Ég las grein nýlega um samband hjónakornanna Angelínu og Brads, þar sem látið var að því liggja að þar væri komin yfirlýsing frá Brad um það hvernig hann bjargaði konu sinni þegar hún var orðin andlegt hrak, allt of horuð og sinnulaus, með því að baða hana í gjöfum, hrósi, láta alla vita hvað honum finndist hún æðisleg og greinin klykkti út með því að hún Angelína væri spegilmynd hans! – eða réttara sagt að konan væri spegilmynd mannsins síns. Hér er hægt að smella á greinina: Spegilmynd manns síns.
Þessi grein hljóðaði svona (með 1.7 þús læk á BLEIKT)
„Konan mín varð veik. Hún var sífellt á taugum annaðhvort vegna vandamála í vinnunni, sínu persónulega lífi, vegna misstaka sinna og barnanna. Hún tapaði 15 kílóum og var orðin aðeins 40 kíló. Hún varð horuð og grét án afláts. Hún var ekki hamingjusöm kona. Hún þjáðist vegna tíðra höfuðverkja, verkja fyrir hjartanu og klemmdum taugum í baki og í rifbeinum. Hún svaf ekki vel, var að sofna undir morgunn og varð fljótlega þreytt á daginn. Við vorum á barmi skilnaðar, fegurð hennar yfirgaf hana eitthvert, hún hafði mikla bauga og hætti að hugsa um sjálfa sig. Hún neitaði að fara í kvikmyndatökur og neitaði öllum hlutverkum sem henni buðust. Ég missti vonina og hugsaði sem svo að senn myndum við skilja […] En þá ákvað ég að gera eitthvað. Þrátt fyrir allt á ég fallegustu konu heims. Hún er átrúnaðargoð yfir meira en helming karla og kvenna í heiminum, og ég var sá maður sem naut þeirra forréttinda að sofna við hlið hennar og faðma hana. Ég byrjaði að baða hana í blómum, kossum og hrósum. Ég kom henni á óvart og gladdi hana hverja mínútu. Ég gaf henni fjölmargar gjafir og lifði aðeins fyrir hana eina. Ég talaði aðeins um hana opinberlega. Ég aðlagaði allar samræður og öll umræðuþemu að einhverju um hana. Ég hrósaði henni í návist vina sinna og í návist okkar sameiginlegu vina. Þú munt ekki trúa því, en hún blómstraði. Henni batnaði. Hún þyngdist, var ekki lengur á taugum og elskaði mig jafnvel meir en nokkru sinni fyrr. Ég hafði ekki hugmynd um að hún gæti elskað svo heitt.Og þá uppgötvaði ég einn hlut: konan er spegilmynd eiginmanns síns. Ef þú elskar hana af öllu hjarta, þá verður hún það.“
Hmm… Ég veit varla hvar ég ætti að byrja, en langar fyrst og fremst að vara við því að við hengjum ábyrgð á okkar (fullorðins) lífi á herðar maka okkar eða annars samferðafólks. „Make Me Happy“ .. Hvað ef að Brad félli frá, hvað sæi Angelína í speglinum? –
Það er eitthvað mikið skakkt við þessa hugmyndafræði og mér finnst hún ýta undir þessi eilífðarvæntingavandamál í samböndum. Þ.e.a.s. að leggja ábyrgðina á hamingju sinni og heilbrigði á herðar maka síns.
Það er engin/n að segja að það megi ekki hvetja og hrósa og gefa, en það á ekki að þurfa að hvíla 100% á makanum, eins og áður segir því þá er 0% eftir ef makinn fellur frá.
Samband samanstendur – eða á að samanstanda af tveimur 100% einstaklingum. Við minnkum ekki niður í 50% þegar við förum í samband.
Skoðum grein sem ég fann á síðunni Ascended Relationship í þessu samhengi:
Getur samband gert þig hamingjusama/n?
Ef þú ert ekki hamingjusöm/samur einhleyp, verður þú aldrei hamingjusöm/samur í sambandi. Að vænta annars, þýðir það að einhver önnur/annar á að gera þig hamingjusama/n, og þó að fólk geti vissulega stuðlað að hamingjutilfinningu þinni upp að einhverju marki, getur engin/n, og ekki á nokkurn máta – verið algjörlega (100%) ábyrg/ur fyrir þinni eigin hamingju.
Ef þú ferð inn í samband með þær væntingar að hin persónan geti gert þig hamingjusama/n eða gefið þér ástina sem þú heldur að þig vanti – setur þú í gang meðvirkt samband. Meðvirkni er eins og orku(blóð)suga og tekur frá okkur orku á mismunandi vegu.
Meðvirknin fer í gang þegar þú reynir að fá út úr einhverjum það sem þú telur þig ekki hafa.
Meðvirkni er í grunninn þannig að hún stafar af skorti á sjálfsást, að mistakast að upplifa sína eigin dýrð og sitt eigið verðmæti, sem leiðir til þess að þú þarft samþykki annarrar persónu, og vegna þess að þú þarfnast elsku annarrar manneskju til að sanna þitt sjálfs-virði (að þú sért verðmæt/ur) – verður þetta DRAMATÍSKUR leikur – þar sem þú ert að draga að þér eða soga út elsku, samþykki og viðurkenningu frá öðru fólki. „Elskaðu mig!!!
