Fyrirgefning og foreldrar ..

Mér hefur ekki reynst erfitt að fyrirgefa í gegnum árin, þó að örli stundum í langrækni sporðdrekans í mér.

Það sem særir mig allra mest í framkomu fólks er þegar hún bitnar á þeim sem minna mega sín, þegar hún bitnar á börnum sem eru varnarlaus og stundum erum við að ræða hér framkomu foreldra við börn.

Foreldrar hafa svo mikið vald og svo lengi fram eftir aldri trúum við að mamma og pabbi séu óskeikul. Því vigta öll brot foreldris gegn barni margfalt á við það sem aðrir gera á hlut þess. Það hefur meiri áhrif og virkar oft sem „forritun“ til framtíðar.

Tilfinningar eins og höfnun og skömm ná oft að festa rætur hjá ungum börnum og fullorðið fólk er að glíma við þetta allt lífið í gegn og tekur þær með sér í sambönd, í hjónabandið og e.t.v. í samskipti í vinnu.

Óöryggið og vanlíðan er stundum „home-made“

Því miður.

En hvað gerum við í þessu?

Ef þú ert foreldri þá er að líta í eigin barm,  skoða hvort að eitthvað af þínum orðum, verkum, hegðun er niðurbrjótandi,  hvort að þú mögulega stundir ofbeldi í stað uppeldis.  Hvað segir barnið þitt? –  Hlustar þú á það?

Ef þú færð samviskubit af þessum lestri þá dokaðu við.  Samviskubit er hvorki gott þér né öðrum.  Það sem við gerum þegar við uppgötvum vankunnáttu, misktök eða að við vorum bara að nota sömu „uppeldis“ aðferðir og foreldrarnir,  stundum án þess að vilja það og við höfðum jafnvel lofað okkur að gera það aldrei,  er að við förum að gera öðru vís héðan í frá.  Við getum ekki breytt fortíð.

Fyrirgefningin er því til okkar sjálfra sem foreldra,  við fyrirgefum okkur vegna þess að við kunnum ekki betur eða vissum ekki betur, en þegar við vitum betur og sjáum hvað er rétt og hvað er rangt er tækifæri komið til að breyta.  Ekki halda áfram því sem byggir ekki upp, ekki halda áfram meðvirkni með barni á þann hátt að þú takir frá því þroska þess eða ofdekrir.  Það er ofbeldi líka og skemmir samskiptahæfni barns til framtíðar og hæfni til sjálfsbjargar.

Ef þú áttar þig á því að foreldrar þínir hafi ekki alltaf kunnað, hafi sagt og/eða gert hluti sem valda því að í dag ertu óörugg manneskja, týnd, upplifir oft höfnun – eða sektarkennd,  svona til að nefna dæmi,  þýðir það ekki að þú elskir ekki foreldra þína, ekkert öðruvísi en að þú elskar börnin þín.  Þú þarft bara að sjá og viðurkenna ef það var eitthvað sem var vont og særandi og tók þig úr náttúrulegum farvegi barnssálarinn sem er alltaf frjáls og þarf ekki að aðlaga sig og tipla á tánum eftir dyntum mishæfra foreldra.

Þegar við skoðum fortíð er það ekki til að dæma heldur til að skilja af hverju hlutirnir eru eins og þeir eru, af hverju við erum eins og við erum og af hverju við bregðumst við eins og við gerum.  Við þurfum að „grafa“ svolítið til að geta breyst.  Það þurfa ekki að hafa verið nein áfölll, fjölskyldan getur hafa verið nokkuð „normal“ svona útávið.  En í fæstum fjölskyldum hefur allt verið fullkomið og óaðfinnanlegt.

Við erum ekki að dæma, aðeins skilja.

Svo það þarf líka að fyrirgefa foreldrum ef þeir hafa sýnt einhverja vankunnáttu – vegna þess að þeir notuðu það sem fyrir þeim var haft.

Það sem við gerum með að læra og breyta öðruvísi er að rjúfa keðjuverkun.

Margir eiga oft í mesta strögglinu við að fyrirgefa sjálfum sér.  Það er vegna þess að einhvers staðar (eflaust í bernsku og svo er því stundum viðhaldið af vankunnandi maka, af fjölskyldu,  eða af samfélaginu í heild) að þeir séu ekkert endilega fyrirgefningarinnar virði? –

En hvað sagði ég í upphafi pistilsins?

„Það sem særir mig allra mest í framkomu fólks er þegar hún bitnar á þeim sem minna mega sín, þegar hún bitnar á börnum sem eru varnarlaus og stundum erum við að ræða hér framkomu foreldra við börn.“

Einhvers staðar þarna innra með þér er barn sem þarfnast fyrirgefningar þinnar,  ekki láta þína eigin framkomu bitna á þessu barni, því í raun er það varnarlaust gagnvart þessum fullorðna aðila sem þú ert orðin/n.

Láttu þér umhugað um barnið innra með þér – og hættu að brjóta það niður.

Fyrirgefning er lykill og friðurinn fæst með fyrirgefningunni.

Auðmýkt, heiðarleiki og einlægni er síðan undirstaðan sem síðan er byggt á.

1012212_10151602313439247_1396616360_n

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s