Það er svo mikilvægt að skilja hvers vegna við bregðumst við eins og við gerum. – Reiði er sjaldnast góð – nema við nýtum hana til að byggja upp, og við skulum endilega gera það í dag. –
Eftirfarandi sögu heyrði ég hjá Brian Tracy – þekktum fyrirlesara um það hvernig megi ná árangri í lífinu:
Maður sem var á sjötugsaldri kom til hans og sagðist vera reiður. Reiður út í mann sem réðist á hann þegar hann var unglingur og hélt byssu að höfði hans. – Brian sagði þá – að maðurinn væri löngu farinn úr lífi hans, – en með því að vera svona upptekinn af hugsuninni um atburðinn væri annar maður sem héldi byssunni að höfðinu: Það væri hann sjálfur. – Og með því að hugsa svona væri þessi fullorðni maður að gefa þessum ofbeldismanni valdið í sínu lífi. – Hann þyrfti að sleppa. –
Allir kinkuðu kolli. –
Hvað hefur þetta að gera með ungar konur og barnaníðinga – og fólk sem skrifar meðmæli með þessum barnaníðingum? – Jú, hvað ef að fullorðni maðurinn væri nú búinn að fá hjálp frá meðferðaraðilum og sleppir tökunum á þessum ofbeldismanni – hættur að halda byssunni upp að eigin höfði, EN svo kemur upp úr dúrnum að byssumaðurinn hefur fengið meðmæli um að hann sé góður maður og hafi bætt ráð sitt. Er þá málið ekki orðið svolítið flókið? Vantar ekki eitthvað inn í fléttuna? –
Sá sem upphaflega setti trámað af stað – var vissulega byssumaðurinn. Sá sem byssan var beint að hefur þurft að vinna úr áfallinu og hefur í raun lifað með það alla ævi. Hann ætlar þó að sleppa tökum á þessum manni, EN svo tekur eitthvað „fólk útí bæ“ það upp að mæla með því að hann fái einhvers konar náðun – og fyrirgefningu – án þess að sá sem hann braut á sé með í jöfnunni. –
Átti hann ekki fyrst að iðrast gegn þeim sem hann réðst á og er það ekki eina manneskjan sem hefur í raun VALDIÐ til að veita uppreist æru eða fyrirgefningu sú manneskja sem brotið var á. Hvernig dirfast aðrir – stjórnvöld eða aðrir að taka þá ákvörðun að manninum sé fyrirgefið?
Þarna liggja, að mínu mati, mistökin – og þarna liggur reiðin. – Þarna er „veldissprotinn“ hrifsaður úr hendi þess eina sem á rétt á að halda á honum.
Nú er það ekki lengur byssumaðurinn sem heldur byssunni að höfði mannsins á sjötugsaldri og ekki hann sjálfur – heldur fólkið sem tekur sér þetta vald að gefa manni uppreist æru – eða mælir með því, en hefur í raun ekkert vald til þess. –
Þau einu sem RAUNVERULEGA geta veitt uppreist æru eru þau sem brotið er á, hitt er bara fólk sem er að skipta sér af. –
Ekki taka valdið af þeim sem órétti eru beitt.
Enginn er valdameiri í okkar lífi en við sjálf – og um okkar mál, ekki „velmeinandi“ fólk útí bæ – ekki ráðherrar í ríkisstjórn og ekki einu sinni forseti Íslands.

Að lokum: Munum að það gæti hafa verið ég – eða þú sem skrifuðum meðmæli – eða fyrirgáfum einhverjum sem ekki var okkar að fyrirgefa. Reynum frekar að skilja aðstæður og ástæður frekar en að leita að sökudólgum, – ég held að flestar manneskjur séu góðar í kjarna sínum og vilji það sama og við hin, við þurfum að hugsa út fyrir rammann, – og höfum það í huga að þegar ásökunum linnir þá hefst batinn. –
„When the Blaming game stops – the Healing starts“ .. Það gildir fyrir einstaklinga og það gildir í samfélagi einstaklinga. – Það þýðir ekki að eitthvað sé ekki einhverjum að kenna – heldur að við tökum valdið af þeim sem það er eða var að kenna.
Sá sem fyrirgefur hefur valdið, og ekki taka valdið af þeim. –