Af hverju ljúgum við? …..

„We are all wired for love and belonging“ … Brené Brown.

Við þráum öll að vera elskuð … og tilheyra.

Það sem okkur er kennt er að við séum einhvers virði ef við erum „gerendur“…

Það þýðir að við þurfum að vinna okkur inn fyrir viðurkenningu – sem við setjum í sama flokk og það að vera elskuð og virt.

Þau gildi sem hafa verið við lýði svo lengi, eru gildi eins og að vinna mikið og vera dugleg, að þá séum við öðrum þóknanleg. –   Og við gerum það sem aðrir vilja að við gerum,  svo þeim líki við okkur.

Við erum alin upp við skilyrta elsku,  – það þýðir að ef við gerum þetta eða hitt,  þá séum við elsku verð.   Elskan er skilyrðislaus.

Af hverju ljúgum við? –    Af hverju segjum við það sem hljómar ljúft í eyru þess sem heyrir?     Af hverju segjum við við barn sem biður um kex að það sé ekki til,  – þó það sé til, – en segjum ekki bara „nei – það er ekki í boði núna“ ..    við erum að halda barninu góðu, svo því líki við okkur. –    (Einfalt dæmi).

Við ljúgum því við viljum ekki vera leiðinleg, – við viljum halda öðrum góðum.

Kokkurinn eldaði bragðlausan mat, –  gjaldkerinn kvartaði við kokkinn, – og kokkurinn varð sár.   Hann spurði restina af starfsfólkinu (sem hafði kvartað við gjaldkerann)  hvernig þeim líkaði maturinn,  – og allir sögðu að hann væri alveg ágætur.    Gjaldkerinn  féll í ónáð hjá kokkinum,  –  og varð ótrúverðugur (því enginn vildi kannast við að hafa kvartað).

Restin af starfsfólkinu – vildi ekki segja sannleikann,  því það vildi ekki særa kokkinn,  og vildi að kokkinum líkaði vel við sig – og   ákvað því  að það væri betra að ljúga,  en það þýddi auðvitað að kokkurinn gat ekki bætt sig, því hann hélt hann væri bara að elda ágætis mat.  (Þetta var annað dæmi).

Oft er talað um það að skjóta ekki sendiboðann,  en þá er það sendiboðinn sem segir sannleikann.

Við ljúgum – eða segjum a.m.k. ekki sannleikann – eða höfum hann léttvægan,  vegna þess að við erum hrædd við að særa eða að einhverjum líki ekki við okkur. –  Við verðum s.s. óvinsæl.

Það er betra að vera frjáls í sannleikanum  … en að vera fangi í lyginni.

12513921_10153937867815482_6433167876617420959_o.jpg

 

Hvað myndir þú ráðleggja vini þínum eða vinkonu?

„Vertu þinn besti vinur“  „Vertu þín besta vinkona“ …  þessar setningar gætu komið frá foreldrum, ráðgjafa eða hverjum sem ræður þér heilt.

Við höfum kannski sjálf sagt þetta við einhvern.

En þegar kemur að okkur sjálfum,  förum við eftir þessu? ..

Spurning sem ég hef stundum lagt fyrir fólk sem er í ofbeldissamböndum er:  „Myndir þú vilja sjá son þinn/dóttur þína í sambandinu sem þú ert í dag? ..    og fólki bregður stundum við –  og í sumum tilfellum  er þetta samband ekki ofbeldissamband, heldur bara óánægjusamband.

Það er stundum gott að stíga út fyrir sjálfa/n sig og vera eiginn áhorfandi.  Vera okkar besti leiðbeinandi vinur.   Hvað myndi þessi vinur ráðleggja okkur í ákveðnum aðstæðum? 

Myndi hann ekki hvetja okkur til að standa með okkur sjálfum?   Myndi hann ekki segja okkur að við ættum allt gott skilið? –    Að við værum verðmæt og elsku verð?   