Ef sett á annað plan þá býður þetta upp á stjórnunarvandamál – og ákveðna „ráðsmennsku“ þar sem þú gerir hinn aðilann í sambandinu ábyrgan fyrir ÞINNI hamingju, þannig að undirmeðvitundin upplifir að þú sért að missa tök á eigin lífi (stuðlar að ósjálfstæði) svo það að þú farir að ráðskast með persónuna sem ber ábyrgð á þinni hamingju (þú ert búin/n að afhenda valdið) skapar auðvitað mikið drama.
Meiri hluti fólks telur að það sé einungis hamingjusamt ef það er í sambandi. Það er víst fjarri sannleikanum. Samband er ekki svarið við hamingju þinni, Annað fólk getur ekki „gert þig hamingjusama/n“ – einungis ÞÚ berð ábyrgð á hamingju þinni. Á þeirri stundu sem þú áttar þig á því að hamingjan kemur innan frá og að þú getir verið „happy“ einhleyp/ur – aðeins þá ertu tilbúin/n í heilbrigt, virkt og skemmtilegt samband.
Hamingjan er val, svo hættu að leita út fyrir sjálfa/n þig eftir hamingjunni. Veldu hamingjuna NÚNA – og þá munt þú senda frá þér þannig strauma sem munu laða að þér farsælt samband.
(Mæli með greininni „Hamingjuforskotið“ – en þar er sýnt fram á að það er hamingjan sem er forsenda árangurs – en ekki öfugt!). Hér fyrir neðan er mynd af bolla – á honum staðhæfingar, en til að trúa þessum staðhæfingum þurfum við stundum að aflæra gamalt forrit um okkur sjálf þar sem við í raun erum að staðhæfa hið gagnstæða, en það er það sem byrjaði að lærast í bernsku og við höldum við í meðvirku sambandi.
Ef þú ert sannfærð/ur um að þú sért yndisleg og verðmæt manneskja þá er mun líklegra að aðrir trúi því. – Hvaða skilaboð ert þú að gefa út í alheiminn?
Ef þú gefur út að þú sért einmana og þurfandi og einhver þurfi að fylla upp í þín skörð, þá vissulega kemur einhver riddari sem getur fyllt upp í skörðin – en þá skapast þetta ójafnvægi sem er akkúrat kjarninn í þessum meðvirku og ég kalla stundum „eitruðu“ samböndum. Samböndum sem litast af því að annar aðilinn eða báðir eru að biðja hinn um að fylla í skörðin en verða aldrei ánægð – vegna þess að ánægjan felst í því að ganga fjallið sjálf/ur og standa á toppnum ánægð með árangurinn, en ekki að láta bera sig heilu og hálfu leiðina.
Tveir aðilar – heilir – jafningjar – ganga hlið við hlið. E.t.v. þarf að styðja einstaka sinnum, en það er leiðinleg að þurfa að láta bera sig heilu og hálfu leiðina og sá/sú sem ber verður líka lúin/n og þreytt/ur.
Báðir aðilar verða óhamingjusamir og kenna hinum um. Arrrgg..
Horfðu í spegil – ef þú sérð BRAD ertu í meðvirku sambandi, þú átt að sjá ÞIG.
—-
Viltu læra/vita meira? – Sjáðu hvað er í boði hjá: http://www.lausnin.is
Sammála mörgum sem þú segir en ég vil meina að fólk sem gengur í gegnum veikindi á auðveldara með það ef það hefur stuðning maka. Mér finnst þú taka aðeins of djúpt í árina í þessari grein.
Takk Ragnhildur, – gott að fá þennan vinkil inn í umræðuna – greinin mín er í raun ákall um hjálp til sjálfsbjargar, – greinin sem ég er hins vegar að vitna í hljómar eins og Angelina hafi verið gjörsamlega ósjálfbjarga og ef ekki hefðu komið þessi lokaorð um að konan væri spegilmynd manns síns, hefði ég kannski trúað að þetta væri bara svona bréf um að koma konunni yfir erfiðasta hjallann í veikindum en síðan tæki hún við sem sjálfbjarga einstaklingur sem þyrfti ekki að Brad væri að láta fólk vita hvað honum þætti hún æðisleg, eða hvernig þetta hljómaði Það eru alltaf einhver mörk sem þarf að setja, hvenær erum við að hjálpa og hvenær erum við að ala á lærðu hjálparleysi einstaklingsins?
Ef við förum út fyrir þetta Brad/Angelinu dæmi, þá að sjálfsögðu styður fólk maka sinn í veikindum – og stendur með honum. En ef að veikindin læknast með hrósi, gjöfum, viðurkenningu annarra, – þá þarf að sjálfsögðu að skoða rót þeirra veikinda svo þau komi ekki upp aftur og annar aðili þurfi að standa í því að viðhalda „sjálfstrausti“ hins sem er þá reyndar ekki lengur sjálfstraust heldur er komin upp sú staða að vera háð því trausti sem hinn aðilinn hefur á manni.
Takk fyrir góða athugasemd
Með kveðju, Jóhanna
EG SE MIG:))EN A VAR EKKI ALLTAF ANNIG,:)
ann 1. gst 2013 21:27, skrifai johannamagnusdottir :
> ** > johannamagnusdottir posted: „g las grein nlega um samband > hjnakornanna Angelnu og Brads, ar sem lti var a v liggja a ar > vri komin yfirlsing fr Brad um a hvernig hann bjargai konu sinni > egar hn var orin andlegt hrak, allt of horu og sinnulaus, me v a > baa ha“
Bakvísun: Mest lesið á árinu 2013 | johannamagnusdottir