Þessi pistill heitir á frummálinu:
„The split-level relationship“ og er eftir Steve Hauptman
Hér eru tvær spurningar sem við glímum við ef við viljum vera í heilbrigðu sambandi.
Hvernig get ég fengið þig án þess að týna mér?
Hvernig get ég fengið mig án þess að týna þér?
Þessum spurningum er ekki auðsvarað, en það er hægt að glíma við þær.
En það er glíman sem skiptir máli.
Af hverju?
Vegna þess að hún framkallar grunnþarfir þess sem við höfum fram að færa í hvaða sambandi sem er.
Samband (connection) og frelsi.
Samþykki annarrar persónu og að samþykkja sjálfa/n sig.
Heilan og raunverulegan maka, og á sama tíma, heila/n og raunverulega/n þig.
Tvo raunverulega og heila einstaklinga.
Flestir sem höfundur þekkir eru sannfærðir um að ekki sé hægt að vera heil (þau sjálf) bæði á sama tíma.
Flestir eru úr fjölskyldum – sem hafa alkóhólískt – eða ofbeldistengt mynstur eða eru á annan hátt vanvirkar – og hafa þar af leiðandi ekki haft möguleikann á að finna jafnvægið milli þess að vera í sambandi og vera frjáls.
Það sem þau lærðu var að hafa eitt þýddi að missa hitt. Annað hvort var það samband eða frelsi.
Það að ávinna sér ást og samþykki foreldra, til dæmis, þýddi það að fórna mikilvægum hlutum í lífi þeirra sjálfra, eins og frelsinu við að tjá sig frjálslega eða að sinna eigin þörfum.
Það er í fjölskyldunni sem við ólumst upp sem hvert okkar lærði sitt persónulega svar við þessum tveimur spurningum.
Hvernig get ég fengið þig án þess að týna mér?
Hvernig get ég fengið mig án þess að týna þér?
Og svarið sem við tileinkuðum okkur varð að mikilvægum (þó að mestu ómeðvituðu) hluta grunnviðhorfa okkar til lífsins og sambanda okkar, það sem höfundur kallar – okkar Plan A.
Sumir taka ákvörðun, „Þar sem ég get ekki haft okkur bæði, ætla ég að hafa MIG, og til fjandans með ÞIG“ – sálfræðingar kalla þetta hið sjálfhverfa svar (The narcissistic answer.)
Önnur ákveða, „Þar sem ég get ekki haft okkur bæði, ætla ég að haf ÞIG, og til fjandans með MIG“ – sem er hið „margfræga“ meðvirka svar.
Þá segir hinn sjálfhverfi maki „ÉG fyrst,“ og hinn meðvirki svarar, „Já, elskan.“
Og þessar tvær persónugerðir enda saman með ótrúlega reglulegu millibili.
Þegar fylgst er með samskiptum þessa pars, kemur á óvart hversu fyrirsjáanleg samskiptin eru. Í öllum aðstæðum finnur sjálfhverfi einstaklingurinn einhverja leið til þess að segja: „Ég fyrst/ur,“ og hinn meðvirki svarar „Já, elskan.“ Það er eins og þessir aðilar hafi sest niður fyrir langa löngu og skrifað undir samning um að gera þetta svona.
Sem þeir að hluta til gerðu.
Það hvernig þau svöruðu þessum tveimur spurningum hér að ofan, eru að stærstum hluta ástæðan fyrir að þau löðuðust hvort að öðru.
Höfundur segir að flest pör sem leita ráðgjafar hjá honum fylgi þessu mynstri – svo mörg að hann ákvað að gefa þessu parasambandi nafn.
Hann kallar það „split-level relationship“ – við gætum kallað það „samband á aðskildu plani“ – eins og að par búi í pallaraðhúsi og annar aðilinn sé alltaf skör neðar en hinn.
Þessi sambönd á aðskildu plani ganga um tíma, en brotna yfirleitt alltaf upp. Á einhverjum tímapunkti áttar annað hvort annar aðilinn eða báðir að þeir eru ekki að fá það sem þeir þarfnast úr sambandinu.
Hin meðvirku taka yfirleitt eftir því fyrst. Þegar þessi maki er kvenkyns getur þetta leitt til þess sem höfundur kalla „The Walk-Away Wife“ – „Eiginkonan sem gengur burt.“ – Ég mun skrifa sérstaklega um það síðar.
En hin sjálfhverfu hafa tilhneygingu til að vera óhamingjösum líka. Þau kvarta um einmanaleika, skort á nánd við hinn meðvirka maka, eða skort á virðingu og umhyggju. Þau geta upplifað óþolinmæði, eirðarleysi, pirring, gremju. Stundum neyta þau áfengis, eiturlyfja, ofnota mat, lifa í reiði eða halda framhjá, og líður svo illa með það.
Allt þetta á sér stað vegna þess að þessi sambönd á misjöfnu plani eru ófrávíkjanlega óheilbrigð.
Kunnugleg, vissulega. Jafnvel þægileg, að því leyti að fólk veit hvað það hefur. (Öryggistilfinningin).
En þessi sambönd eru ekki heilbrigð. Þessi svör sem mynda ójafnvægi og samböndin á misjöfnu plani eru byggð á geta ekki uppfyllt tilfinningaþörf tveggja fullorðinna einstaklinga. Og það endar með því að báðir aðilar upplifa sig svikin, án þess að skilja hvers vegna.
Hvernig er batinn hjá svona pari?
Þá er hlutverkum víxlað.
Hinn meðvirki einstaklingur verður að þróa með sér hugrekki og æfa sig í að standa upp fyrir sjálfum sér.
Hinn sjálfhverfi verður að þróa með sér samhug og æfa sig í að stíga niður, æfa sig í að gefa í stað þess að heimta.
Auðvelt? Nei. Fyrir hvorugt þeirra er þetta auðvelt.
Aðeins nauðsynlegt til að vera á sama plani. (Búa á sömu hæð).
Þýðing – Jóhanna Magnúsdóttir – http://www.johannamagnusdottir.com