Er það okkar eigin sjálfstal? –  Eða fer þetta út í hið öfuga, þ.e.a.s. að við verðum okkar versti óvinur? –

Engin/n þekkir okkur betur en við sjálf, tilfinningar okkar og upplifanir, – þannig að við ættum að vera okkar besti ráðgjafi miðað við aðstæður okkar.   Og ef við getum réttlætt fyrir sjálfum okkur að við séum að gera það besta besta fyrir okkur,  út frá sjónarhóli þess sem vill okkur það besta, – þá þurfum við ekki að réttlæta fyrir öðrum.    Og það má ekki hindra okkar ákvarðanir,  þessi leiðinda spurning:  „Hvað segir fólk?“ ..  Þetta „fólk“ hefur ekki gengið í þínum sporum,  mætt viðmótinu sem þú hefur mætt – eða fundið sársaukann þinn.  („Nobody knows the trouble I´ve   seen, nobody knows but Jesus“)..   Annað fólk hefur auðvitað mætt sínum djöflum, – en það lifir engin/n lífinu fyrir aðra manneskju og því er ekki réttlátt að dæma aðra manneskju út frá sínum eigin forsendum.

Það eru margir sem skilja okkur – að hluta til – en í raun er það enginn sem getur sett sig 100% í okkar spor  – nema við sjálf  og e.t.v.  Jesús – ef við erum þannig „trúandi“ ..

Það er ágætt að doka við – á lífsgöngunni og spyrja sig:  „Er ég staddur/stödd á þeim stað í lífinu sem ég vil vera?“   –   Hvað með starf?   Hvað með samband?    „Er ég að fylgja hjarta mínu og innsæi?“ ..   Það eru alls konar svona spurningar.

Ef við upplifum mikið af neikvæðum tilfinningum – og upplifum að við séum föst,  þar sem við erum,  þurfum við að spyrja vininn eða vinkonuna um ráð. –   Þessa aðila sem vilja okkur allt hið besta, – eins og þeir væru að ráðleggja börnum sínum.

Nýlega sá ég videó þar sem fólki var kennt að teikna upp stöðu sína í dag, –  og svo aftur eftir ár.    Ef engar hindranir væru í farveginum,  hvar væri fólk þá statt eftir ár?  –

Sumt fólk er bara statt akkúrat þar sem það vill vera í lífinu –  með góðum maka, eða hamingjusamlega einhleypt,  –  í góðu starfi og góðu starfsumhverfi,  eða sjálfstætt starfandi við það sem það dreymdi um sem barn? ..

Hvar eru draumar barnsins?  –  Eru þeir einhvers virði?

Allt þetta er hægt að skoða með „vininum“  eða „vinkonunni“ …  sem sér verðmæti þitt, trúir á þig – og að þú hafir alla möguleika á að vera farsæl og hamingjusöm manneskja.

Og auðvitað er vinurinn eða vinkonan við sjálf! ..

536703_549918495048818_1296317144_n

Móteitur við hatri og ofbeldi er ekki hatur og ofbeldi. Móteitrið er kærleikur.

Það er auðvelt að elska þau sem eru elsku verð. Það er auðvelt að elska ungabarnið og það sem er viðkvæmt.

Einu sinni vorum við öll ungabörn.  Líka fólkið sem nauðgar og fremur hryðjuverk.  Einhvern tímann voru þessir einstaklingar börn – sem voru elsku verð.

Hvenær hætta þau að vera þess virði að elska – og hvenær voru þau á einhvers konar núlpunkti  þar sem hvorki var hægt að elska þau né hata?    Ætli foreldrar hryðjuverkamanna elski börnin sín?

Hvað með þau sem óttast þau sem fremja hryðjuverk?    Fólkð sem er kallað „hatarar“ vegna þess að þau alhæfa um fólk sem aðhyllist ákveðin trúarbrögð eða af ákveðnum kynstofni?   Er hægt að elska Donald Trump eða forsvarsmenn Útvarps Sögu? –

Eru þau „idjótar“ – eða eru þau bara hrædd? –  Þurfa þau þá ekki meiri kærleika frá okkur sem erum ekki hrædd og getum gefið kærleika?  .. 

