Níu róttækar breytingar á lífsstíl sem leiða til betri heilsu ..

Þessi listi sem ég nefni hér „Níu róttækar breytingar á lífsstíl, sem leiða til betri heilsu“ – er fenginn úr bókinni   “Radical Remission: The Nine Key Factors That Can Make a Real Difference.”   Höfundur er Dr. Kelly Turner,  en rannsóknir hennar og undirbúningur fyrir bókina er um tíu ár.

Kannski erum við nú þegar að fylgja góðu mataræði, eða erum opin tilfinningalega – eða hvað það er sem við getum nú þegar merkt við á listanum, – en kannski getum við bætt um betur hvað það varðar. –  Þessi listi dugar auðvitað ekki einn og sér, enda var skrifuð heil bók um hann og er ég búin að panta hana á Amazon og bíð spennt.  (Á ekki Kindle, en mér sýnist það vera málið).

Hér á eftir fara þessi níu atriði og mín persónulega nálgun á hvert atriði fyrir sig.  Ég fór að sökkva mér ofan í þessar heilsupælingar (af einhverri alvöru) þegar ég greindist með sortuæxli í eitlum nú í desember 2014, – búið að fjarlægja meinið með skurðaðgerð en ég á eftir geislameðferð sem hefst í byrjun maí.  Ég vil gera það sem ÉG get gert til að freista þess að þetta komi ekki aftur og þess vegna m.a. fann ég bókina „Radical Remission“
1. Róttækar breytingar á mataræði 
Við erum flest farin að átta okkur á mikilvægi góðrar næringar fyrir heilsuna.  Sjálf komst ég yfir bókina 30 dagar, leið til betri lífsstíls eftir Davíð Kristinsson.  Fór reyndar á fyrirlestur hjá Davíð og hann „seldi“ mér algjörlega hugmyndina, enda hann gangandi fyrirmynd í hreysti og útgeislun sjálfur!   Þar leggur hann upp ýmsar leiðir í mataræði og mæli ég heilsuhugar með bókinni, því hún er líka einstaklega aðgengileg og vel upp sett.
Ég fór á námskeiðið 23. mars og 24.  mars hóf ég þrjátíu daga „hreinsun“ – þ.e.a.s. ég sleppi  sykri, koffíni, glúteni, geri,  mjólkurvörum, svínakjöti, áfengi og unnum matvörum.  Er á tíunda degi, – hef misst þrjú kíló og er mun skýrari í kollinum (ekki veitti af :-)).

2.  Taka ábyrgð  á eigin heilsu 

Þetta atriði er mjög brýnt, – það þýðir að við hugsum ekki bara: „Hvað getur læknirinn gert?“  Heldur líka „Hvað get ég gert til að bæta heilsu mína?“ –   Við getum nefnilega gert heilan helling, og gott að hafa fókusinn frekar á því hvað við getum í stað þess hvað við getum ekki. –  Það er mikilvægt að vinna MEÐ læknunum en ekki á móti þeim.  Dæmi væri einhver sem væri nýkominn úr aðgerð og færi ekki eftir ráðleggingum lækna, til dæmis með mataræði og hreyfingu.  Það er eiginlega bara „heimskt“ svo ég taki sterkt til orða.  Ef okkur væri t.d. illt í hnjánum og læknirinn benti á að það myndi hjálpa ef hnén þyrftu ekki að bera x mörg aukakíló – en við gerðum ekkert í þvi´værum við ekki að taka ábyrgð.
Þarna er líka verið að tala um að taka stjórn á eigin heilsu, – ef okkur líst ekki á einn lækni þá leita til annars o.s.frv.   Ákveða hvaða meðferðir við þiggjum o.fl.

3. Fylgja innsæi sínu 

Já, ef við höfum tilfinningu fyrir einhverju – þá er það yfirleitt rétt. Ef við fáum einhvern herping í magann við ákvarðanir þá eru þær yfirleitt rangar.  Stundum erum við alveg fullviss um að það sem við erum að ákveða fyrir okkur sé rétt og þá finnum við frekar til léttis en óróleikatilfinninga sem myndast þegar við erum að fara gegn innsæi okkar.

