfum að gera, – og standa svo með sjálfum okkur og virða. –

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s