Það er ósköp eðlilegt að fjúki í fólk – þegar að fólk opinberar ótta sinn – eða meint hatur í garð annars fólks,  en það er líka spurning um að reyna að skilja af hvaða sjónarhóli einstaklingarnir sem tjá sig tala.  Það er af sjónarhóli óttans.   Einhver þarf að rjúfa óttakeðjuna.     Hún er einungis rofin með kærleika og  í kærleikanum er skilningur. 

Hatur er ótti við það sem við skiljum ekki.

Hatur og biturð getur aldrei læknað vanlíðan sem stafar af ótta; elskan getur einungis   gert það.  Hatur lamar lífið;  kærleikur eykur samhljóminn. Lífið myrkvast af hatri;  elskan  lýsir upp lífið. –  (þýðing á neðangreindu eftir MLK).

kærleikurHvernig við bregðumst við – það sem við sendum frá okkur skilgreinir okkur en ekki fólkið sem tilfinningar okkar beinast að. –   Hvað er hið innra með okkur?   Er það ótti eða elska?

Við eigum öll ótta hið innra – við eigum öll hatur – en við eigum líka endalausa uppprettu kærleika. –

Í fyrsta bréfi Jóhannesar stendur:

Ótti er ekki í elskunni, heldur útrekur fullkomin elska óttann; því að óttinn felur í sér hegningu, en sá sem óttast, er ekki fullkominn í elskunni.  Vér elskum, því að hann elskaði oss að fyrra bragði. Ef einhver segir: eg elska Guð, og hatar bróður sinn, sá er lygari; því að sá sem ekki elskar bróður sinn, sem hann hefir séð, getur ekki elskað Guð, sem hann hefir ekki séð.“ –

Móteitur við hatri og ofbeldi er ekki hatur og ofbeldi. Móteitrið er kærleikur. 

12108853_1230698416975154_6120064754146282601_n

Blómagarður mannlífsins …

Það er fjölbreytt flóran í jurtaríkinu – ekki síður en mannlífsflóran.  Af einhverjum ástæðum hefur Guð ákveðið að það væru til alls konar blóm, en ekki bara ein tegund. Svo eru blómin stundum til í alls konar litum,  eins og við þekkjum t.d. hvað varðar rósir og túlípana.

Gæfuspor mín  í lífinu hafa m.a.  verið að kynnast alls konar fólki – af öllum stærðum og gerðum,  og þar með talið fólki með fötlun.

Það má segja að ég hafi mína fyrstu alvöru reynslu af því að starfa með fötluðum einstaklingum þegar ég tók að mér kennslu  fyrir Símenntunarmiðstöð Vesturlands, – veturinn 2012 – 2013  en þá gerði ég mér einnig grein fyrir hæfileikum eða eiginleikum sem nemendur mínir höfðu sem ég hafði aldrei upplifað eins skýrt hjá neinum nemendum áður.  –

Það voru eiginleikar eins og heiðarleiki og einlægni.  Þau voru svo mikið ekta.  Seinna kynntist ég fleiri einstaklingum með fötlun þegar ég leiðbeindi á námskeiðum annars staðar,   en síðan var það í nóvember 2014 að ég hóf störf á Sólheimum í Grímsnesi,  þá opnaðist nýr heimur – „Sól-heimur“ –  og þar er mannflóran svo sannarlega skrautleg og litrík. –   Ekki einsleit,   heldur rauð, gul, græn og blá .. eins og regnboginn.

regnbogablóm

Ef hún væri blómagarður finndust þar rósir, túlípanar, nellikur, fíflar, baldursbrár, fjólur, soleyjar og sólblóm .. svo eitthvað sé nefnt.

Það er ekki hægt annað en að fagna þessum litskrúðuga mannlífsgarði – og gleðjast yfir því að tilveran er í lit en ekki einungis svart/hvít.   Svo eru auðvitað alls konar afbrigði  og litiraf rósum – túlípönum o.s.frv. … eins og áður sagði.