Það má líka segja að innsæið okkar sé þetta innra barn sem er að kalla, og ef við fylgjum því ekki – upplifir það mótlæti og höfnun, og við finnum sjálf til sársauka þegar við virðum ekki þessa innri rödd eða innsæi.  Það er vont að uppgötva það að hafa ekki staðið með sjálfum sér og sínu hyggjuviti og þess vegna betra að fylgja eigin sannfæringu. –  Að brjóta gegn eigin gildismati er ávísun upp á vanlíðan og veikindi.

4. Notkun á jurtum og bætiefnum (vitamínum). 

D vitamín er komið á lista yfir vísindalega samþykkt bætiefni, svo allir á Íslandi a.m.k. þurfa að úða í sig D vitamíni.  Ég er farin að taka fljótandi.  Við eigum nú heldur betur fjallagrösin og lúpínuseyði og bara nefndu það!  Turmerik og pipar hefur sannað sig að vera bólgueyðandi og allra meina bót.  Ég tek líka C vitamín og Magnesíumið fræga og ýmis önnur bætiefni mér til uppbyggingar.

5. Losa um bældar tilfinningar

Barbara Berger, höfundur bókanna um Skyndibita fyrir sálina segir að öll veikindi séu stíflur og lækningin er þá flæði. –  Bældar tilfinningar valda spennu í líkamanum og vanlíðan, svo bara út meðetta! –  Það gildir það sama um líkamann, – hægðatregða og ristilstíflur valda veikindum,  svo um að gera að vinna að því að losa.  Magnesium Citrate er eitthvað sem hægt er að taka að kvöldi og ætti að losa að morgni.  En svo ég fari aftur í tilfinningarnar (sem eru nú samt samofnar meltingunni) –  þá endilega leita til einhvers sem getur hlustað. Ég er búin að leita hjálpar hjá hjúkrunarfræðingi hjá Krabbameinsfélaginu og í Ljósinu hjá ráðgjöfum þar og það er lífsnauðsynlegt að létta reglulega á hjarta sínu, ótta sínum og því sem er bælt hið innra og maður vill stundum ekki leggja á fjölskyldu eða vini.
Þarna þarf hver og einn að finna sér farveg, – þessir aðilar sem ég leitaði til, tengjast auðvitað mínum sjúkdómi.  Það eru til ýmsar leiðir, – og það er t.d. hægt að leita til prestsins síns ef við erum þar stödd.  Ég hafði samband við mann í  Siðmennt og það er ekki búið að koma upp sálgæslu þar – en horfir til betri vegar.  Allir þurfa að finna farveg, hverrar trúar sem þeir eru.

6. Auka jákvæðar tilfinningar

Já, það er hægt að auka jákvæðar tilfinningar, – og þá förum við svolítið að velja hugsanir og hvert við erum að beina sjónum okkar og heyrn. –  Veljum okkur góða andlega næringu á sama hátt og við veljum líkamlega.  Það sem við veitum athygli vex, og þá veitum við meiri athygli því góða og jákvæða sem er að gerast og við lifum á sjónarhóli fullnægju og þakklætis í stað skorts. – Horfum á það sem við eigum og höfum, og þökkum það óspart, í stað þess að horfa til þess sem okkur vantar og getum ekki, og lifum þannig á sjónarhóli skortsins og vanþakklætis.

7. Þiggja félagslegan stuðning

Eitt af því sem mörgum okkar reynist erfitt er að viðurkenna að við þurfum hjálp og biðja um hjálp.   Það er ómetanlegt að eiga góða að þegar á reynir. – Ef fólk „fattar“ ekki að okkur líður illa.  Til dæmis að við segjum alltaf að allt sé í lagi þegar það er það alls ekki – og þá átta vinir og fjölskylda sig kannski ekki á að við erum í raun veik á bak við grímu. Við þurfum oft að taka fyrsta skrefið og biðja um hjálp, – það er nákvæmlega ekkert til að skammast sín fyrir og í flestum tilfellum er það nú þannig að það er fólk sem stekkur til um leið og óskað er eftir aðtoðinni, eða við látum vita.  Við getum ekki ætlast til að fólk lesi hugsnair okkar og svo móðgast út í það fyrir að fatta ekki! – En samt sem áður, – þá þurfum við öll kannski að vera pinku meira vakandi fyrir náunganum, skoða merkin og fleiri, því hluti af sjúkdómi getur verið að geta ekki beðið um hjálp.  Þá er allt í lagi að hringja – spyrja um líðan eða bara bjóða viðkomandi á kaffihús og spjall.  Það að láta sig varða vini sína og minna á sig reglulega er mikilvægt.

