Þegar ég fór að lesa um meðvirkni og læra, var einn af fyrstu lærdómunum að fara að elska sjálfa mig og meta skilyrðislaust. Að sjálfsögðu kom annað fólk í framhaldi af því.
Án allra merkimiða, stöðu, stéttar, kyns, kynþáttar, kynhneigðar, útlits, fjölskyldu, maka o.s.frv. –
Í bókinni „Facing Codependence“ er talað um „Self-esteem“ og „Other-esteem“ – en við erum að mestu að byggja á þessu „Other“ dags daglega.
Sjálf-svirðing – sjálfs-traust eða utanaðkomandi -virðing, utanaðkomandi- traust.
Hvað ég ég án titils – stöðu, stéttar, atvinnu o.s.frv. –
Hvað er ég ef ég stend eftir ein, nakin og allslaus? Með ekkert utanaðkomandi? Er ég einhvers virði?
„Að sjálfsögðu“ myndu margir segja, en það eru samt önnur skilaboð sem samfélagið sendir oft og virðingin vill oft hanga á merkimiðunum – og ríkidæmið líka. Við erum rík ef við eigum hús og bíl, fallegan maka og börn.
Hvað með þau sem eiga ekki neitt og ekki heldur börn. Eru þau fátæk?
Konungsríki Guðs er innra með þér. Það fæðast allir jafn ríkir og haldast allir jafn ríkir, allt sem kemur að utan er að láni, eitthvað sem við höfum meðan við lifum þessari jarðvist, meira að segja „hylkið“ okkar, líkaminn er fenginn að láni.
Við erum sálir – og sálin er konungsríkið.
❤
Í guðfræðideildinni las ég um mann sem hét Job. Sagan er frekar ljót í raun þar sem Guð og Djöfullinn eru að veðja sín á milli hvort að Job muni formæla Guði. .
Job var talinn réttlátur maður og Job gerði allt rétt, Job átti fjölskyldu, hús, akur o.s.frv. og taldi blessun sína vera m.a. þá að hann var trúrækinn.
En í stuttu máli þá missti Job allt sem verðmæti hans og hamingja byggðist á, fjölskylduna, heimilið, heilsuna og meira að segja útlitið því hann var alsettur kaunum.
Job fór í gegnum alls konar ferli, með vinum sínum og með sjálfum sér, en þessi var hans lokaniðurstaða:
„Ég þekkti þig af afspurn en nú hefur auga mitt litið þig.“ (Job 42.5)
Hann sá ekki Guð fyrr en allt var tekið burtu.
En þurfum við að missa allt til að sjá Guð? –
Nei, við þurfum bara að líta í spegil – horfast í augu við sjálf okkur, djúpt, djúpt og þakka fyrir. Horfa inn í sálina og sjá konungsríkið sem er þar.
Trúa. og sjá.
Skáldið Rumi er í miklu uppáhaldi hjá mér og ég sá skilaboð á sivpuðum nótum frá honum, bara núna í morgun.
I Lost Everything,
I Have Found Myself.
Þetta þýðir ekki að við getum ekki fundið okkur sjálf, eða komið heim til okkar sjálfra – nema að missa allt hið ytra. En til þess þarf skilning á að við erum ekki líkami, við erum ekki hið ytra.
Við erum sál.
Mjög verðmæt sál.
Við þurfum ekki að leita langt yfir skammt að verðmæti okkar og ríkidæmi.
Líkami okkar þjónar sálinni og það er okkar að fara vel með þennan þjón, tala fallega til hans og aldrei, aldrei kalla hann ljótan eða fara styggðaryrðum um hann. Ekki fremur en við værum að tala við annað fólk. „Sæl vinkona mín ertu með ljótuna í dag“? – „Voðalega ertu eitthvað hrukkótt“? – „Viðbjóðslegt þetta spik á þér“? –
Hvernig líður okkur eftir svona tal ? –
Sjálfs-ást og virðing er lykill að farsæld – og síðasti lykillinn á kippunni er lykill þakklætis. Þakklætis fyrir það sem við erum, jafnvel þó það sé aðeins þessi sál og ekkert annað.
Hugsanir eru trú – „Thoughts are belief“ – Hverju trúir þú um þig? –
Ef þú trúir ekki að þú sért yndisleg sál – með fullt af tilgangi – tilgangi sem er gleði – gleðina sem vex dag frá degi þegar við þökkum tilveru sálarinnar og við þökkum allt hið smáa, eins og kom fram í pistlinum hér á undan.
Ef þú trúir ekki á þig og guðsríkið hið innra með þér – getur verið að þú þurfir að skipta út hugsunum þínum um þig – að þú þurfir að skipta um trú? –
Ef aðeins þú sæir verðmæti þitt og fegurð með augum þessa máttar – þessarar orku og uppsprettu alls, sem sum okkar kalla Guð, þá er óþarfi að missa nokkurn skapaðan og óskapaðan hlut úr lífinu – þá nærðu að sjá.
Takk fyrir að lesa verðmæta sál.
Já þú ❤
:):)