Í dag,  21. mars 2016,  er alþjóðlegur dagur Downs heilkennis.  Það eru svo sannarlega ekki allir eins sem eru með Downs heilkenni,  en það er þó margt sem þau hafa sameiginlegt.  Það sem mér finnst uppáhalds hjá þeim sem ég þekki er brosið sem nær til augnanna.   

sólblóm2

Já, ég  á vini og vinkonur sem eru með Downs heilkenni – og þau eru litrík eins og hin blómin í mannlífsgarðinum.

Þessi blóm eru dýrmæt – eins og öll góð sköpun Guðs.

„Hver hefur skapað blómin björt?“ ..   höfum við sungið í kirkjuskólanum …

og auðvitað syngjum við líka  „Hver hefur skapað þig og mig?“ ..

og já svarið er: „Guð á himninum“ …

Ég fagna degi alþjóðlegum degi Downs heilkennis,  eins og ég myndi fagna alþjóðlegum degi sólblóma,   því að blóm og fólk eiga athygli skilið  – og það sem þú veitir athygli vex og dafnar.  

sólblóm1

 

Skrifað með innilegu þakklæti fyrir að fá að lifa og starfa með fólki með fötlun – og fá þar af leiðandi bestu kennara lífs míns.   

Jóhanna Magnúsdóttir,  sérþjónustuprestur á Sólheimum

 

Að láta eins og allt sé í lagi þegar það er ekki í lagi …..

Það er afskaplega falleg hugsun – sem ég persónulega nota oft – að hugsa „allt er í lagi“ .. eða eins og Louise L. Hay segir „all is well“ …

Þessa hugsun þarf þó að nota rétt, – hún er til þess að róa hugann og komast í æðruleysi, en hún er ekki til þess að draga yfir ástand sem er í kringum okkur. –

Segjum að skip stefni hratt í átt að ísjaka, og stýrumaðurinn komi hlaupandi að skipstjóranum og bendi honum á þá staðreynd, –  en skipstjórinn er svo ákveðinn að allt sé í lagi að hann bara stýri á ísjakann,  þyljandi fyrir sér „all is well“  …

Það er nefnilega hægt að misnota frasana svo illilega.

Lífið er líf mótsagna og þversagna.

Hér eru t.d. tvær setningar sem ég hef tileinkað mér og notað:

„Þú verður að viðurkenna vandann til að eitthvað breytist“  (You have to see your pain to change).

og

„Það sem þú veitir athygli vex“ …

Þessar setningar eru í mótsögn hvor við aðra,  en þær eru samt báðar sannar.

Stundum neyðumst við til að veita vanda sem að höndum ber athygli,  en það er ekki til að dvelja í honum heldur til að breyta því ástandi sem veldur vanda eða ástandi.  Ef við neitum vandanum – lifum í afneitun eða blekkingu  þá leysist ekki vandinn heldur hann fær að grassera í friði.

Hvað ef skipstjóri Titanic hefði veitt vandamálinu athygli?   – Vandamálið var þá ísjakinn sem skipið stefndi á.  Þá hefði hann getað stýrt skipinu frá ísjakanum.

Þegar við sjáum fæðingarblett á húð sem er grunsamlegur, – og látum ekki tékka á honum og segjum bara að allt sé í lagi, – þá getur hann vaxið í það að verða að sortuæxli.

Í öllu verðum við að vera skynsöm,  og það er mjög mikilvægt að horfast í augu við staðreyndir og flýja þær ekki með frösum um að veita ekki athygli því sem er að.

Við getum verið óendanlega jákvæð – en broskall yfir bensínmæli sem sýnir tóman tank dugar ekki til að koma bílnum af stað.

Ég hef séð margar skilgreiningar á meðvirkni, – en það var í íslenskri bíómynd þar sem ein sögupersóna bar upp spurninguna:  „Hvað er meðvirkni?“ –   og sá sem svaraði sagði:  „Að láta eins og allt sé í lagi þegar það er það ekki“ ..

