Ég segi stundum að það sé hægt að finna allt í mannlegri tilveru í Biblíunni, eða a.m.k. flest.
Sl. föstudagskvöld fékk ég góða gesti í matarboð og fórum við að ræða hvernig „leyndarmál“ breiddust út. – Einn gestur minn sem er reyndur stjórnandi sagði að ein besta leiðin til að breiða út fréttir væri að segja í litlum hópi, „ekki segja frá“ .. Þá sé hann viss um að orðið muni berast.
Svona virðumst við vera, – ef eitthvað er leyndó eða spennó, – þá langar okkur að láta það berast. En ef það væri ekki tekið fram – „ekki segja frá“ þá þætti okkur viðkomandi hlutur kannski ekki eins merkilegur? …
Þegar þessi umræða var í gangi, minntist ég einmitt á frásagnir Biblíunnar, þar sem Jesús var að gera kraftaverk, lækna mann og annan, og biður fólkið sem var viðstatt að segja ekki frá. – En þessar sögur væru nú varla í Biblíunni ef einhver hefði ekki sagt frá? 🙂
Lúkasarguðspjall 8:56
„Foreldrar hennar urðu frá sér numdir en Jesús bauð þeim aðsegja engum frá þessum atburði.“
„Leyndarmálin“ berast manna á milli, – það er svona hvísl í eyra vins eða vinkonu. „Þetta er sko leyndarmál – en mig langar að þú vitir þetta“… Það virðist þessi þörf fyrir að deila.
Sumu er nú líka bara allt í lagi að deila, – en öðru alls ekki.
Ráðgjafar, sálfræðingar – nú og prestar auðvitað sem mæta fólki í trúnaði hreinlega verða að sinna þagnarskyldu annars er þeim ekki treystandi. – Fólk verður að vita að það sé hægt að tala við einhvern um sín dýpstu leyndarmál án þess að það verði fréttaefni. Það er ákveðin lína sem er dregin þarna, og e.t.v. ákveðinn eðlismunur á því sem sagt er á fundi með nokkrum aðilum – eða sem sagt er í einstaklingsviðtali.
Það er auðvitað alltaf ákveðin áhætta fyrir fólk sem fer á „anonymus“ fundi sem tjáir sig frjálslega um sín mál, því þar kemur jú alls konar fólk. Og auðvitað er þar pottur brotinn, þekki sjálf dæmi frá slíku þó ég telji að í flestum tilfellum sé fólk ekki svo mikið að bera út frásagnir um náungannj og mest upptekið af sjálfu sér.
Þar sem ég vitnaði í Biblíuna áðan, er líka gaman að vitna í Hávamál:
Fregna og segja
skal fróðra hver,
sá er vill heitinn horskur.
Einn vita
né annar skal.
Þjóð veit, ef þrír eru.
Já, þjóð veit þá þrír vita, er orðatiltæki sem margir þekkja.
En lítum á leyndarmálin frá hinni hliðinni, – þ.e.a.s. hvort það sé eitthvað vit í því að halda hlutunum leyndum? – Eftir að hafa lesið ágætan pistil frá félagsráðgjafa og fyrirlesara sem kallast Brené Brown, skrifaði ég pistil upp eftir henni – og fyrirsögnin hjá mér var: „Leyndarmál lífshamingjunnar er að hafa engin leyndarmál“ …
Kannski er það bara málið? – Það er kannski þess vegna sem er erfitt að segja ekki frá?
Margir kannast við fjölskylduleyndarmálin, þar sem allir láta eins og allt sé í lagi en það er það ekki. Allir vilja „halda andliti“ .. – en kannski er það spurning hvort þetta andlit er ekta eða gríma? – Kannski er bara hollt að halda ekki andliti og leyfa sér að missa það … við og við svo maður festist ekki á bak við grímu?
Ég ætla að leyfa þessu að standa hérna, fyrir okkur að íhuga, en þessu varð ég bara að koma á blað, – en ekki segja neinum frá! .. 🙂