Þeim sem líður vel, eru sátt, glöð, hamingjusöm, fullnægð – með sig og sitt, hafa ENGA ástæðu til að beita ofbeldi.
Þeir sem leggja aðra í einelti, hljóta að vera tómir, leiðir, óöryggir – vegna þess að það að ráðast á eða leggjast á aðra manneskju fyllir upp i eitthvað sem þá vantar.
Dæmi eru til að þeir sem taka þátt í einelti geri það til að beina athyglina frá sjálfum sér svo að þeir verði sjálfir ekki lagðir í einelti.
Það þarf mikinn styrk, – sjálfsstyrk og sjálfsvirðingu til að beita EKKI ofbeldi eða geta sleppt því að gagnrýna eða setja út á annað fólk.
„Vá hvað þessi er feit“ .. raunverulega er sagt „sjáðu hvað ég er mjó“ ….
Ef þú lemur aðra, hæðir eða níðir þá ertu ósátt/ur við sjálfa/n þig.
Sá sem er sterkastur beitir ekki ofbeldi, hvorki líkamlegu né andlegu, hvorki orða né þagnar.
Ofbeldi er í raun vanmáttur og ekkert okkar er algjörlega laust við að beita ofbeldi, þó við áttum okkur ekkert endilega alltaf á því að við séum að gera það.
Hinar ljúfustu mæður beita ofbeldi – og traustustu feður beita ofbeldi, yfirleitt vegna vankunnáttu í samskiptum eða eigin vanmáttar.
Ofbeldi er keðjuverkandi. Pabbi er leiðinlegur við mömmu, mamma við barnið. Eða mamma við pabba, pabbi við barnið. Skiptir ekki alveg máli hvaða leið, en þarna eru sömu lögmál og við ástina og kærleikann, – ef að einhver veitir þér kærleika ertu líklegri til að veita honum áfram.
Þegar við upplifum skömm vegna einhvers, okkur líður illa, við höfum leyft einhverjum að komast undir skinnið okkar og særa okkur, við upplifum okkur einskis virði, þá kemur það oftar en ekki fram á kolröngum stöðum, – jafnvel gagnvart saklausum símasölumanni sem slysaðist til að hringja í númerið þitt þó það væri merkt með rauðu.
Þegar rætt er um ofbeldi (og í raun hvað sem er) er alltaf gott að í staðinn fyrir að horfa út fyrir og benda á alla sem eru ómögulegir og eru að beita ofbeldi og leggja í einelti, að horfa inn á við og spyrja sig:
„Hvaða ofbeldi er ég að beita?“ …
Við verðum að sjá sársauka okkar til að gera breytingar, viðurkenna þennan vanmátt.
Lausnin er að fara í gang með enn eitt námskeiðið „Lausn eftir skilnað“ – í þetta sinn fyrir konur, en vonandi hægt að setja upp karlanámskeið með haustinu.
Þessi pistill yrði allt of langur ef ég færi út í að segja frá allri þeirri vanlíðan og öllum þeim vondu og sársaukafullu tilfinningum sem kvikna við skilnað, hvort sem skilið var „í góðu“ eða illu. – Vanlíðan leiðir oftar en ekki af sér hegðun sem við erum ekkert endilega stolt af, hegðun gagnvart maka, og þá bitnar það á þeim sem síst skyldi – börnunum.
Ég leyfi mér að fullyrða að flestir foreldrar beiti börn sín ofbeldi einhvern tímann í skilnaðarferlinu. – Ofbeldi með orðum í flestum tilfellum.
Reiðin, jafnvel hatur gagnvart fyrrverandi er því ráðandi afl, og allt gengur út á það að hann/eða hún megi ekki vera hamingjusamur eða söm, ef þú ert það ekki. Þá eru settar hindranir, truflanir og alls konar töfrabrögð sett í gang.
Töfrabrögð og truflanir sem oftar en ekki bitna á börnunum, og auðvitað bitna þessir hlutir á þér sjálfri/sjálfum, það eru auðvitað heldur ekki alltaf börn í spilinu, því að reyna að særa eða meiða aðra eða gera þeim lífið erfitt verður manni sjálfum aldrei til framdráttar.
Sjálfsvirðing er lykilorð í þessu, – því það er gott að geta horft til baka eftir skilnað og hugsað; „Mikið er ég fegin að ég fór ekki út í þennan slag, eða niður á þennan „level“ ..
Nú er ég búin að skrifa þetta hér að ofan, en minni þá um leið á það, enn og aftur að við erum mennsk, og særð manneskja hefur tilhneygingu til að særa aðrar manneskjur, eins og sú sem er full af ást hefur tilhneygingu til að elska aðrar manneskjur.
Fyrirgefðu þér ef þú hefur misst þig, öskrað, sagt ósæmilega hluti sem voru þér ekki samboðnir, – en gerðu þér ljóst að það er ekki fyrr en að ásökunarleiknum „the blaming game“ lýkur og þú viðurkennir vanmátt þinn og veikleika að þú ferð að upplifa upprisu sálar þinnar og getur farið að finna fyrir bata í lífi þínu.
ELSKAÐU ÞIG nógu mikið til að sleppa tökunum á því sem færir þér aðeins óhamingju.
Lifðu ÞÍNU lífi ekki annarra.
Hægt er að skrá sig á námskeiðið „Lausn eftir skilnað“ á http://www.lausnin.is – einnig minni ég á námskeiðið „Í kjörþyngd með kærleika“ sem hefst 13. apríl nk. og vinnur í raun með sömu lögmál, því að halda í fyrrverandi maka eða rangan maka er eins og að halda í mat sem er manni óhollur.
Ath. Það að segja „Ég elska mig“ hefur ekkert með egóisma eða sjálfsupphafningu að gera, – aðeins það að viðurkenna að við erum okkar eigin elsku verð og það er forsenda fyrir því að geta elskað aðra á jafningjagrundvelli.
Við erum hvorki meiri né minni en næsta manneskja og „samanburður er helvíti“ eins og Auður jógakennari komst svo skemmtilega að orði akkúrat þegar ég var í hópi liðugra kvenna og var með móral vegna, eigin stirðleika 😉 ..
Fókusinn minn var þá líka týndur, ég átti ekkert að vera að pæla í hvað hinar gátu eða hvernig þær voru heldur bara að vinna í að styrkja minn líkama og innri konu, það er víst trixið á svo mörgum stöðum.
Ef við erum tætt útum allt – með hugann í öllu hinu fólkinu þá komumst við seint heim til okkar sjálfra.
En þú veist að þú ert sá/sú sem á hægust heimatökin við að bjóða þér heim til þín sjálfs/sjálfrar.