Það er klassískt fyrir börn sem hafa alist upp við alkóhólískar aðstæður að hugsa svona,  – því það var þeirra leið til að komast af.  Þau höfðu ekki tækin eða máttinn til að breyta aðstæðum og urðu því að sætta sig við þær.   Það eru eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum.  „Allt er gott“ ..   Þessi hegðun getur fylgt uppkomnum börnum alkóhólista ef þau vinna ekki í sínum málum.

Við þurfum að vera skynsöm og greina á milli þess sem við getum breytt og því sem við getum ekki breytt.

Þegar  við erum börn – getum við setið uppi með aðstæður sem við ráðum engan veginn við.   Við getum ekki breytt og ekki farið.  Við erum föst í aðstæðum.

Þegar við verðum fullorðnar manneskjur,  höfum við svo miklu, miklu meiri möguleika á að breyta.    Við getum jú valið að sætta okkur við eitthvað ástand sem við þó vitum að ekki er í lagi, –  en ef við getum breytt eða höfum hugrekki til þess,  þá kemur okkur til með að líða betur því við förum eftir eigin gildum og því sem hjartað segir okkur.   Og svo er annað sem við höfum fram yfir stöðu okkar sem barns,   við getum stigið út úr aðstæðum.

Þegar við erum börn,  – þá er oft engin/n sem leiðir okkur út úr aðstæðum,  en sá eða sú sem leiðir þetta barn út úr fullorðinsaðstæðum okkar – erum við sjálf.

Við getum meira að segja haft það táknrænt, – séð okkur sjálf fyrir okkur sem börn í óæskilegum aðstæðum eða stundum hörmulegum ef við höfum upplifað þær,  og við segjum við okkur sjálf:  „Elskan mín,  nú ætla ég að leiða þig út í frelsið – þú þarft ekki að vera þarna lengur“ …    Það getum við „vonandi“ í dag,  ef einhver á að bjarga okkur úr aðstæðum eða ástandi sem er okkur óhollt og óeðlileg þá erum það við sjálf.

Við höfum fjóra valkosti:

  1.  Að tauta og röfla yfir aðstæðum okkar  (það skorar aldrei feitt og eykur vanlíðan) – nema þá að kvarta við einhvern sem getur og vill aðstoða okkur við að breyta aðstæðum.
  2. Að sætta okkur við aðstæður  (það er það sem barnið þarf að gera,  það er ekkert annað í boði,   og stundum þurfum við að gera það –  í aðstæðum þar sem við höfum ekki val).
  3. Að breyta aðstæðum,  að leggja okkar af mörkum til að breyta viðvarandi ástandi – bæði vera breytingin og fá aðstoð annarra.
  4. Að yfirgefa aðstæður, –  ef það er nokkur kostur að stíga út fyrir ástand sem er að meiða okkur og við höfum lýsti yfir vanmætti að breyta.

 

Hér er í raun um æðruleysisbænina að ræða.

Guð gefi mér æðruleysi

til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt

Kjark til að breyta því sem ég fæ breytt

og vit til að greina þar á milli

AMEN

Munum að það eru tvær „yfirtilfinningar“ –   þær heita   KÆRLEIKUR OG ÓTTI

Ef við látum óttann stjórna för,  óttann við óvissu – vegna þess að við vitum hvað við höfum en ekki hvað við fáum,  þá er mjög líklegt að við séum föst.  Enda er orðið „kjarkur“ notað í æðruleysisbæninni því það þarf kjark til að breyta og kjark til að sigrast á ótta.  Við getum alveg verið hrædd, en megum ekki láta óttann sigra.

Ef kærleikurinn er með í för,  þá munum að við gerum það sem við gerum í anda kærleikans,  – við elskum okkur og náungann það mikið að við erum tilbúin að mæta óttanum  (óvininum) – með kærleika –  til að breyta því sem við getum mögulega breytt.

Hvað  fáum við svo út úr því að fylgja hjartanu?    Jú við erum sönn okkur sjálfum og við höfum frelsað barnið – sem var fast í aðstæðum úr þeim aðstæðum sem því leið ekki vel í.