8. Dýpka tengingu við hið andlega

Hugleiðsla, – að fara inn á við, jarðtengja sig náttúru, syngja – hlusta á tónlist, eða hvað það er sem er andlegt fyrir einstakling – það má auka það. –  Ekki gleyma sér í veraldarvafstri, heldur dýpka andann.

9. Hafa mikla lífslöngun 

Já – það er mikilvægt að langa að lifa. –  Þegar ég var greind  kortéri fyrir jól, með sortuæxli í eitlum  þá komu einhverjar sekúndur – kannski heil mínúta þar sem mig langaði ekki að lifa.  Ég hreinlega nennti þessu ekki.  Nýkomin í flott starf og nýflutt, að þurfa að fara í eitthvað lækningaferli – sem ég núna 3. apríl,  búin með að miklu leyti – var ekki eitthvað sem ég nennti. –

Þeir sem þekkja söguna mína skilja kannski að mér fannst borið í bakkafullan lækinn.  Ég hafði áður misst lífslöngun – það var í janúar 2013 þegar ég horfði á eftir dóttur minni í gröfina, – ég missti ekki bara lífslöngun – ég fékk löngun til að fara á eftir henni.  Það hafa flestir foreldrar sem hafa misst upplifað.  Á þeirri stundu skiptir ekkert máli nema þessi eina dóttir eða sonur og tómarúmið sem myndast verður þannig að það er eins og þetta hafi verið eina manneskjan í heiminum. –  Þetta innra strögl frá 2013 varð ljóslifandi við fréttina af mínu krabbameini og í meðferðinni minni var ég alltaf að fá „flashback“ enda send í skanna á sama spítala og hún lést „Rigshospitalet“ í Kaupmannahöfn, –
Lífslöngun –  þessi 9. liður snerti mig dýpst og er ég mest að vinna í honum, og sem betur fer hef ég getað rætt þessar endurupplifanir við ráðgjafana hjá Krabbameinsfélaginu og Ljósinu og það hefur komið mér aftur „on track“ –  eða í þann farveg að hafa gaman af lífinu, og á sjónarhól þakklætis, – horfi til þess sem ég á en ekki einungis á það sem ég hef misst, og breyti missinum í stuðning og styrk. –

Ég hef amk það mikla lífslöngun að ég leita leiða til að bæta mitt líf og heilsufar svo ég geti aukið líkurnar á að mitt sjúkdómshlé sé varanlegt og ég fái að deyja södd ævidaga í hárri elli, geti fylgt börnunum mínum eftir og barnabörnum sem eru mér svo afar, afar kær. –  Ég hef það mikla lífslöngun að ég tek ábyrgð á eigin heilsu og mín framtíðarsýn er að vera prédikandi heisuhraustur hippi,  með sól í hjarta og án eftirsjár, – ekki hugsa: „Ef ég nú hefði“ ….   Mig langar að vera þátttakandi í lífinu – en það er ekkert gaman nema að gera það saman.  Það er mitt mottó, og mitt uppáhaldsorð þessa dagana er „saman“ – og ég vona að þú sem lest sért til í að við vinnum saman að betri heimi, betri heilsu og meiri hamingju og leggja þannig í púkkið!  🙂

Með þakklæti fyrir allt sem mínir vinir og elskulega fjölskylda hafa veitt mér og fyrir allan stuðninginn – hvaðan sem hann kemur.

ÁST

radical

 

Nánari umfjöllun er HÉR 

Þegar ég er spurð um sjálfa mig byrja ég að tala um börnin mín og vinnuna ….