Það er alltaf einhver sem elskar þig … og það er best ef það ert  líka þú  ….

10553404_936503526365002_406861571316943881_n

 

Heilbrigð reiði styður heilbrigð mörk ..

Eftirfarandi „status“ setti ég á Facebook – og hann virtist höfða til margra, og svo hann týndist ekki í fjöldanum ákvað ég að koma honum fyrir í blogginu mínu,  og hér er hann:

Ef að einhver gengur upp að okkur og – fer að atast í okkur, við biðjum viðkomandi að færa sig frá en hann gerir það ekki, þá jafnvel ýtum við viðkomandi frá. Tilfinningin sem kemur um leið og við ýtum frá er heilbrigð reiði eða það sem við köllum oftar réttláta reiði. Heilbrigð reiði sprettur fram t.d. þegar við erum að virða eigin mörk. –
Það er búið að tala svo mikið um að það sé veikleikamerki að reiðast, en reiði er mannleg tilfinning og ef hún fær ekki útrás, getur hún gert okkur veik.
Það er bælingin sem er hættuleg, – „suppression“ sem getur leitt líka til „depression“ .. það er okkur eðlilegt að fá útrás fyrir tilfinningar.
Þetta er svo alvarlegt (eins og áður sagði) að bælingin getur gert okkur veik. Ekki bara andlega heldur líka líkamlega.
(Þetta er innblástur frá Gabor Maté).

Við þetta má bæta,  að stundum þegar einhver er að brjóta mörkin okkar, – jafnvel þannig að á okkur finnist á okkur brotið,  eins og að fara nudda axlir eða strjúka á óviðeigandi hátt,  þá þorum við ekki að segja neitt, bara frjósum eða látum eins og ekkert sé –  og það er þessi undarlega hugmynd okkar að við viljum ekki vera leiðinleg.  Þarna erum við ekki að hlusta á okkar rödd,  – heldur að geðjast eða þóknast á svo undarlegan máta.  Það er því mjög mikilvægt að vita að þá MÁ segja NEI,  og það hefur ekkert með það að gera að við séum leiðinleg,  – heldur að við erum að virða mörkin okkar og þá okkur sjálf.

Og já,  það má reiðast – það er sjálfsvörn og það er heilbrigt!! ..

Eiga næstum allir sjúkdómar, andlegir – sem líkamlegir rætur í reynslu frá bernsku?

Samkvæmt Dr. Gabor Maté sem er býsna klár „Doktór“ .. (hægt að gúgla hann og hlusta á aragrúa fyrirlestra á youtube).   Þá er það hans niðurstaða að allir – eða næstum allir sjúkdómar – líkamlegir, sem andlegir eigi rætur í upplifunum sem við verðum fyrir í bernsku.

Það stemmir alveg við það sem ég lærði um sjúkdóminn meðvirkni, því rætur hans liggja alltaf í upplifunum í bernsku.

Mér finnst mikilvægt að vekja athygli á þessu,  vegna þess að í dag er fullt af börnum sem við getum forðað frá sjúkdómum, eða skaðaminnkað áhrif okkar eða samfélagsins á þau.

Við getum að sjálfsögðu ekki forðað þeim frá áföllum eins og dauðsfalli í fjölskyldunni og jafnvel ekki skilnaði.  Það getur verið meira trauma fyrir barn að búa  með foreldrum sem eru ósátt við hvort annað, og eiga í vondum samskitpum,  en í sitt hvoru lagi, svo skilnaður er ekki verstur.

Erfiðleikar í lífi barns felast ekki endilega í þessum „hefðbundnu“ áföllum – og ytri áhrifum, heldur í  framkomu þeirra sem eru því næstir.   Það hefur heldur ekki bara áhrif hvað foreldrar segja – heldur líka hvernig foreldrar eru,  og viðmót þeirra.

Stressaðir foreldrar, uppstökkir – og þeir sem eru undir miklu vinnuálagi hafa neikvæð áhirf á bernsku barna sinna.  Börnin eru svo viðkvæm og opin að þau skynja og taka inn á sig líðan foreldra.    Þess vegna er það svo mikilvægt að hvert og eitt foreldri líti í eigin barm og hreinlega geri allt til að láta sér líða vel  – og þá er ekki um að ræða í gegnum áfengisnotkun eða aðra vímuefnanotkun,   heldur að finna innri ró og yfirvegun.

Hamingjusamt foreldri í jafnvægi er það besta sem barn getur hugsað sér og – jafnframt sem veitir barninu athygli og viðurkenningu. –

Ég hef starfað sem ráðgjafi í mörg ár,  – og rætt við mikið af fólki sem kannast ekki við að hafa orðið fyrir áföllum í bernsku,  og átt „bara góða“ bernsku,  en áföllin eru lúmsk og koma hægt og sígandi inn.   Það eru áföll sem virka eins og dropinn sem holar steininn.

Börn sem taka „skapofsaköst“ eru bara að tjá sig á þá leið sem þau kunna, en þau kunna kannski ekki að segja á annan hátt hvað þeim líður illa.   Þau eru að fá útrás,  og allir verða að fá útrás.   Það er því ekkert endilega betra að barn sé alltaf „stillt og hljótt“ – því það getur verið að bæla eitthvað sem er að gerjast um innra með því.

Sumir fullorðnir kunna ekki við að segja frá uppákomum eða hlutum í bernsku sem þeim fannst vondir eða bælandi,  vegna þess að þeir upplifa að þeir séu að ásaka foreldra eða aðra uppeldisaðila,  en í því felst ekki ásökun.  Foreldrarnir voru líka særð börn særðra barna – og  ef enginn rýfur keðjuna og sér sárin,  þá er ekki hægt að lækna þau.

„You have to see your pain to change“ ..

Það er því ekki ásökun sem felst í því að skoða fortíð og viðurkenna hana, heldur bara raunveruleikatékk.   Það segir ekkert um ást okkar til foreldra – að viðurkenna að þau voru ófullkomin, enda svosem ekki hægt að ætlast til þess að einhver sé fullkominn.

Það sem við getum gert,  hvert og eitt, er eins og áður sagði,  sett í forgang að leitast við að minnka álag og stress,  neyta ekki áfengis eða annarra hegðunarbreytandi efna í óhófi í kringum börn.    Fara vel með okkur og elska okkur –  svo við séum fær um að elska börnin og þannig kenna þeim sjálfsvirðingu og sjálfsást.   (Sem er ekki eigingirni eða sjálfhverfa).

Þegar við kunnum ekki að setja mörk – og eigum ekki sjálfsvirðingu kunnum við ekki að segja nei þegar við þurfum kannski að segja nei,  og þá segir líkaminn oft nei fyrir okkur.  Segjum „nei“ áður en við hrynjum, andlega eða líkamlega, –  og ef við erum orðin veik þá tökum ákvörðun í dag um að elska okkur skilyrðislaust.   Það þýðir að við þurfum ekki að vera „dugleg“  eða þóknast eða geðjast umhverfi okkar.    Við þurfum að bera ábyrgð á eigin hamingju,   og vera okkar eigin foreldrar og gefa okkur annað tækifæri á góðri bernsku!

Smá í lokin:  Ef þú ert foreldri að lesa þetta,  þá tek ég það sérstaklega fram að þessi grein er ekki til að valda samviskubiti eða skömm, og alls ekki dómur.  Í dómum felst ekki skilyrðislaus sjálfsást – eða umhyggja.   Skömmin er undirrót flestra fíkna og þegar við vökunum upp við vondan draum,  þá á ekki að dvelja í martröðinni heldur fagna því að vera vöknuð og við höfum tækifæri til að hlúa að okkur og verða sáttari og hamingjusamari manneskjur.   Tími breytinga og ákvarðana um betra líf er alltaf NÚNA.

 

10363494_10153249847397294_4075613464496825873_n