Mér hefur verið bent á það að tveimur viðmælendum, undanfarið,  að þegar ég er spurð út í sjálfa mig eða heilsuna, fari ég að tala um starfið, hvernig það gangi, sigra og ósigra í því o.s.frv. –  Einnig tala ég um fjölskylduna, hvernig henni vegnar o.s.frv. –    Ég hélt ég væri mjög sjálfhverf, – kannski bara sjálfhverf á facebook? –   Set inn myndir af sjálfri mér og segi fréttir af sjáfri mér þar. –

Ég veit það að starfsumhverfi skiptir mig máli og ég veit það enn betur að börnin mín og börnin þeirra skipta mig enn meira máli. –   Til að mér líði vel þarf ég að vita að vel gangi í vinnunni og að börnunum mínum líði vel. –   EN ég á auðvitað að vita að það virkar líka á hinn mátann, – ef ég er frísk og líður vel þá gengur betur í vinnunni og þá líður líka afkomendum betur. –   Þetta virðist innræktað í mann að ef við hugsum fyrst „Hvað er gott fyrir mig?“ –   í stað þess að hugsa „Hvað er gott fyrir hina?“  – þá séum við eigingjörn.

Nágrannakona mín elskuleg- skrifaði á facebook: „Mundu hver er í fyrsta sæti og hver ætlar að elska sig og virða þarfir sínar sérstaklega,  um páskana“ .. 

Það er m.a. hún og síðan vinnuveitandi minn á Sólheimum,  sem hafa bent mér á að þegar ég er spurð: „Hvernig líður þér?“ – eða „Hver er staðan á þér?“ –  (M.a. út af því að ég er frekar nýkomin úr krabbameinsaðgerð) þá fer ég að tala um vinnuna  (sérstaklega við vinnuveitandann) – og svo um börnin mín og hverng þeim gengur og hvað þau eru að gera o.s.frv. –

„Setjið súrefnisgrímuna á ykkur fyrst og aðstoðið síðan barnið“ .. gamla tuggan sem við reynum að læra, en virðist seint lærð.

Hverjar eru þarfir MÍNAR?   Hverjar eru óskir MÍNAR? –    „Jú, að börnin mín og barnabörn og fjölskylda öll sé heil og hamingjusöm og að starfið gangi vel – og ÞÁ muni ég geta verið heil og hamingjusöm“  … myndi ég eflaust svara … EN sjálf hef ég kennt að það á ekki að vera neitt skilyrði fyrir hamingjunni  – og við eigum ekki að lifa í „ÞÁ“  – „EF“ – og „ÞEGAR“  .. heimi,  og þetta virkar í raun öfugt.

Hamingjan dregur vagninn en ekki vagninn haminguna. –

Hugurinn minn er svo mikið við starfið að ég var að leita lausna við ákveðin mál daginn eftir aðgerð, þegar ég lá inni á sjúkrahóteli. –   Þetta er ekki dugnaður, þettta er klikkun! .. eða a.m.k. heilkenni.

Þetta er „EF – ÞÁ heiikennið“  ..  EF að lausn finnst í þessu atriði í vinnunni – ÞÁ get ég sofið vel“ ..   sama gildir um fólkið mitt.

Æðruleysi – lognið í storminum, – enn og aftur.

Ég veit ég er langt í frá eina manneskjan sem hugsa svona, – og ég þarf enn og aftur að læra að  sleppa.

Ég læri það við og við og stend kúl og keik, – en um leið og eitthað brestur, eins og að verða veik, þá er eins og jarðtengingin verði verri og ég fer, eins og hendi sé veifað, er farið í að bjarga heiminum, – þrátt fyrir að vita að ég þarf fyrst og fremst að bjarga sjálfri mér.

Merkilegt! –

En það er gott að sjá meinið eða heilkennið, – vera meðvituð um það og VIÐURKENNA,  öðruvísi er ekki hægt að lækna.

Ég ætla að taka þessi orð elskulegu nágrannakonunnar til mín um páskana og áfram auðvitað eftir páska:

„Mundu hver er í fyrsta sæti og hver ætlar að elska sig og virða þarfir sínar sérstaklega,  um páskana“ .. 

og svo ein „selfie“ í lokin 🙂

WIN_20150101_222033